Hjálp í sorg

Inngangur

Tilgangur þessa greinar er að hjálpa fólki í upphafi áfalls til að ná tökum á aðstæðum. Mikilvægt er að vinna skipulega að því að ná aftur jafnvægi í lífinu. Ekki láta það henda þig að bíða með sorgarvinnsluna svo árum og jafnvel áratugum skiptir. Til mikils er að vinna og við vitum að hæfileiki mannshugans til að komast af er stórkostlegur.

Hafðu í huga þegar þú lest þessar ábendingar að þér er frjálst að velja og hafna. Þessar leiðbeiningar sem koma frá okkur eru sendar af kærleika og samúð þess sem hefur reynt. Þær voru m.a. það leiðarljós sem við fylgdum á okkar sorgargöngu og jafnframt ráð frá öðrum sem hafa reynst vel.

„Vér vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs.“ Rom. 8:28

Það merkir ef við elskum Guð í gleði jafnt sem sorg þá eignumst við von og kunnum betur að meta hið góða.

Undanfari kistulagningar og jarðarfarar

Hafðu kveðjustund við dánarbeð ef fólk andast á sjúkrahúsi eða í heimahúsi. Leyfðu börnunum að vera með því þau þurfa líka að vinna úr sorg sinni. Foreldrar meta það út frá aldri og þroska bans, hvort þau telja það tilbúið að taka þátt í þessum athöfnum.

Umgangist öll deyfingarlyf með mikilli varúð. Lyf geta kippt þér út úr sorgarvinnslunni Náttúran sér um fyrstu deyfinguna sem dugar í allflestum tilfellum. Þó gæti reynst nauðsynlegt fyrir suma einstaklinga að nota lyf. Mundu að óeðlileg hegðan er eðlileg við þessar erfiðu aðstæður. Enginn breytir því sem orðið er, því skaltu í engu fallli ásaka sjálfa/n þig. Sorgin er eigingjörn og kallar fram í fólki tilfinningar sem það ekki þekkir. Því verðum við að halda vöku okkar fyrir því að aðrir geta átt um sárt að binda og virða það.

Fatnaður fólks sem deyr af slysförum eru afhent aðstandendum án þess að þau hafi verið þvegin. Þessi reynsla, að fá fötin í hendur, er óþörf og ætti strax að eyða fötunum. Annað gildir um muni.

Útfararþjónusta

Venja er að tilkynna andlát og jarðarför í útvarpi og/eða blöðum, fari athöfnin fram í kyrrþey, er tilkynnt eftir á að jarðarför hafi farið fram. Þannig frétta samferðamenn hins látna af andlátinu, en nánustu aðstandendum er tilkynnt það persónulega.

Ef skrifaðar eru minningagreinar er sjálfsagt að gera það með vitund og samþykki nánustu ættingja.

Útfararstofnun útvegar kistu, legstað í kirkjugarði,(hægt er að taka allt að þrjú legstæði frá, hlið við hlið), söngfólk við athafnir, blóm og fleira ef óskað er. Tíma fyrir athafnir þarf að ákveða í samráði við prest og útfararstofnun. Á höfuðborgarsvæðinu er aðeins jarðað og kistulagt á virkum dögum, en á landsbyggðinni oftast á laugardögum. Læknar gefa úr dánarvottorð, en það þarf að fylgja með til prests svo hann geti veitt hinum látna greftrun. Aðstandendur þurfa að tilkynna andlátið til skiptaráðanda eða sýslumanns á eyðublaði sem fylgir dánarvottorðinu.

Sjá kafla aftar um ýmsar gagnlegar upplýsingar.

Kistulagning

Gott er að biðja prestinn að tala við börnin í fjölskyldunni og segja þeim frá dauðanum og hvað fer fram við kistulagningu og jarðarför.

