Hirðing gervitanna

Tannsýkla sest jafnt á gervitennur sem eigin tennur. Hún er sömu gerðar og tannsýkla lifandi tanna en er þó ríkari af sveppategundum, m.a. Candida albicans, sem veldur þrusku í slímhúð hjá ungbörnum og bólgu í slímhúð undir gervitönnum. Ef gervitennur eru vanhirtar leggst tannsýklan aðallega á þann hluta gómsins sem liggur að slímhúðinni.

Vanhirða veldur einnig slæmu bragði, andremmu, auknum sveppagróðri og sýkingu í slímhúð munnsins.

Til eru tvær tegundir gervitanna

Heilgómar Tannpartar
  • Heilgómar – Þeir þekja allan rimann í efri og neðri kjálka og hvelfingu efri góms.
  • Tannpartar – Þeir styðjast við eftirstandandi tennur að hluta og við slímhúð á tannlausum svæðum. Þeir eru í flestum tilfellum festir með málmkrókum við eigin tennur.

Burstun gervitanna

Burstar fyrir gervitennur þurfa að hafa löng og mjúk hár til að ná niður í góminn.

Hreinsiefni fyrir gervitennur
Tannkrem er æskilegt við burstun á eigin tönnum en þar sem það inniheldur slípiefni er það ekki æskilegt við burstun á gervitönnum. Venjuleg fljótandi handsápa eða uppþvottalögur innihalda ekki slípiefni og eru ágæt hreinsiefni fyrir gervitennur. Á markaði eru ýmsar tegundir efna sem hreinsa gervitennur. Rannsóknir hafa ekki sýnt að þessi efni beri marga kosti umfram einfaldari og ódýrari lausnir, s.s. handsápu eða uppþvottalög og sum lita eða bleikja gervitennur. Þessi hreinsiefni geta ekki komið í staðinn fyrir daglega burstun. Mikilvægt er að varast öll hreinsiefni sem innihalda spritt, aceton eter og klóroform. Þessi efni eyðileggja yfirborð tannanna.

Einfalt ráð og ódýrt til að hreinsa litun vegna kaffi- eða tedrykkju er að leggja gervitennurnar í 1 bolla af köldu vatni og hræra út í það 1 teskeið af matarsóda. Látið liggja í u.þ.b. 10 mínútur og skolið síðan gervitennurnar vel með köldu vatni og burstið þær vandlega.

Ef um sveppasýkingar er að ræða í slímhúð í munni ber ávallt að leita ráða hjá tannlækni eða lækni um meðferð. Tannlæknir eða læknir skrifar út lyfseðil fyrir sveppalyfjum og ráðleggur að leggja gervitennurnar í bleyti í klórhexidín lausn á næturna meðan á meðhöndlun stendur.

Meðhöndlun á gervitönnum
Halda þarf um gervitennur með stöðugu gripi. Rétt og röng meðhöndlun á gervitönnum.

Rétt haldið á efri og neðri góm. Rangt haldið á neðri góm…….. og afleiðingin!

Hirðing gervitanna

Ráðlegt er að bursta yfir handlaug eða skál með vatni til að forðast brot ef tennurnar falla úr hendi. Bursta þarf alla fleti vel, einkum þá er snúa að munnslímhúðinni. Skola skal gervitennur með volgu eða köldu vatni.

Gervitennur hafa glansandi mjúka áferð. Við hreinsun þarf að hafa hugfast að rispa ekki yfirborðið. Rispur eru ákjósanleg festa fyrir sýkla og sveppi sem geta valdið sýkingu í aðliggjandi slímhúð.

Mikilvægt er að bursta slímhúð munnsins með mjúkum tannbursta og þá gefur örlítið tannkrem ferskt bragð í munninn

Ef einhverjar tennur eru enn í munninum er einnig mikilvægt að hreinsa þær vel.

Tannsteinn á gervitönnum

Tannsteinn getur lagst á gervitennur líkt og líkamstennur. Þá er ráðlegt að leggja þær í blöndu af vatni og þynntu borðediki, ein matskeið af borðediki út í vatnsglas. Mikilvægt er að skola gervitennurnar vel á eftir með volgu vatni. Ekki skal framkvæma þetta oftar en mánaðarlega

Hvernig er best að geyma gervitennur?

Gervitennur þarf ávallt að geyma hreinar og rakar.

Í stuttan tíma, t.d. yfir nótt, skulu gervitennur lagðar í vatn.

Gervitennur, sem geyma þarf í nokkurn tíma, skal hreinsa á venjulegan hátt og leggja síðan í 0,2% klórhexidín – upplausn í 15 mínútur. Þetta er gert til að koma í veg fyrir gróðurmyndun sveppa og sýkla. Að því loknu eru gervitennurnar látnar í lokað ílát ásamt blautri grisju til að viðhalda raka. Einnig má láta þær liggja í saltvatni. Athuga ber að gervitennur geta aflagast við of hátt hitastig (60°C).

Notkun tannlíms

Að jafnaði er ekki mælt með notkun tannlíms á gervitennur. Tannlím getur gert fólki kleift að nota gervitennur sem passa illa en á sama tíma getur það haft mjög skaðleg áhrif á undirliggjandi slímhúð. „Púðar" sem seldir eru í lyfjaverslunum og lagðir eru í botn gervitanna eru einnig í flestum tilvikum mjög skaðlegir. Tannlím ætti því ekki að nota nema í samráði við tannlækni.

Merking gervitanna

Við smíði gervitanna má koma fyrir málmplötu með nafni eiganda eða númeri. Þannig er auðvelt að finna réttan eiganda gervitanna sem hafa misfarist.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannnverndarráðs af vef þeirra tannheilsa.is