Hindúismi

Þessi síða er hluti af greininni Menningarheimar mætast

Áhrif trúar, menningar og arfleiðfar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar

Hindúismi

Hinduism

Hindúismi er ekki bara trúarbrögð heldur er hann sambland fjölda átrúnaða, lífshátta og stefna sem eru mismunandi eftir landsvæðum og hefur því ekki fætt af sér trúarbragðakerfi sem gildir alls staðar. Trúarheimur hindúa er undraveröld þar sem finna má guði með þúsund augu, sextán arma eða fjögur höfuð. Hindúar sjá guði í öllu, svo sem í trjám, fljótum, kúm eða maurum og bera því lotningu fyrir öllum hlutum. Flestir velja sér þó sinn eigin persónulega guð þó að þeir í reynd trúi á marga guði. Þeir viðurkenna samt sem áður einn aðalguðdóm, Bramha sem er skapari alls. Markmiðið er að sameinast Bramha en til þess að svo geti orðið þarf maðurinn að öðlast þekkingu á æðstu sannindum en sú leið er löng og erfið. Hún krefst margra endurholdgana þar sem breytni manna á fyrri tilverustigum ræður því í hvaða stétt menn eru í þessu lífi. Hver stétt hefur þannig sitt eigið karma, sínar skyldur og siðareglur.

Það má segja að hindúatrú sé tvíþætt. Annars vegar birtist hún í alþýðlegri guðsdýrkun, þar sem trúað er á guði eins og Vishnu sem er kærleiksríkur verndari sem viðheldur öllum hlutum og hins vegar Shiva, eyðandann mikla, sem er þó um leið endurskapari lífsins. Þessi tveir guðir eru hvað þekktastir í nútíma átrúnaði hindúa. Þeir eru afar ólíkir en fullnægja trúarþörfinni hvor á sinn hátt. Hins vegar birtist indversk trú í heimspekilegri túlkun á tilverunni og dauðanum. Helgi- og trúarrit hindúa eru ævaforn og mikil að vöxtum og hafa haft áhrif á ljóðagerð og aðrar listir þeirra sem aðhyllast átrúnaðinum.

Hindúar trúa að þeir snúi aftur til jarðar til betri eða verri aðstæðna eftir því hvert karma þeirra er. Þetta byggir ekki á einskærri forlagahyggju heldur á verkum einstaklingsins í þessu lífi, sem hefur áhrif á tilvist hans í því næsta. Fyrir bragðið er t.d heilbrigði eða sjúkdómar álitnir vera afrakstur góðra eða slæmra verka og mikillar eða lítillar trúrækni í fyrra lífi.

Hindúatrú er ríkjandi á Indlandi þar sem þjóðerni og trú eru næsta samfléttuð. Einnig eru hindúar í Pakistan, Ceylon, Burma, á Bali-eyjum og Trinidad. Hér á landi býr nokkur hópur hindúa.

Helgisiðir

Margir hindúar leggja upp úr að fá ró og næði til íhugunar og bæna. Þeir eldri byrja oftast daginn með bænahaldi meðan þeir yngri nota frekar sína hentisemi. Mikilvægt er að skapa næði svo þeir geti sinnt þessari trúarathöfn hafi þeir áhuga og þörf fyrir það. Sumir vilja gjarnan hafa styttur, myndir af guðum sínum við rúmið eða á koddanum ásamt talnabandi, blómum eða rúnastöfum (amulets) sem þeir sækja styrk og huggun í. Trúræknir hindúar tengja saman íhugun, bænir og líkamsæfingar í svokölluðu Hatha joga. Joga er ekki bara leið til slökunar heldur liggur ákveðin heimspeki að baki henni sem allir hindúar eru meðvitaðir um.

Börn eru ekki skírð í hindúasið, heldur er mikið um dýrðir þegar hár er skert á höfði drengja í fyrsta skipti. Ekkert slíkt á sér stað þegar stúlkubörn eiga í hlut, enda er ætlast til að þær séu með sítt hár alla ævi.

Divali er hátíð ljóssins og aðalhátíð hindúa. Hún er haldin árlega í október eða nóvember og færist til á milli ára. Þessi hátíð hindúa er um margt lík jólum kristinna manna þar sem þá er skipst á gjöfum. Mikið er um ljósaskreytingar og sérstakur hátíðarmatur er búinn til. Önnur stórhátíð er vorhátíðin Holi. Hluti þeirra hátíðahalda er að fólk makar þá litum hvert á annað. Í tilefni þeirrar hátíðar eiga menn að gera upp sakir, sættast og vera vinir. Að auki eru ýmsar smærri trúarhátíðir haldnar árið um kring.

Sumir einstaklingar eða fjölskyldur verða sér úti um eða eiga vatn úr Gangesfljótinu. Álitið er að vantið sé heilagt og að því fylgi mikil blessun.