Við kistulagningu eru aðeins nánustu ástvinir saman komnir. Láttu það eftir þér að gráta og sýna tilfinningar. Það er gott að geta grátið, en óttastu ekki þó þú getir það ekki, það er líka mjög eðlilegt. Notaðu tækifærið og fullvissaðu þig um að hinn látni sé dáinn. Snertu líkið, hönd, enni. (Sé líkið illa farið er hægt að búa um einhvern líkamspart svo snerting geti orðið, svo sem hönd eða fót. Þú skalt ekki líta ástvin sem er illa farinn eftir slys eða annað. Hlýddu á ráðleggingar þeirra er til þekkja.) Hafðu þetta kveðjustund þína og fylgdu því sem þér finnst rétt. Gott er að hittast öll á eftir í kaffi svo þið náið að sameinast og styrkja hvert annað.

Jarðarför

Flestir hafa hug á því að komast í gegnum jarðarförina án þess að bugast og best er ef hún getur orðið syrgjendum huggun.

Athugandi er að aðstandendur geti lagt sitt af mörkum, t.d. valið saman sálma og aðstoðað eftirlifandi maka. Þó er það hennar/hans að ákveða tíma og stað fyrir athafnir. Gott er að lesa eins oft og þurfa þykir sálmana sem sungnir verða við athöfnina. Þá kemst boðskapur þeirra betur til skila og er styrkjandi í stað þess að hræra upp í tilfinningunum. Í langflestum tilfellum kemur presturinn með þér að gröfinni. Ræddu um það við hann áður. Þegar þangað kemur er gott að fara með bæn eða sálm (Hveitikorn þekktu þitt eftir Hallgrím Pétursson). Þó tel ég að þeir sem erfiðast eiga búi ekki yfir nægilegum styrk til að bjarga sér sjálfir. Þá er gott að eiga prestinn eða einhvern annan að sem fer með bænina fyrir þá og umvefur um leið. Gott er einnig að krossa yfir og fara með signinguna í hljóði. Ekki standa við gröfina til að taka á móti samúðarkveðjum, nema þú treystir þér til þess. Talaðu um það við &t horn;ína nánustu svo þú getir farið strax heim eða í erfidrykkju. Hafðu alltaf einhvern hjá þér til stuðnings og til að hugsa um börnin.

Leiðið

Margir vitja leiðis fljótlega að lokinni útför. Láttu þér ekki bregða þó það taki tíma að finna það aftur. Leiðin eru tölusett og hægt að fá teikningar af kirkjugarðinum. Þetta gildir þó aðeins um þá garða sem eru mjög stórir.

Þegar ég kem að leiðinu signi ég yfir það og fer með eftirfarandi: „Í nafni guðs föður, sonar og heilags anda, amen. Guð geymi þig (nota stundum nafn) og varðveiti um alla tíð og veiti þér frið.“ Þá nota ég tækifærið til að senda kveðju til hins látna hver sem hún er í það og það skiptið. Síðan fer ég gjarnan með bæn þar sem ég bið fyrir fjölskyldunni. Ég bið sérstaklega um kærleik og frið, styrk til að takast á við lífið og aðstoð til að standast þær kröfur sem gerðar eru til okkar sem og þolgæði til að bera sorgina og halda í vonina. Það léttir hugann að tala til hins látna ástvinar lágum rómi, eða í hljóði eins og hún/hann sé þér við hlið.

Bænin býr yfir mætti, róar og huggar. Hver maður getur búið til sína eigin bæn, en fyrir þá sem vilja látum við fylgja bæn sem við tókum upp úr bókinni Máttur bænarinnar:

„Almáttugi og miskunnsami Guð, þú sem ert veikum styrkur, þreyttum endurnæring, sorgbitnum huggun og hinum deyjandi líf, Guð alls þolgæðis og allrar huggunar: Hjálpa oss til að öðlast trú og von á þig og treysta nálægð þinni og kærleika. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.“

Einnig eru bænir aftast í sálmabókinni.

