Hetjur hafa áhrif

Eldri sonur minn er 5 ára.  Hann hefur alltaf verið frekar kresinn á mat. Ég undraði mig oft á því þegar hann var ungabarn hversu laginn hann var að finna litlu brokkoli bitana í barnamaukinu og spýta þeim út. Sjálf hugsa ég mikið um heilsuna og hvað ég læt ofaní mig. Ég lagði því töluvert á mig til að kenna syni mínum að meta grænmeti og annan hollan mat. Ég man hvað ég hlakkaði mikið til þegar hann færi að tala, þá yrði miklu auðveldara að útskýra fyrir honum að hann gæti ekki lifað eingöngu á skyri og ávöxtum. Hann yrði að borða fjölbreytta holla fæðu. Ég hafði nánast gefist upp á að bjóða honum grænmeti en einbeitti mér að því að kenna honum að borða fisk og kjöt.  Að minnsta kosti að smakka sagði ég við hann. Það varð þó ekkert auðveldara þegar hann fór að tala því sonur minn gat alveg útskýrt eins og ég. Hann var jafnvel rökfastari en móðir hans og enn þrjóskari.   Mér barst óvæntur liðsauki þegar Palli litli kynntist íþróttaálfinum og íbúum Latabæjar. Hann hafði áður kynnst Bósa ljósár og fleiri hetjum úr teiknimyndum sem hann lifði sig svo vel inní að hann varð að sjálfri söguhetjunni og flaug um gólf kallandi:  ,,út fyrir endimörk alheimsins” um leið og hann stökk niður af sófaarminum. Þegar hann kynntist Latabæ varð hann að íþróttaálfinum. Hann setti nú hendur á gólfið og fætur upp á sófaarminn til að æfa sig að standa á höndum. Hann var ekki alveg sáttur við getuna og vissi hvað íþróttaálfurinn gerði til að verða svona sterkur og fimur. Hann borðaði íþróttanammi. Löngunin til að vera eins og hetjan hans gerði það að verkum að hann lét sig hafa það að borða grænmeti. Hann lagði sérstaka áherslu á að borða gulrætur (sem honum þóttu verstar af öllu) því hann taldi bein tengsl þeirra á milli og getunnar til að standa á höndum. Á fjögurra ára afmælisdaginn reyndi hann að pína í sig gulræturnar þar til þær komu upp úr honum aftur. Þá settumst við niður og ræddum um að allur hollur matur hefði góð áhrif og íþróttaálfurinn myndi alveg sætta sig við að hann borðaði ekki gulrætur ef hann borðaði bara annan hollan mat í staðinn. Við sættumst á tómata sem íþróttanammi.  Það er kannski fulllangt gengið að lagt sé svo hart að börnum að borða mat sem fleim þykir vondur að þau kasti upp en það er ekki það sem er boðskapur þessarar litlu sögu heldur hitt. Að íþróttaálfurinn og vinir hans skuli hafa þau áhrif á börnin okkar að þau LANGI til að lifa heilbrigðu lífi, borða hollan mat og hreyfa sig.    Nýtum okkur það að Latibær ætlar að gera þjóðarátak hjá Íslendingum. Við gætum orðið fyrsta landið til að snúa baki við þeim faraldri ofþyngdar sem herjar í vaxandi mæli á hinn vestræna heim.  Tökum öll þátt í þjóðarátakinu og virkjum orku komandi kynslóða.   .