Hitastigsaðferðin

Hvað er hitastigsaðferðin?

Hitastigsaðferðin við að fylgjast með egglosi er ívið áreiðanlegri en aðrar náttúrulegar aðferðir til getnaðarvarna.
Hitastigsaðferðin gengur út á það að mæla líkamshitann á hverjum morgni til að fylgjast með því hvenær egglos verður.
Staðreyndin er nefnilega sú að líkamshitinn hækkar – um allt að hálfa gráðu – sólarhringinn eftir að egglos verður. Með því að vita hvenær egglos verður og forðast samfarir þá dagana, þegar mestar líkur eru á getnaði, ertu með þokkalega ábyggilega náttúrulega aðferð til að stýra stærð fjölskyldunnar.

Hvernig ferðu að?

Svokallað grunnhitastig er mælt á hverjum morgni um leið og þú vaknar, og áður en þú ferð fram úr eftir að minnsta kosti 5 klukkustunda órofna hvíld. Mikilvægt er að mæla hitastigið rétt og með sama mæli á hverjum degi. Helst verður að mæla líkamshitann á nokkurn veginn sama tíma dag hvern sé þess nokkur kostur.

Skrifaðu helst mælinguna hjá þér eða gerðu hitatöflu fyrir hvern dag. Þegar hitastigið hækkar og helst þannig hefur egglos átt sér stað.

Auðveldasta leiðin til að meta hitasveiflur er svokölluð 3 yfir 6 reglan. Þegar hitastigið mælist eins í 3 skipti og er þá hærra en það hefur mælst í 6 daga á undan getur maður gert ráð fyrir að egglos hafi orðið. Eftir þrjá daga frá egglosi er nokkurn veginn hægt að reikna með því að eggið muni ekki frjóvgast. Hægt er að nota þessa aðferð ásamt tíðahringsaðferðinni.