Hægt er að kaupa ódýra krossa hjá kirkjugarðinum og skilti þarf að láta búa til hjá skiltagerð. Einnig er hægt að fela Útfararþjónustunni að útvega þessa hluti. Trékross er gott að hafa fyrsta eitt til tvö árin meðan gröfin er að síga og jarðvegur að þéttast. Lukt fyrir kerti er hægt að kaupa t.d. í blómabúðum og ódýra plastvasa fyrir blóm. Ég hef gróðursett lifandi blóm og hefur mér reynst best að nota sumarblóm – stjúpur og morgunfrúr. Eins hef ég sett niður haustlauka, það er svo gaman að fylgjast með þeim koma upp. Nægur tími er til að ákveða hvað ykkur hentar best.

Ef lík finnst ekki er gott að finna sér einhvern stað til að minnast hins látna. Það gæti verið staður í garðinum þínum, í kirkjugarði eða kirkju. Til eru víða minnisvarðar um látna sjómenn. Í Fossvogskirkjugarði er minnisvarði um látna sjómenn, þar er einnig stytta Thorvaldsens, sem er minnisvarði fyrir þá sem jarðaðir eru erlendis.
Jafnframt eru þar fósturminnisvarði og fósturreitur.
Minningarstaður í heimahúsi kæmi líka til greina, en þá væri æskilegt að hægt væri að loka hann af svo hann sé ekki alltaf fyrir augunum. Heimili okkar er staður þar sem við dveljumst mikið.

En við þurfum líka að geta gleymt sorg okkar stund og stund.

Þegar þú ert sorgmæddur
skoðaðu þá aftur huga þinn,
og þú munt sjá að þú grætur
vegna þess sem var gleði þín.
(Úr Spámanninum)

Uppbyggingin

Börn

Þú getur útskýrt fyrir barninu að dauðinn er eins og lífið. Áður en við komum í þennan heim vorum við hrædd við lífið. Það ókomna, óvissuna um hvað yrði. Á sama hátt hræðumst við dauðann. Það er eðlilegt.

Breyttu sem minnstu í daglegum venjum barnsins næstu tvö árin.

Svaraðu spurningum barnanna þinna af hreinskilni, án þess að fegra hlutina. Gott er að leyfa þeim að skrifa bréf til hins látna eða Guðs. Teikna myndir til að eiga eða fara með á leiðið. Halda upp á afmæli hins látna þar sem þau geta tekið þátt, bakað kökur, skrifað bréf, kveikt á kertum eða heimsótt leiðið. Leyfðu þeim að vita að þú syrgir og að það sé eðlilegt. Talaðu um dauðann sem náttúrulegan þátt í lífinu og gefðu þeim vonina um að í framtíðinni geti þau litið bjartari tíð.

Þú sjálf/ur

Lifðu fyrir daginn í dag, það er farsælast. Ekki breyta um lífsvenjur strax.

Frestaðu meiriháttar ákvörðunum ef mögulegt er.

Geymdu hluta af fatnaði hins látna (með lyktinni í) eða hluti sem tengjast minningunni um hana/hann, meðan þú ert að venjast því að hafa ekki hana/hann hjá þér. Lyktin hefur mikið minningargildi. Þetta gefur ákveðna aðlögun og er misjafnt hve lengi þessi þörf varir.

Eigðu stund með sjálfri/sjálfum þér, taktu þér frí eitt kvöld í viku þar sem þú getur gert eitthvað skemmtilegt: Fara út að ganga, í bíó, hitta vini, í bíltúr eða hvað sem þig langar að gera í það og það skiptið. Þetta hjálpar einnig til að venja börnin á að þú komir og farir án þess að nokkuð komi fyrir þig. Þau eru vitanlega óörugg líka.

Láttu ekki fara í taugarnar á þér þegar fólk segir: „Þú eignast nýjan mann/nýja konu.“ Hugsaðu heldur: „Vonandi gróa sárin og ég get á sömu forsendum og áður hugsað mér að eyða ævinni með einhverjum sérstökum.“ Við vitum að enginn kemur í stað þ ess látna. Haltu í vonina um bata. Mundu að enginn getur tekið frá þér góðu minningarnar sem þú varðveitir í hjarta þínu og miðlaðu þeim til annarra, svo sem barnanna þinna, þegar þær koma upp í hugann.

