HIV og Alnæmi

Ath! Þessi grein var skrifuð árið 2001
Tuttugu ár eru nú liðin frá því að fyrstu alnæmissjúklingarnir greindust en það var árið 1981. Þá veiktust nokkrir einstaklingar í Los Angeles, í Bandaríkjunum með mjög óvanalegar sýkingar sem aðeins voru þekktar fyrir að valda sjúkdómum í verulega ónæmisbældum einstaklingum. Enginn þessara einstaklinga virtist hins vegar hafa augljósa ástæðu til ónæmisbælingar. Svipuð tilfelli greindust fljótlega í New York og í ljós kom að það eina sem þessir einstaklingar áttu sameiginlegt var samkynhneigð. Það vaknaði því flótt sá grunur að um nýjan smitandi sjúkdóm væri að ræða og árið 1983 greindist síðan undirliggjandi orsökin, HIV veiran (Human Immunodeficiency Virus). Árið 1985 tókst að þróa aðferð til að mæla mótefni gegn veirunni í blóði og var þá hægt að meta útbreiðslu hennar og skima blóðgjafa, sem var mjög þýðingarmikið því að komið hafði í ljós að blóðþegar voru einnig áhættuhópur. Sjúkdómurinn sem veiran veldur var nefndur alnæmi, Aquired Immunodeficiency Syndrome (AIDS).

Þekking okkar á veirunni og hegðan hennar hefur tekið stórfelldum framförum á þeim tuttugu árum sem liðin eru, en við eigum enn langt í land með að skilja hana til fulls.

Smitleiðir veirunnar eru þrjár, í fyrsta lagi kynmök, í öðru lagi blóðsmit og í þriðja lagi frá móður til fósturs. Smitun við kynmök er langalgengust og orsakar um 80% af HIV sýkingum um allan heim. Ólíkt því sem margir telja er í 70% tilfella um að ræða smit meðal gagnkynhneigðra en aðeins 10% eru meðal samkynhneigðra. Þessar tölur eru þó mismunandi eftir heimshlutum. Um það bil 10 % má rekja til blóðsmitunar og er þar fyrst og fremst um að ræða sprautufíkla sem deila nálum og 10% eru vegna smits frá móður til fósturs.

Í þróuðu löndunum er hlutfall samkynhneigðra meðal smitaðra almennt hærra en gagnkynhneigðra eins og tölur um smitleiðir frá Íslandi sýna en hér eru 52.6% smitaðra samkynhneigðir, 31.2% gagnkynhneigðir, 11% sprautufíklar, 2.6% blóðþegar, 0.6% frá móður til barns og í 1.9% tilfella óþekkt. Smitleiðirnar endurspegla síðan kynjaskiptinguna. Á Íslandi hafa alls 154 einstaklingar smitast, þar af 122 karlar og 32 konur. Þetta er þó að breytast og ef litið er á síðustu fjögur árin hafa 25 einstaklingar smitast við gagnkynhneigð mök en aðeins 10 við samkynhneigð mök og er kynjaskiptingin á þessum tíma 28 karlar og 13 konur. Í Afríku, þar sem flestir smitast við gagnkynhneigð mök er kynjaskiptingin jöfn.

HIV veiran hefur dreift sér með ógnarhraða meðal jarðarbúa. Í dag eru u.þ.b. 37 milljónir einstaklinga HIV smitaðir og u.þ.b. 23 milljónir hafa þegar látist vegna sýkingarinnar. Þannig hafa í heildina um 60 milljónir manna smitast. Það er nánast íbúatala Stóra-Bretlands. Árið 2000 greindust 5.3 milljónir nýrra sýkinga í heiminum sem þýðir að 16 þúsund einstaklingar smitast daglega. Það svæði sem hefur orðið hvað verst úti í þessum faraldri er Afríka þar sem 25.3 milljónir, (2/3 HIV smitaðra) lifa nú HIV smitaðir og 3/4 af þeim sem hafa látist vegna sjúkdómsins eru þaðan. Sem dæmi má nefna að í Botswana eru 36% fullorðinna smitaðir.

Ljóst er að þetta hefur gríðarlegar afleiðingar í för með sér, sérlega þegar hugsað er til þess að fæstir fá meðferð í þessum löndum og þetta er fólk á besta aldri sem er að deyja og skilur eftir sig börn,-„foreldralausa kynslóðin”, sem nú telur 13.2 milljónir. Það gefur augaleið að megin vörn gegn því að smitast er notkun smokka við kynmök. Þessa einfalda vörn er þó alltof sjaldan notuð. Nýleg rannsókn frá Bandaríkjunum sýndi að í úrtaki karlmanna sem höfðu haft kynmök við aðra menn var tíðni HIV smits 7.2%. Innan við 20% þeirra vissu að þeir væru smitaðir og 41% sögðust hafa haft óvarin endaþarmsmök á síðustu 6 mánuðunum fyrir rannsóknina.

