Hjólum – okkar allra vegna

Undanfarna daga hefur verið einstaklega gott veður og má með sanni segja að allt lifni við.  Æ fleiri hafa nú tekið fram hjólið sitt og eru farnir að nota það á góðviðrisdögum.  Aðrir hafa ákveðið að fá sér hjól, hafa jafnvel ekki átt hjól lengi og hafa nú kosið að prófa að hjóla til og frá vinnu.  Hjól eru einhver umhverfisvænustu samgöngutæki sem við getum fundið.

Hjólavika ÍSÍ
Hjólavika Íþróttasambands Íslands stendur nú sem hæst og tekur mikill fjöldi fyrirtækja um allt land þátt í henni.  Það er nánast allt jákvætt við að hjóla, það eina sem maður hefur eðlilega áhyggjur ef er það hvað hjólreiðamenn er illa varðir á hjólunum og því er einmitt svo mikilvægt að fara varlega.   Þess vegna er líka svo mikilvægt að öll umferðarmannvirki geri ráð fyrir hjólandi umferð og við endurgerð gatna, gatnamóta og við gerð nýrra, sé tekið mið af því að hjólreiðamenn geti farið þar um

Þríhjól fyrir fullorðna
Ég ræddi við eldri konu um daginn sem var vön að hjóla mikið en hefur ekki treyst sér til að hjóla frá síðastliðnu sumri.  Ég spurði hana hvort hún hefði prófað að hjóla á þríhjóli.  En hún vissi ekki að til væru þríhjól fyrir fullorðna.  Það eru til hér mjög fín þríhjól sem eru ekki síst hugsuð fyrir þá sem eru annað hvort farnir að tapa jafnvægi eða orðnir óstyrkir og hræddir við að hjóla á tvíhjóli.  Ég hvet eldri borgara til að skoða þennan kost, það er svo mikilvægt að hreyfa sig og það er gott að hjóla þrátt fyrir minni styrk.  Það er í raun hægt að líkja því að hjóla við að synda.  Maður getur hreyft sig án þess að öll þyngdin hvíli á fótunum um leið.  Þríhjól er hægt að fá í öllum betri hjólreiðaverslunum en svona þríhjól eru mikið notuð erlendis.

Mikilvægi hreyfingar
Rannsóknir hafa rökstutt mikilvægi hreyfingar fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði.  Með því að hjóla, erum við umhverfisvæn, við komumst auðveldlega á milli staða og við fáum nauðsynlega hrefyingu um leið.

Íslendingar eru að fitna og offita og hreyfingarleysi er vaxandi vandamál hjá þjóðinni.  Það er því mikilvægt að venja börnin okkar strax við það að nota hjólið sem samgöngutæki.

Allir geta hjólað, jafnt ungir sem aldnir, von mín er sú að sífellt fleiri kjósi að nota hjólið sitt sem samgöngutæki.  Þannig getum við stuðlað að heilnæmara umhverfi, fengið nauðsynlega hreyfingu og bætt andlega og líkamlega heilsu okkar.