Mundu að sorgin varir lengi og fer aldrei alveg, en við ráðum því hvort hún þroskast til góðs eða ills. Örin á sálinni eru alltaf til staðar en við getum samt orðið sterkir einstaklingar með ríkar tilfinningar. Við getum umborið missinn þó að við sættum okkur aldrei við hann.

Ef þér finnst sorgin hellast yfir þig eða eitthvað verður til þess að ýfa hana upp, talaðu þá um það við einhvern sem skilur þig og ef þér finnst þú þurfa að gráta, láttu það þá eftir þér. Það sýnir styrk og þor en ekki öfugt. Þú munt finna fyrir miklum létti eftir á.

Sumir hafa túlkað áhrif ástvinamissis sem tímabundna örorku og er sú samlíking ekki fjarri sanni. Þó er mikilvægt fyrir syrgjanda að gera sér grein fyrir því þegar frá líður að lífið heldur áfram með öllum sínum hversdagsleika. Gættu þess að nota ekki sorgina sem skálkaskjól þegar þér líður illa. Mundu hvernig lífið gekk upp og ofan áður þegar allt lék í lyndi. Umfram allt ræktaðu sjálfan þig, því þú getur ekki gefið meira en þú býrð yfir.

Það er svo margt sem hægt væri að spyrja um og svo margt sem annar syrgjandi gæti sagt. Allir hafa sín sérkenni og í rauninni er engin ein fær leið til að yfirvinna sorgina. Með því að tala, skrifa, og lesa, geturðu lært á sorgina á þinn eigin hátt og oft er gott að fá sjónarmið annarra til að styðjast við.

Kærleikur. Óeigingjörn ást eða vinátta, hlýja mannssálarinnar. „Gefið hvort öðru hjarta ykkar en setjið það ekki í fangelsi, og standið saman en ekki of nærri hvort öðru. Vaxið ekki hvort í annars skugga.“ (Spámaðurinn)

Von. Vænting og vissa um eitthvað gott þér til handa.

Trú. Hún er brú á milli þess sem er og þess sem þú væntir. Fullvissa sem veitir öryggi.

Viðbrögð annarra

Þegar þér finnst einhver koma klaufalega eða jafnvel illa fram við þig skaltu hafa í huga að eitt sinn vissir þú ekki hvað missir var. Hér gildir sem oftar að sá veit sem reynir. Við skulum ætíð hafa í huga að „aðgát skal höfð í nærveru sálar“.

Sérstaklega viljum við vara við fólki sem reynir að nýta sér veikleika syrgjandans sér og sínum málefnum til framdráttar. En þar má nefna ýmiss konar sölumenn og sérhagsmunatrúarhópa.

Ef þú íhugar að heyra frá þeim sem þú hefur misst, þá skaltu hugleiða eftirfarandi: Hver verða viðbrögðin ef samband næst? Er betra að kveðja aftur? Vertu viðbúin/n, því að þú gætir upplifað missinn og sorgina sem honum fylgir aftur.
Hluti af því að lifa eðlilegu lífi á ný er að sleppa takinu á hinum látna ástvini.
„Þið megið gefa þeim ást ykkar en ekki hugsanir ykkar.“ (Spámaðurinn.) Leitist við að ýfa ekki upp sárin að óþörfu, því það getur tafið fyrir þroska sálarinnar.
Vissulega er þetta hlutur sem hver og einn gerir upp við sjálfan sig.

Hvert er hægt að snúa sér til að fá hjálp

1. Sjálfshjálp:
Hverskonar útrás, hvort sem er í formi listsköpunar eða annars.
(Lesa, skrifa, teikna, mála, yrkja ljóð o.fl.)

2. Prestar og hjúkrunarfólk á sjúkrahúsum.

3. Hjálparhópar

Ný dögun (samtök um sorg og sorgarviðbrögð). Sorgarnámskeið í Seltjarnarnes- og Grafarvogskirkju og sorgarhópar í kirkjum.

