Hjartarannsóknir-Hvaða upplýsingar geta þær veitt?

Blóðrannsóknir

Hjartaensím: ensímin tróponín (TNT) og CKMB eru þau efni í blóðinu sem oftast eru mæld en þau losna frá hjartavöðvafrumum við súrefnisþurrð/hjartadrep eins og verður við kransæðastíflu.

Blóðfita: Heildarmagn blóðfitu sem oftast er nefnt kólesteról er mælt ásamt því að magn “góða” HDL­kólesterólsins og “slæma” LDL kólesterólsins er ákvarðað. Þríglyseríðar eru gjarnan mældir en sú blóðfita tengist oft offitu og sykursýki og er einnig áhættuþáttur æðakölkunar.

Blóðþynning: Þegar blóðþynningarlyfin Kóvar og Dikumarol, eru gefin er mikilvægt að fylgjast með blóðþynningargildum (INR). INR gildið á oftast að liggja á milli 2,0 og 3,0 en hærra hjá þeim sem eru með gervilokur úr málmi. Mikilvægt er að fara í blóðprufu reglulega en í kjölfarið eru gefin fyrirmæli um hæfilegan skammt blóðþynningarlyfja.

Hjartahormónið (BNP) er gjarnan mælt þegar um hjartabilun er að ræða en það getur endurspeglað einkenni og þróun sjúkdómsins

Hjartalínurit (EKG)

Við ýmsa hjartasjúkdóma koma fram dæmigerðar breytingar á línuriti svo sem við kransæðastíflu og langvinnan háþrýsting. Einnig greinast oft takttruflanir ef þær eru til staðar.

ekg

Hjartalínurit – EKG – er mikilvæg rannsókn við hjartasjúkdóma. Þetta rit er eðlilegt.

 

Áreynslupróf/þolpróf

Einstaklingurinn er látinn ganga á göngubretti eða hjóla til að athuga hvort við það komi fram breytingar á hjartalínuriti og eða einkenni sem benda til kransæðasjúkdóms eða áreynslutengdra hjartsláttartruflana.

Ómskoðun af hjarta

Með hljóðbylgjum er unnt að fá fram mynd af hjartanu og meta þannig stærð hjartahólfa, þykkt hjartavöðvans og samdráttarhæfni. Hægt er að greina vökva í gollurshúsi. Hjartalokurnar eru skoðaðar með tilliti til hvort þær séu óþéttar eða hvort um þrengsli í þeim sé að ræða. Í sumum tilfellum fást enn betri upplýsingar um starfsemi hjartans með ómskoðun af hjarta um vélinda.

Hjartaþræðing

Kransæðamyndataka er gerð með því að örmjó slanga er þrædd inn í slagæð við úlnlið eða í nára og áfram upp til hjartans (vinstri þræðing). Skuggaefni er dælt í kransæðarnar gegnum slönguna og fæst þá röntgenkvikmynd af kransæðunum. Ef um þrengsli í þeim er að ræða sjást þau yfirleitt mjög vel og unnt er að meta hversu mikil þau eru. Ef kransæðavíkkun er nauðsynleg er reynt að gera hana í beinu framhaldi af kransæðamyndatökunni þannig að önnur innlögn á sjúkrahús verði óþörf. Við vissa meðfædda hjartagalla og lungnasjúkdóma er þrætt frá bláæð í nára um hægri hjartahólf og út í lungnaslagæðina. Það kallast hægri þræðing og með henni er metinn þrýstingur í lungnablóðrásinni,  súrefnismettun og einnig er unnt að mæla hversu miklu blóði hjartað dælir á hverri mínútu.

Tölvusneiðmynd af kransæðum

Þessari tækni er beitt í vissum tilfellum þegar grunur leikur á að um kransæðasjúkdóm geti verið að ræða. Hjartasérfræðingur metur í ljósi niðurstaðna hvort þörf er á frekari rannsóknum eða meðferð.

Segulómun af hjarta (MRI) 

Í ákveðnum tilvikum er þessari tækni beitt til að meta stærð og staðsetningu hjartadreps. Einnig er þessi aðferð nýtt í auknum mæli við greiningu meðfæddra hjartagalla, ýmissa hjartavöðvakvilla, lokusjúkdóma, við segaleit o.fl.

Holter

Þessi rannsókn felst í síritun á hjartariti, oftast í sólarhring og gengur einstaklingurinn þá með lítið upptökutæki á sér. Þessi rannsókn er gerð þegar leitað er eftir hjartsláttartruflunum.

Gangráðsmæling

Með reglulegu millibili þurfa þeir sem hafa gangráð og/eða bjargráð að koma í eftirlit með starfsemi tækjanna. Þá er endingartími rafhlöðu mældur ásamt því að lesið er úr hjartalínuriti og tölvu gangráðsins.

Grein þessi er unnin upp úr bæklingnum Hjartasjúkdómar. Forvarnir, lækning, endurhæfing sem gefinn er út af Hjartaheill og birtist hér með góðfúslegu leyfi þeirra