Þol – gegn ýmsum verkunum; við klíníska notkun þarf þol ekki að vera mikið; þol myndast einnig gegn flestum hjáverkunum nema hægðatregðu.
Fráhvarfseinkenni – eru oft ekki mikil við klíníska notkun; varast ber að flokka fráhvarfseinkenni í „sálræn" (psychic) og „líkamleg" (physical).
Ávani og fíkn – hætta á ávana og fíkn er lítil við klíníska notkun; morfínfíkn er oftast til komin af öðrum sökum en vegna lækningalegrar notkunar (á ensku kallað: the street use category).
Hægðatregða – vegna samdráttar í sléttum vöðvum í vegg maga og þarma og í hringvöðvum.
Samdráttur í gallgöngum, brisgöngum og þvaggöngum – stundum getur morfín gert gallsteinakast verra.
Samdráttur eykst í hringvöðva í blöðru – þvaglát verða tregari.
Morfín „þurrkar" alla útkirtla sem seytra inn í meltingarveg – þar á meðal eru munnvatnskirtlar, magakirtlar, briskirtill og lifur.
Í stórum skömmtum veldur morfín syfju og svefni – er talið lengja einkum fyrsta stig svefns sem er í beinu framhaldi af róun.
Morfín kann að valda vellíðan (evfóría) ef það er gefið í verkjadeyfandi skömmtum en vanlíðan (dysfóría) er einnig vel þekkt.
Gefið í verkjadeyfandi skömmtum slævir morfín öndunarstöðvar í heilastofni – öndum verður hægari og grynnri og samhæfing öndunarhreyfinga truflast; dauði af völdum morfíneitrunar er vegna öndunarlömunar; mjög mikið þol myndast gegn þessari verkun.
Klígja og uppsala eru algengar hjáverkanir, einkum eftir stóra lækningalega skammta og sérstaklega í uppréttri stöðu – er að rekja til verkunar á uppsölumiðstöð í mænukólfi og innra eyra; morfínandefni hamla þessari verkun.
Morfín gefið í verkjadeyfandi skömmtum veldur víkkun í slagæðum og bláæðum – í uppréttri stöðu kann þetta að leiða til blóðþrýstingsfalls; þessi hjáverkun stafar líklega einkum af truflun á adrenvirkri stýringu á æðum í heilastofni; er stundum notað til lækninga (lungnabjúgur við hjartabilun).
Aukin þéttni CO2 í blóði eftir töku morfíns veldur æðavíkkun í miðtaugakerfi og auknum þrýstingi í heila- og mænuvökva.
Morfín dregur saman sjáöldur – (petidín víkkar þau!).
Morfín truflar mjög stýringu hormónastarfsemi í undirstúku – truflun verður á egglosi og tíðahring; er að einhverju leyti a.m.k. að rekja til hömlunar á losun dópamíns.
Yfirleitt er talið að morfín dragi úr hríðum og seinki fæðingu.
Langvarandi gjöf morfíns veldur oft vöðvakippum og/eða óeðlilegum hreyfingum.
Birt með leyfi Fræðslumiðstöðvar í fíknivörnum