Enginn getur náð valdi á tilfinningum sínum nema með því að leggja sitt af mörkum. Allt er þetta leið til meiri andlegs þroska.

 • Ýmsar gagnlegar upplýsingar á öllum stigum sorgarferlisins
 • Gott er að lesa sálma sér til huggunar þó þeir séu ekki í sungnir í jarðarförinni sjálfri. Við teljum upp nokkra sálma en best er að fletta svo sjálf/ur í sálmabókinni og finna það sem hentar ykkur. Prestar aðstoða fólk við val á sálmum.

  Jarðarfararsálmar

  Fullorðnir Börn
  Á hendur fel þú honum (38)
  Allt eins og blómstrið eina (273)
  Ég fel í forsjá þína (511)
  Ég krýp og faðma fótskör þína
  Fagna þú sál mín, allt er(420)
  Fræ í frosti sefur (166)
  Góður engill Guðs oss leiðir (404)
  Hærra minn Guð, til þín (375)
  Hve sæl, ó hve sæl (416)
  Kallið er komið (271)
  Kom, huggari, mig hugga þú (405)
  Nú legg ég augun aftur (510)
  Ó þá náð að eiga Jesúm (43)
  Þegar ég leystur verð þrautum frá
  Þú, mikli Guð, ert með oss á jörðu (22)
  Drottinn Vakir dag og nætur (402)
  Lýs milda ljós (352)
  Fótmál dauðans fljótt er stigið (414)
  Ástarfaðir himinhæða (504)
  Enginn þarf að óttast síðar (505)
  Nú leidd mín ljúfa (280)
  Ó Jesú bróðir besti (503)
  Ó faðir gjör mig lítið ljós (507)
  Ó ljóssins faðir (265)
  Son guðs ertu með sanni (56)
  Vertu sæl vor litla, hv&iac ute;ta lilja (282)

  Hægt að sjá nöfn sálma á netinu

  (http://www.utfor.is/salmaskra/salmar1.htm)
  (http://www.utfarir.is/utfarir/salmar/)

  Bækur sem gott er að lesa

  Flestar bækur er hægt að fá lánaðar á bókasöfnum og þannig velja sér bækur sem þú myndir vilja eignast. Á blindrabókasafninu geta blindir og lesblindir fengið léðar hljóðsnældur.

  Fullorðnir

  Ástvinamissir eftir Guðrúnu Guðmundsdóttur
  Bænabók eftir sr. Karl Sigurbjörnsson
  Hvað tekur við þegar ég dey eftir sr. Karl Sigurbjörnsson
  Hvers vegna ég eftir Harold Kushner
  Máttur bænarinnar eftir Norman Vincent Peale
  Passíusálmarnir eftir Hallgrím Pétursson
  Sálmabókin
  Spámaðurinn eftir Kahlil Gibran
  Sumarlandið eftir Eyvind Skeie
  Til þín sem átt um sárt að binda eftir sr. Karl Sigurbjörnsson
  Von eftir sr. Braga Skúlason

  Börn

  Afi og ég eftir Marlee og Benny Alex
  Bróðir minn ljónshjarta eftir Astrid Lindgren
  Sorg barna eftir sr. Braga Skúlason
  Gleym mér ei
  Til á vökudeild Landsspítalans,
  ætlað foreldrum barns sem deyr í frumbernsku
  eftir sr. Braga Skúlason

  Bætur

  Læknar og prestar gefa úr dánarvottorð. Þau þurfa að fylgja umsóknum um bætur. Þú þarft að hafa frumkvæðið að því að sækja um bætur til Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða, eins að kalla eftir tryggingafé til tryggingafélaga, sé slík trygging til staðar. Mundu eftir að taka auka ljósrit. Þú þarft að hafa frumkvæðið að sækja allar bætur og líftryggingar. Varist að loka bótamálum vegna slysa hjá tryggingfélögum því oft getur liðið langur tími, jafnvel ár þar til endanlegar afleiðingar liggja fyrir. Nauðsynlegt getur reynst að fá lögfróða menn sér til aðstoðar. Borgað gæti sig að fá endurskoðanda til að gera skattframtal, því hann veit oftast hver réttur þinn er.

