Hjartarannsóknir

Blóðrannsóknir:

Hjartaensím eru efni sem losna frá hjartavöðvafrumum við súrefnisþurrð eins og verður við kransæðastíflu. Oftast eru mæld þrjú ensým, þ.e. CK (CKMB, ASAT og LDH. Einnig TRÓPONÍN.)

Blóðfita:

Heildarmagn kólesteróls er mælt. Einnig sá hluti þess sem nefnist „góða kólesterólið,“ eða HDL-kólesteról. Þriðja tegundin sem oft er mæld líka eru þríglyseríðar.

Hjartalínurit (EKG):

Við ýmsa hjartasjúkdóma koma fram dæmigerðar breytingar á línuriti svo sem við kransæðastíflu og langvinnan háþrýsting. Einnig greinast oft takttruflanir ef þær eru til staðar.

Ómskoðun af hjarta:

Með hljóðbylgjum er unnt að fá fram mynd af hjartanu og meta þannig stærð hjartahólfa, þykkt hjartavöðvans og samdráttarhæfni. Einnig má sjá lokurnar og með sérstakri tækni meta hvort þær séu óþéttar eða hvort um þrengsli sé að ræða (Doppler).

Holter:

Þessi rannsókn felst í síritun á hjartariti, oftast í sólarhring og gengur sjúklingurinn þá með lítið upptökutæki á sér. Þessi rannsókn er gerð þegar leitað er eftir hjartsláttartruflunum.

Áreynslupróf/þolpróf:

Ýmist er sjúklingurinn látinn ganga á þolbandi eða hjóla. Fylgst er með því hvort fram koma línuritsbreytingar á hjartariti og hvort sjúklingur fær einkenni sem bent gætu til kransæðasjúkdóms.

Hjartaþræðing:

Oftast er rannsóknin gerð þannig að örmjó slanga er þrædd inn í náraslagæð og áfram upp til hjartans (vinstri þræðing). Með því að dæla skuggaefni í gegnum slönguna má fá fram röntgenkvikmynd af kransæðum og vinstri slegli. Ef um þrengsli er að ræða í kransæðum sjást þau yfirleitt mjög vel og unnt er að meta hversu mikil þau eru. Þegar þrætt er frá bláæð er farið um hægri hjartahólf og út í lungnaslagæðina. Það kallast hægri þræðing og með henni er metinn þrýstingur í blóðrásinni, súrefnismettun og einnig er unnt að mæla hversu miklu blóði hjartað dælir á hverrri mínútu.

Lífeðlisfræðileg rannsókn:

Þessi rannsókn er fyrst og fremst gerð ef grunur er um sjúkdóm í leiðslukerfi hjartans en einnig er henni stundum beitt við rannsókn á alvarlegum hjartsláttartruflunum. Rafleiðsla er þá þrædd inn í hjartahólfin, oftast hægra megin og með henni mældur út leiðsluhraði og fleira. Í sumum tilvikum er hún notuð til að „brenna“ í sundur aukabrautir í leiðslukerfinu, en það getur í sumum tilvikum reynst nauðsynlegt ef um þrálátar hjartsláttartruflanir er að ræða.

Birt með góðfúslegu leyfi Landssamtaka hjartasjúklinga