Hjúkrunarfræðingur

Heiti stéttarfélags/stjórnar:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga

Nafn á tengilið:

Herdís Sveinsdóttir, formaður

Aðsetur:

Suðurlandsbraut 22,
108 Reykjavík.
Sími: 540 6400,
Fax: 540 6401,
Netfang: hjukrun@hjukrun.is,
Vefslóð: www.hjukrun.is

Starfssvið (hlutverk):

Rétt til að stunda hjúkrun hér á landi og kalla sig hjúkrunarfræðing hafa þeir sem fengið hafa hjúkrunarleyfi sbr. Hjúkrunarlög nr. 8/1974.

Hjúkrunarfræðingar bera faglega ábyrgð á hjúkrunarþjónustu í landinu. Þarfir þjóðfélagsþegna fyrir hjúkrunarþjónustu er það grundvallaratriði sem markar störf þeirra. Hjúkrunarfræðingar hafa fjölþætta menntun og reynslu af að starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar.

Ekki er til nein ein einföld skilgreining á hjúkrun. Eðli starfsins er þannig að ekki er hægt að skilgreina það endanlega í nokkrum orðum. Til að gera sér betur grein fyrir því hvað hjúkrun er, er gott að skoða hvað felst í hugtakinu hjúkrun og hvert er markmið hennar. Helstu þættir hjúkrunar eru leiðbeiningar, ráðgjöf og kennsla til skjólstæðinga og aðstandenda þeirra, stuðningur við sjúklinga og aðstandendur, bein aðstoð eða umönnun sjúklinga og aðstandenda, endurhæfing, rannsóknir og stjórnun. Markmið hjúkrunar er að auka heilbrigði og vellíðan (andlegt, líkamlegt og félagslegt), vernda heilsu og fyrirbyggja sjúkdóma. Þessu sinna hjúkrunarfræðingar víðsvegar í þjóðfélaginu, s.s. á heilbrigðisstofnunum, í heimahúsum, á vinnustöðum, í fyrirtækjum og í menntastofnunum.

Í stefnu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga stendur m.a. í kaflanum um hugmyndafræði hjúkrunar:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga:

  • Telur að frumskylda hjúkrunarfræðings sé að stuðla að velferð, frelsi og mannhelgi skjólstæðings.
  • Telur að í hjúkrun felist að tekið sé mið af því að einstaklingurinn mótast af samspili flókinna líffræðilegra og sálrænna eiginleika sem samofnir eru félagslegu umhverfi. Allir þessir þættir snerta velferð og þroska einstaklingsins.
  • Telur að í hjúkrun verði ávallt að taka mið af skilningi einstaklingsins og túlkun á lífi hans, líkama, aðstæðum og atburðum. Sá skilningur mótast af menningarlegu umhverfi einstaklingsins og lífsreynslu.
  • Leggur áherslu á að hjúkrunarfræðingar nýti þá nálægð sem hjúkrun felur í sér til að veita skjólstæðingnum ráðgjöf og stuðning til að takast á við alvarleg veikindi, fötlun eða streituvaldandi atburði, s.s. missi ástvinar eða breytingu á hlutverki og stöðu í kjölfar veikinda.
  • Telur að samskipti hjúkrunarfræðings og skjólstæðings séu þungamiðja hjúkrunar.
  • Telur afar mikilvægt að hjúkrunarfræðingar taki mið af aukinni tæknivæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar með því að miða hjúkrun ávallt við persónulegar þarfir og óskir sjúklings og fjölskyldu.

Í stefnu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir enn fremur: Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga:

  • Telur að tryggja beri rétt allra þjóðfélagsþegna til viðeigandi heilbrigðisþjónustu.
  • Telur að leggja beri höfuðáherslu á uppbyggingu heilsugæslu í landinu og að „heilbrigði allra“ skuli ávallt haft að leiðarljósi.
  • Telur að heilbrigðisþjónustunni beri að leggja sérstaka áherslu á þarfir þeirra einstaklinga sem standa höllum fæti, t.d. þeirra sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður, langvinn veikindi og fötlun.
  • Telur mikilvægt að heilbrigðisþjónustan sé sveigjanleg, þ.e. taki tillit til ólíks bakgrunns, væntinga og óska skjólstæðinga og sé jafnframt samhæfð annarri samfélagslegri þjónustu. Hún taki mið af flóknu samspili mismunandi þátta sem hafa áhrif á heilbrigði og getu einstaklinga til að takast á við heilbrigðisvandamál.