  Sæktu til bæjarfélagsins um niðurfellingu á fasteignagjöldum á dánarárinu eða síðar vegna andláts. Samkvæmt 66. gr, skattalaga er hægt að sækja um niðurfellingu á gjöldum (tekju- og eignarskatti) vegna andláts ef viðkomandi getur sannað að röskun hefur orðið á fjárhag vegna missis. Ekki eru tilgreind nein tímamörk á þessum rétti. Falli maki frá og eftirlifandi maki situr í óskiptu búi (sem hann á rétt á skv. lögum) getur hann fengið álagðan eignarskatt sem sambýlingar væru næstu 5 árin. Skattkort maka nýtist 80% í 9 mánuði eftir andlát.
  Börn eiga rétt á að skattleggjast sem einstaklingar ef annað eða bæði foreldri falla frá.

  Tryggingastofnun: Sæktu um mæðralaun/feðralaun og ekkna/ekklabætur. Bæklingar um bætur frá Tryggingastofnun liggja víða t.d. á heilsugæslustöðvum. Handbók Tryggingastofnunar ríkisins á netinu, fjallar um dánabætur og réttindi þín.

  Athugaðu með tryggingu á skattskýrslu.

  Hægt er að fá nánari upplýsingar um skattaívilnanir hjá Ríkisskattstjóra eða hjá Skattstjórum. (http://www.rsk.is/ undir einstaklingar – lækkun og frádrættir – lækkun (ívilnun).

  Sækja þarf um maka- og barnalífeyri til lífeyrissjóða.
  Athugið með tryggingar á vinnustað og hjá stéttarfélagi. Flest ef ekki öll stéttarfélög taka þátt í útfararkostnaði félagsmanna sinna með styrkjum til eftirlifandi maka eða barna. Leitið upplýsinga jafnvel þó að sá er fellur frá hafi látið af störfum vegna t.d. vegna aldurs.

  Heimilistrygging.
  Þar sem talað er um greiðslur dánarbóta er eingöngu átt við slys (ekki veikindi) er veldur fráfalli heimilismanns sem tryggingin nær til.

  Í sorginni erum við auðsæranleg, þá sérstaklega ef við mætum ekki skilningi og alúð frá því fólki sem við eigum erindi við.

  Peningar bæta ekki fyrir missinn og það er sárt að þurfa að taka við peningum vegna andláts þess sem maður elskar, en mundu að þér ber að leita eftir rétti þínum. Þú þarft að skapa fjölskyldunni framtíð. Erfiðleikarnir eru nægir þó ekki bætist við áhyggjur af ógreiddum reikningum.

  Það er einlæg von okkar að þessar upplýsingar geti létt undir með þér á vegi sorgarinnar og hjálpað þér til að horfa fram á veginn til bjartrar framtíðar.

  Fyrsta útgáfa þessa bæklings var prentuð í Odda hf. 26. mars 1995 og var kostuð Útfararstofu kirkjugarðanna. Hún sá um dreifingu á bæklingnum og m.a. var þessum bæklingi dreift til allra presta á landinu.

  Öll vinna við handrit er gefin.

  Reykjavík 8. febrúar 2001.

  Tekið hefur saman:
  Ester Sveinbjarnardóttir
  Guðrún María Óskarsdóttir og
  Pálmar Smári Gunnarsson

  með aðstoð:
  Kristínar Aðalsteinsdóttur

  Útgefandi og ábyrgðarma& eth;ur:
  Ester Sveinbjarnardóttir

  Yfirlestur á handriti:
  Rannveig Tryggvadóttir
  Örnólfur Thorlacius

  Við þökkum öllum er lögðu okkur lið við gerð þessarar handbókar.