Hinn raunverulegi 2000 vandi?

Höfundar starfa við vinnuvernd og heilsueflingu hjá Gáska Sjúkraþjálfun

Líkamleg óþægindi við tölvuvinnu

Á síðustu árum hefur tölvunotkun aukist verulega hér á landi. Fjölmargir þurfa að reiða sig á tilveru tölvunnar á degi hverjum og til hafa orðið starfsgreinar þar sem nær eingöngu er unnið við tölvur. Í könnun frá 1998 kom í ljós að um þrír af hverjum fjórum landsmönnum á aldrinum 16 til 75 ára höfðu aðgang að tölvu heima, í vinnu eða í skóla. Samkvæmt þróuninni má ætla að þessi tala fari sífellt hækkandi.

Könnun á algengi líkamlegra óþæginda

Undirritaðir gerðu könnun s.l. vetur sem hluta af lokaverkefni til Bs gráðu í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Í könnuninni var m.a. spurt um algengi líkamlegra óþæginda hjá þeim sem vinna við tölvur. Lagður var spurningalisti fyrir tæplega 200 starfsmenn sem unnu við tölvur. Helstu niðurstöður koma fram í eftirfarandi töflu:

Tafla 1.

  Algengi (%) af heildinni: óþægindi á nokkrum líkamssvæðum á sl. 12 mánuðum og sl. 7 daga hjá þeim sem vinna við tölvur.
Líkamssvæði Samtals Samtals
með óþægindi s.l. 7 daga s.l. 12 mánuði
Háls og hnakki 47% 72%
Herðar og axlir 43% 67%
Mjóbak 34% 64%
Olnbogi 4% 7%
Úlnliðir 11% 24%
Fingur 17% 17%

Niðurstöður sýna að líkamleg óþægindi eru mjög tíð meðal þeirra sem vinna við tölvur. Sé borið er saman við rannsókn á slembiúrtaki meðal íslensku þjóðarinnar frá 1986 á sömu atriðum, kemur í ljós að á meðal þeirra sem vinna við tölvur eru óþægindin tíðari í nær öllum tilvikum.

Há tíðni á Íslandi

Samanburður við niðurstöður sambærilegra erlendra rannsókna bendir til að algengið sé meira hér en erlendis eða allt að 15-30%. Hvað veldur þessum mikla mun er óljóst. Margir þættir koma til greina sem orsaka- og áhættuþættir, t.d. langur vinnudagur, léleg líkamsbeiting, léleg vinnuaðstaða, lítið um skipulögð vinnuhlé, lítil líkamsþjálfun, upplifun á starfsleiða, einhæfni og of miklum kröfum í starfi.

Eru konur veikara kynið?

Þegar samanburður er gerður á óþægindum sl. 12 mánuði hjá konum og körlum kemur í ljós að konur upplifa frekar óþægindi heldur en karlar á þeim líkamssvæðum sem spurt var um. Þennan mun milli kynja er erfitt að útskýra. Hægt er að velta upp mörgum spurningum, t.d. hvort konur bregðist verr við truflun eða áreiti í umhverfinu, hvort stoðkerfi kvenna sé viðkvæmara en stoðkerfi karla eða eru þær í einhæfari (erfiðari) vinnu, þrátt fyrir það að jafnrétti eigi að ríkja á vinnustað.

Tafla 2.

  Algengi (%) af heildinni og milli kynja: óþægindi á nokkrum líkamssvæðum á sl. 12 mánuðum hjá þeim sem vinna við tölvur.
Líkamssvæði Konur Karlar
með óþægindi (n=83-85) (n=100)
Háls og hnakki 84% 63%
Herðar og axlir 80% 56%
Mjóbak 75% 54%
Olnbogi 8% 6%
Úlnliðir 31% 19%
Fingur 24% 11%

Vandamál sem verður að taka á

Það að nær 50% allra finna fyrir óþægindum í hverri viku hlýtur að teljast vandamál og raunar óásættanlegt. Rúmlega 90% allra þeirra sem starfa við tölvur hafa haft einhver óþægindi s.l. 12 mánuði. Það hlýtur því að vera hagur allra að hugað sé að þeim áhættuþáttum sem vitað er að valda þessum einkennum og þeir helst fjarlægðir úr vinnuumhverfinu.

Ástæður/áhættuþættir líkamlegra óþæginda við vinnu:

 • slæm líkamsbeiting
 • slæm vinnustaða
 • mikið og óheppilegt vinnuálag
 • slæmt ástand líkamans
 • óheppilegur lífstíll
 • neikvæð upplifun í starfi

Hvað er til ráða?

Draga úr vinnuálagi:

 • stytta vinnudaginn
 • taka skipulögð vinnuhlé
 • auka fjölbreytni við vinnu, t.d. hafa eitthvað sem krefst þess að við stöndum upp reglulega
 • gera léttar líkamsæfingar í hléum til að örva blóðflæði til þreyttra líkamshluta

Beita líkamanum rétt:

 • sitjandi
 • standandi

Breyta/laga vinnuaðstöðu

:

 • aðlaga aðstæður að hverjum og einum til að draga sem mest úr óþarfa álagi á líkamann

Bæta líkamlegt ástand

 • með auknu þoli og þreki erum við tilbúin að takast á við meira álag í vinnu

Af hverju finnum við til við svona „létta vinnu?“

Þetta er yfirleitt út af stöðuvinnu vöðva sem er viðvarandi vöðvavirkni þar sem stöðu er viðhaldið um nokkurn tíma án þessa að slökun fáist. Þetta er slæmt fyrir vöðvana því þeir eru byggðir fyrir hreyfingu, þ.e. innstreymi blóðs í slökun, úttreymi blóðs við átak. Vöðvarnir þola illa að vera í sömu spennu lengi því þá safnast upp úrgangsefni sem valda síðan óþægindum ef þau komast ekki í burtu.

Heilsuefling á vinnustöðum

Með heilsuvernd starfsmanna er átt við forvarnarstarf innan fyrirtækjanna sem miðar að því að koma í veg fyrir heilsutjón vegna aðstæðna á vinnustað. Forvarnarstarfið er unnið af sérmenntuðu fagfólki í umboði atvinnurekenda, í samstarfi við þá og starfsmenn. Í grófum dráttum felst forvörn í því að greina áhættu og skipuleggja forvarnir. Ennfremur að forgangsraða framkvæmdum sem byggja á þeirri greiningu.

Hlutverk sjúkraþjálfara í heilsueflingu á vinnustöðum

Sjúkraþjálfarar hafa lokið háskólanámi þar sem megin áhersla er á hreyfi- og stoðkerfi líkamans. Orsakir stoðkerfisvandamála geta bæði stafað af andlegum og líkamlegum þáttum og hlutverk sjúkraþjálfara er að greina, meðhöndla og vinna gegn þróun þeirra. Best er ef mögulegt er að koma í veg fyrir að líkamleg óþægindi komi fram. Rannsóknir hafa sýnt að milli 40 og 50% stoðkerfisvandamála megi rekja til vinnu. Því er eðlilegt að farið sé inn á vinnustaði í þeim tilgangi að bæta aðbúnað og líkamsbeitingu starfsfólks.

Slysatíðni er líka nokkur hér á landi við vinnu þó svo að vinnuslys hafi ekki verið skráð á fullnægjandi hátt. Samtals er talið að atvinnutengdir sjúkdómar og vinnuslys kosti þjóðfélagið um 15-20 milljarða árlega. www.gaski.is