Stefnu félagsins í heild er hægt að fá á skrifstofu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Er starfsemin niðurgreidd af Tryggingastofnun/verkalýðsfélögum:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur samið við Tryggingastofunun ríkisins um hjúkrun í heimahúsum vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma og slysa. Samningurinn nær til 23 stöðugilda hjúkrunarfræðinga. Að auki hefur Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga samið við Tryggingastofnun vegna starfa ljósmæðra við fæðingarhjálp og umönnun sængurkvenna.

Er viðkomandi stétt viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum:

Hjúkrunarleyfi er veitt af Heilbrigðis- og tryggingamála- ráðherra skv. hjúkrunarlögum nr. 8/1974.

Menntun:

Hjúkrunarfræði er 4 ára háskólanám og er kennt við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri. Náminu lýkur með B.Sc. prófi í hjúkrunarfræði. Námið er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands býður upp á meistaranám í hjúkrun. Einnig hefur deildin staðið fyrir vi& eth;bótarnámi fyrir hjúkrunarfræðinga á ýmsum sérsviðum hjúkrunar, auk þess að standa að endurmenntunarnámskeiðum í hjúkrun í samvinnu við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Heilibrigðisdeild Háskólans á Akureyri hefur verið í forsvari fyrir fjarnám til meistaragráðu í hjúkrunarfræði í samvinnu við Royal College of Nursing Institute/Manchesterháskóla. Að auki hefur heilbrigðisdeildin boðið upp á námskeið í hjúkrun fyrir hjúkrunarfræðinga.

Hliðargreinar:

Sérfræðingsleyfi má veita í eftirtöldum aðalgreinum hjúkrunar sbr. Reglugerð um veitingu sérfræðingsleyfa í hjúkrun frá 19. október 1993:

1. Barnahjúkrun
2. Fæðingarhjúkrun
3. Geðhjúkrun
4. Handlækningahjúkrun
5. Lyflækningahjúkrun
6. Heilsugæsluhjúkrun
7. Öldrunarhjúkrun

Annað sem brýnt er að taka fram:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er fag- og stéttarfélag hjúkrunarfræðinga.

Tilgangur þess er einkum:

1. Að vinna að bættu heilbrigðisástandi landsmanna með því að stuðla að góðri hjúkrun og betri og hagkvæmari heilbrigðisþjónustu í landinu.

2. Að vera málsvari hjúkrunar og hjúkrunarfræðinga.

3. Að stuðla að þróun hjúkrunar sem fræðigreinar.

4. Að semja við vinnuveitendur um kaup og kjör fyrir félagsmenn og um önnur atriði sem samningumboð félagsins nær til á hverjum tíma.

5. Að gæta að öðru leyti hagsmuna og réttinda félagsmanna varðandi störf þeirra að hjúkrun og koma fram fyrir þeirra hönd.

Í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga eru starfandi hátt í 20 fagdeildir og starfa þær á landsvísu. Fagdeildirnar vinna að framgangi hjúkrunar á viðkomandi sviðum.

Fagdeildir innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga:

Deild barnahjúkrunarfræðinga
Deild skurðhjúkrunarfræðinga
Öldungadeild
Deild geðhjúkrunarfræðinga
Deild svæfingarhjúkrunarfræðinga
Deild hjúkrunarfræðinga starfandi á hjartadeildum
Deild gjörgæsluhjúkrunarfræðinga
Deild öldrunarhjúkrunarfræðinga
Deild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga
Deild hjúkrunarforstjóra
Deild hjúkrunarfræðinga á sviði endurhæfingar
Deild hjúkrunarfræðinga á krabbameinssviði
Deild lungnahjúkrunarfræðinga
Deild hjúkrunarfræðinga í fyrirtækjum
Deild hjúkrunarfræðinga sem starfa við lungna- og meltingafærarannsóknir, Innsýn
Deild bráðahjúkrunarfræðinga
Deild hjúkrunarfræðinga tengd þvagfærahjúkrun
Deild hjúkrunardeildarstjóra
Deild íslenskra hjúkrunarfræðinga í Kaupmannahöfn og nágrenni

Félagið skiptist í svæðisdeildir sem eru 9 talsins. Hver svæðisdeild hefur eigin stjórn og setur sér starfsreglur sem staðfestar eru af stjórn. Stjórn hverrar svæðisdeildar skal vera tengiliður milli félagsmanna og stjórnar félagsins.

Svæðisdeildir innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga:

Reykjavíkurdeild
Suðurnesjadeild
Vestmannaeyjadeild
Vesturlandsdeild
Vestfjarðadeild
Norðvesturlandsdeild
Norðausturlandsdeild
Austurlandsdeild
Suðurlandsdeild