Lífshættir

Fæðuvenjur
Margir hindúa neyta einungis jurtafæðu. Neysla nautakjöts er bönnuð, þar sem kýrin er heilagt dýr. Til að tryggja að ekkert sé í matnum sem rekja megi til afurða nautakjöts eða að nautakjöt hafi komist í snertingu við annan mat sem þeir neyta, og einnig til að vera vissir um að fyllsta hreinlætis sé gætt við matartilbúninginn, óska hindúar sem dveljast á sjúkrahúsum gjarnan eftir að fá tilbúinn mat að heiman. Nákvæmni varðandi matarvenjur hefur mikla þýðingu fyrir þá. Indverjar matast með því að nota brauð og hendurnar. Til að mynda vöðla þeir hrísgrjónum í lófa sér og gera úr þeim smáar kúlur sem þeir síðan setja upp í sig.

Föstur
Föstur eru algengar meðal hindúa, einkum í tengslum við hátíðarhöld, og er sá tími gjarnan tengdur því að ná sáttum við guð og menn. Þeir sem fasta reglulega fasta einn dag vikunnar og eru það einkum eldri konur og ekkjur. Bæði karlar og konur fasta í tilefni hátíða og standa þær föstur oft vikum saman eða fram að næstu trúarhátíð og er þá fastað ákveðinn dag vikunnar.

Til er annars konar fasta sem er fólgin í því að borðuð er einungis ein máltið á dag eða að ákveðnar matartegundir eru sniðgengnar um tíma. Þá eru einkum borðaðir ávextir og hnetur.

Hreinlæti
Hreinlæti er mjög mikilvægur þáttur hjá hindúum. Þeir fara í sturtubað daglega, helst að morgni dags. Það er sérlega mikilvægt fyrir eldri hindúa að fara í bað snemma dags fyrir bænagjörð, einnig fyrir þá sem eru veikir eða deyjandi og þurfa aðstoðar við þvott. Hindúar fara helst ekki í baðkar, þar sem vatnið sem þeir stíga upp úr í lokin er óhreint. Hindúar líta svo á að bað sé ekki einungis gott fyrir líkamann heldur einnig andann. Baðið er því einskonar trúarathöfn. Þá er það mjög mikilvægt fyrir þá að þvo hendur og hreinsa munn fyrir og eftir máltíðir.

Hreyfing
Sumir Hindúar leggja stund á Hatha joga. Sjá Helgisiðir.

Áfengi og aðrir vímugjafar
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við hindúa sem lýtur að áfengi og öðrum vímugjöfum.

Reykingar
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við hindúa sem lýtur að reykingum.

Viðhorf til fjölskyldunnar

Fjölskyldan er mjög mikilvæg í augum hindúa.

Viðhorf til sjúkdóma og meðferðar

Hindúatrú er ríkjandi á Indlandi og indversk læknisfræði byggir á Ayurveda, vel útfærðri heimspeki sem læknar og sjúklingar eru meðvitaðir um. Áhersla er á reglubundið mataræði, svefn, útskilnað úrgangsefna, líkamlegt hreinlæti, þægilegan klæðaburð, líkamsæfingar og heilbrigt kynlíf. Það er mikið feimnismál fyrir hindúa að ræða einkenni frá líffærum eins og blöðru, ristli eða kynfærum. Inngrip eða meðferð sem tengjast þessum líffærum getur verið afar erfið, þegar hindúar eiga í hlut, vegna viðhorfa þeirra. Helst er ekki talað um þessi líffæri í viðurvist annarra eins og t.d. maka eða fylgdarmanns.

Algengt er að konur fæði heima. Ungar konur fæða oft sitt fyrsta barn í föðurhúsum ef því verður við komið og dvelja svo um tíma hjá foreldrum sínum.

Orsakir sjúkdóma
Heilbrigði jafnt sem sjúkdómar eru álitnir vera afrakstur góðra eða slæmra verka og mikillar eða lítillar trúrækni í fyrra lífi. Þetta viðhorf getur því valdið sjúklingnum andlegri vanlíðan. Flestir hindúar sem flust hafa til Vesturlanda hafa í ríkara mæli tileinkað sér vestræna læknisfræði og skilja að veikindi orsakast fremur af öðrum þáttum, svo sem sýkingum.

Getnaðarvarnir
Hindúar nota getnaðarvarnir. Á Indlandi hefur um margra ára skeið verið haldið uppi herferð í því skyni að hvetja hjón til að eignast aðeins tvö börn. Í því sambandi hafa karlmenn verið hvattir til að fara í ófrjósemisaðgerð.

Fóstureyðingar
Fóstureyðingar eiga sér stað í hindúasamfélagi. Það kann þó að vera í óþökk hinna trúuðu.

Meðganga
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við hindúa sem lýtur að meðgöngu, nema það sem almennt er og kemur fram undir Samskipti.

Líffæraflutningar
Hindúar eru ekki á móti líffæraflutningum.

Verkjameðferð
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við hindúa sem lýtur að verkjameðferð.