HIV veiran ræðst fyrst og fremst á ákveðnar frumur í ónæmiskerfinu, svokallaðar hjálparfrumur (T-helper lymphocytes, CD4 cells) sem eru nauðsynlegar í vörn okkar gegn ýmsum sýkingum. Skortur á þeim getur einnig valdið ákveðnum tegundum krabbameins. Sýkingarnar, sem valda ekki sjúkdómi í heilbrigðum og því kallaðar tækifærissýkingar, gera hins vegar ekki vart við sig, eins og krabbameinin, fyrr en verulegur skortur er orðinn á hjálparfrumunum. Að meðaltali líða 8-10 ár frá smiti þar til þetta gerist. Þá er talað um að einstaklingur sé kominn með alnæmi. Fram að þeim tíma eru flestir nær alveg einkennalausir. Meira en 100 mismunandi tegundum tækifærissýkinga, vegna veira, baktería, sveppa og sníkjudýra, hefur verið lýst í alnæmissjúklingum og fyrir daga HIV lyfjameðferðar drógu þessar sýkingar einstaklinga til dauða á að meðaltali 2-3 árum. Auk þess geta aðrir sýklar, sem ónæmiskerfið hefur haldið í skefjum, náð sér á strik, svo sem berklar og er HIV sýking ein aðal ástæða fyrir aukinni tíðni þeirra um allan heim. Veiran sjálf getur einnig valdið einkennum frá ýmsum líffærum t.d. nýrnabilun, andlegri hnignun og alvarlegum næringarskorti svo eitthvað sé nefnt. Fyrstu einkenni alnæmis geta þannig verið mjög mismunandi háð því um hvaða ferli er að ræða, t.d. húðkrabbamein, lungnabólga eða einkenni frá miðtaugakerfi. Ekki er því hægt að greina alnæmi út frá einkennum sjúklings. Það þarf að mæla mótefni gegn veirunni í blóði sem er auðvelt að fá gert hérlendis.

Fyrsta lyfið gegn veirunni, zidovudine (3’-azido-3’-deoxythymidine eða AZT) kom á markaðinn árið 1986. Verulegur ávinningur af lyfjameðferð varð þó ekki fyrr en árið 1995, en þá hafði tekist að þróa þrjá lyfjaflokka og vinnur hver þeirra á mismunandi staði í fjölgunarferli veirunnar. Það virðist þurfa minnst þrjú lyf úr a.m.k. tveim flokkum til að árangur náist og er nú úr 15 lyfjum að velja innan þessara þriggja flokka. Með slíkri fjöllyfjameðferð, (HAART, highly active antiretroviral therapy) hefur orðið bylting í meðferð HIV sýktra. Jafnvel einstaklingar sem var vart hugað líf eru nú virkir þátttakendur í lífinu og komnir aftur út á vinnumarkaðinn.

Fjöllyfjameðferð hefur skilað sér í allt að 80% lækkun á dánartíðni vegna alnæmis í hinum vestræna heimi þegar best tekst til. En vandamálin eru áfram mörg. Lyfin hafa margar aukaverkanir og þolast oft illa. Um er að ræða flókna meðferð með mörgum töflum sem þarf að taka mjög reglulega yfir daginn og reynist það oft erfitt. Rannsóknir hafa sýnt að meðferðarheldni þarf að vera sem næst 95% til að skila árangri. Vegna hinnar flóknu meðferðar næst góður árangur, þ.e. að veirumagnið náist niður fyrir mælanleg gildi, hjá aðeins 50-90% tilfella. Náist það takmark ekki er veiran fljót að mynda ónæmi gegn lyfjunum, en hún er einstök að því leyti að helmingunartími hennar er aðeins 6 klst. og a.m.k. ein billjón nýrra veira myndast daglega í líkamanum. Möguleikinn á stökkbreytingum er því gríðarlegur. Bjartsýni ríkir þó enn, því von er á nýjum lyfjum innan þessara flokka á næstunni sem eru í mörgum tilfellum virk gegn ónæmum veirum. Jafnframt eru miklar vonir bundnar við uppgötvanir lyfja sem hafa áhrif á þrjá nýja staði í lífsferli veirunnar og eru nú á rannsóknarstigi.

Lyf gegn HIV veirunni eru mjög dýr, eins og allt eftirlit með meðferðinni, (veirumagnsmælingar o.s.frv.), sem jafnframt krefst mikillar sérþekkingar og því miður hafa þetta verið forréttindi hins vestræna heims. Fátækustu þjóðirnar þar sem flestir smitaðra lifa munu ekki njóta þessa í sjáanlegri framtíð. Eina langtíma vonin er að fundið verði bóluefni gegn veirunni, en þar eiga vísindamenn enn langt í land þrátt fyrir miklar rannsóknir á því sviði síðustu 15 ár. Helsta skammtíma vonin er að aukin fræðsla um veiruna og smitleiðir hennar muni skila árangri í að fækka fjölda smitaðra.