Hjartaaðgerðir

Kransæðagræðlingsaðgerðir:

Kransæðagræðlingsaðgerðir hófust á 7. áratugnum í Bandaríkjunum. Fljótlega sannaðist að sjúklingum með þrengsli í höfuðstofni vinstri kransæðar farnaðist betur með þessari aðgerð en með lyfjameðferð. Aðgerðin á einnig vel við í ýmsum öðrum tilvikum en þó sérstaklega þegar hjartakveisa er á háu stigi og þrengsli eru til staðar í mörgum kransæðum.

Í aðgerðinni eru oftast notaðir bæði græðlingar úr bláæðum ganglima, svo og slagæðin innanvert á brjóstveggnum til þess að tengja framhjá þrengslunum í kransæðunum. Þegar slagæðin er notuð er hún tengd á kransæðina handan við þrengslin í æðinni en með því er blóðrennslið tryggt til hjartavöðvans sem áður leið fyrir takmarkað blóðrennsli og súrefnisskort. Bláæðagræðlingarnir gegna sama hlutverki en þeir eru oft notaðir þrír eða fleiri eftir því hve margar kransæðar eða hliðargreinar kransæða eru þrengdar. Annar endi bláæðagræðlingsins er saumaður við sjálfa ósæðina og hinn endinn handan við þrengslin í kransæðinni. Kransæðaaðgerðir hafa verið gerðar á Íslandi frá 1986 með góðum árangri.

Meginkransæðar tengjast með mjög litlum æðum sem ekki eru taldar gegna neinu hlutverki við eðlilegar aðstæður. Ef kransæð lokast geta þessar æðar bjargað miklu með því að flytja blóð til þess svæðis sem hefur orðið fyrir blóðþurrð. Ef lítill aðdragandi hefur verið við lokun æðarinnar er það blóðmagn sem tengiæðar geta flutt oft ófullnægjandi. Ef þrengsli hafa myndast á löngum tíma eru mestar líkur til þess að tengiæðarnar hafi náð að stækka og geti flutt nægilegt blóðmagn til þess að hindra hjartadrep lokist æðin skyndilega. Vert er að minnast þess að líkamsþjálfun er talin stuðla að því að tengiæðar stækki.
Efri teikningin sýnir þegar leiðarinn er kominn inn í þrönga æð, sem á að víkka. Neðri myndin sýnir þegar belgurinn hefur verið þaninn út og efnið, sem myndaði þrengslin, pressast út í æðavegginn. Nú er farið að nota stoðnet í auknum mæli og minnkar það líkur á endurþrengslum.

Kransæðavíkkun:

Seint á áttunda áratugnum innleiddi Grüntzig nýja aðferð til að víkka út þröngar kransæðar. Með sömu tækni og við vinstri hjartaþræðingu er örmjó slanga þrædd að kransæðaropinu og síðan niður eftir kransæðinni sem víkka skal út. Á enda slöngunnar er lítill belgur og er honum komið fyrir þar sem þrengslin eru mest. Síðan er belgurinn fylltur með vökva og þannig er fitunni og kalkinu sem þrengir æðina þrýst út að æðaveggnum. Í langflestum tilvikum (u.þ.b. 80–90%) tekst þetta vel. Í vissum tilvikum er stoðneti komið fyrir á þrengslasvæði og æðinni þannig haldið opinni.

Gangráðsísetning:

Ef hinn meðfæddi gangráður hjartans eða leiðslukerfi þess bilar getur þurft að setja gangráð í sjúklinginn til þess að tryggja að hjartslátturinn verði ekki of hægur. Ýmist ein eða tvær leiðslur liggja frá rafhlöðu gangráðsins eftir bláæð niður í hægri gátt og áfram niður í hægri slegil. Tækið er þannig úr garði gert, að það greinir hraða hjartsláttarins.

Verði hjartsláttur óeðlilega hægur grípur tækið inn í með rafboðum til hjartans og kemur þannig í veg fyrir svima og yfirliðakennd sem annars hefði mátt búast við. Mjög fullkomnir gangráðar hafa nú komið til sögunnar sem geta samhæft samdrátt í gáttum og sleglum, hert á sér ef sjúklingur reynir á sig o.s.frv.

Algengustu einkenni hjarta- og æðasjúkdóma eru brjóstverkur, mæði, svimi/yfirlið, hjartsláttarónot, þreyta og verkir í ganglimum. Enda þótt ofangreind einkenni séu algeng einkenni hjartasjúkdóma geta þau einnig stafað af öðrum sjúkdómum sem stundum veldur erfiðleikum við sjúkdómsgreiningu. Þannig geta brjóstverkir orsakast af festumeini í brjóstvegg (millirifjagigt), sjúkdómum í vélinda og bólgu í gollurhúsi eða brjósthimnu. Það er nokkuð dæmigert fyrir hjartasjúkdóma að einkenni, svo sem brjóstverkur og mæði framkallast við áreynslu þótt það sé ekki einhlítt.

Birt með góðfúslegu leyfi Landssamtaka hjartasjúklinga