Blóðgjafir
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við hindúa sem lýtur að blóðgjöf.

Krufningar
Hindúar eru nær alfarið á móti krufningu, þar sem hún er álitin vera vanvirðing við hinn láta og fjölskyldu hans. Ef krufning er álitin nauðsynleg þurfa rökin að vera sterk og haldbær til að samþykki aðstandenda fáist.

Snerting

Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við hindúa sem lýtur að snertingu.

Samskipti

Mikil stéttaskipting ríkir meðal hindúa. Ekki er litið á þessa skiptingu sem þjóðfélagsfyrirbæri heldur að mismunur á kjörum fólks og hæfileikum sé afleiðing karmalögmálsins og endurholdgunarinnar.

Hér áður var lögð meiri áhersla á aðskilnað kynjanna og þótti æskilegra að karlkyns læknir skoðaði karla og kvenkyns læknir konur. Þetta hefur breyst mikið hin síðari ár og er öllu frjálslegra nú. Hins vegar kann þetta enn að vera mál fyrir suma. Undir slíkum kringumstæðum gæti maki eða fylgdarmaður óskað eftir að vera viðstaddur skoðun læknis af gagnstæðu kyni.

Hindúar eru mjög meðvitaðir um að hylja nekt sína jafnvel fyrir fólki í heilbrigðisstétt. Það eitt að þiggja aðstoð við bað getur reynst þeim erfitt, einkum ef heilbrigðisstarfsmaðurinn er af gagnstæðu kyni. Gæta verður fyllstu nærgætni og að sjúklingurinn sé baðaður &iac ute; einrúmi. Sama gildir um önnur inngrip.

Konur eru álitnar “óhreinar” meðan á tíðablæðingum standa. Einnig eru syrgjendur álitnir „óhreinir“ meðan sorgartíminn varir. Þetta þýðir í reynd að fólk heldur sig til hlés á þessum tíma.

Umönnun sjúkra og deyjandi

Hreinlæti er mjög mikilvægur þáttur hjá hindúum. Sjá Hreinlæti.

Föstur eru algengar, einkum í tengslum við hátíðarhöld, og er sá tími gjarnan tengdur því að ná sáttum við Guð og menn. Fasta getur verið mjög mikilvæg fyrir sjúklinginn þar sem hér getur verið um einlæga trúarathöfn að ræða. Útskýra þarf áhrif föstunnar fyrir sjúklingnum og fjölskyldu hans, m.a. með tilliti til vökvajafnvægis líkamans, og hvaða áhrif það kann að hafa kjósi sjúklingurinn ekki heldur að taka lyf, t.d. verkjalyf meðan fastað er.

Ættingjar og vinir aðstoða oft við helgihaldið og styðja sjúklinginn í veikindunum og þegar dregur að andláti. Margir hindúar leggja upp úr því að fá ró og næði til íhugunar og bæna. Sjá Helgisiðir.

Gjarnan er kveikt á lampa eða kerti við rúm deyjandi sjúklings og/eða brennt reykelsi. Venjulega er engin fyrirstaða fyrir því að heilbrigðisstarfsfólk veiti hinum látna umönnun á hefðbundinn hátt. Þó kunna að koma til einhver frávik, mismunandi hefðir, sem ættingjar gætu óskað eftir að tekið yrði tillit til. Oftar en ekki er líkið fullklætt og það síðan sveipað laki.

Styrkur hindúa gagnvart dauðanum bitist í því viðtekna viðhorfi átrúnaðar þeirra að taka því sem að höndum ber. Það er markmið hvers hindúa að losna úr endurholdgunaránauðinni. Litið er á dauðann sem nýja fæðingu og er hann því mesti atburður æviskeiðsins. Sjaldan kemur því fram reiði gagnvart dauðanum. Syrgjendur halda sig til hlés um tíma, en sýna þó sorgarviðbrögð með því að gráta og með því að taka utan um hvert annað og hugga.

Umhverfi

Trúræknir hindúar leggja upp úr því að fá ró og næði til íhugunar og bæna. Sumir vilja gjarnan hafa styttur, myndir af guðum sínum við rúmið eða á koddanum ásamt talnabandi, blómum eða rúnastöfum (amulets) sem þeir sækja styrk og huggun í.

Útför og greftrun

Venja hindúa er að smyrja líkið með olíu eða einskonar smjöri (ghee). Það er gert meðal annars til að líkið brenni betur því samkvæmt hindúasið eru þau alltaf brennd. Askan er ekki grafin í jörðu heldur er henni dreift yfir vatn, sjó eða á, eftir að hindúaprestur eða fulltrúi hans hefur blessað duftið. Bálför fer fram eins fljótt og auðið er, jafnvel samdægurs. Fjölskyldan eða samfélag hindúa sér um bálförina í samráði við útfararþjónustu.

Birt með góðfúslegu leyfi Landlæknisembættisins, Landspítala-háskólasjúkrahúss og höfunda