Heitt vatn brennir sem eldur

 
Heitir vökvar, t.d. kaffi, te eða sjóðandi vatn eru algengustu orsakir bruna hjá litlum börnum

Bara einn kaffibolli…

Mamma, pabbi og Pétur sitja saman fyrir framan sjónvarpið. Á dúkuðu borðinu eru kökur, kaffi og ávaxtasafi. María sem er 11 mánaða gömul og nýfarin að ganga stefnir í áttina að borðinu. Hún kippir í dúkinn þegar hún kemur að borðinu.

Kaffibollinn veltur um koll og heitt kaffi slettist um kinnar, háls og bringu Maríu.

Grátur. Öskur. Ringulreið?

María grætur hástöfum! Þetta er hræðilega sárt!

Hvað gerðist eiginlega?

Jú, það sem gerðist er algeng orsök bruna hjá litlum börnum. Afleiðingin er brunasár á andliti, hálsi og bringu.Hvernig fór fyrir Maríu?

María var lögð inn á sjúkrahús og þar lá hún í viku. Foreldrar Maríu skiptust á að vera hjá henni. Sárin greru á tveim vikum en María verður með ör eftir sárin það sem eftir er ævinnar.

Í þessari grein er farið yfir eftirfarandi efni:

 • brunaslys íslenskra barna
 • brunaslys tengd aldri barna
 • eldsvoði – hvað er til ráða
 • viðbrögð við brunaslysi
 • varnir gegn brunaslysum.

Brunaslys íslenskra barna

Á hverju ári kemur fjöldi barna á slysamóttöku og heilsugæslustöðvar víðs vegar um landið eftir að hafa hlotið brunasár.

Stór hluti þessara barna þarf að dvelja á sjúkrahúsum á meðan sárin gróa. Börnin líða miklar kvalir sem fylgja brunasárum og sum þeirra þurfa að fara í aðgerðir. Þetta getur oft skapað ýmis vandamál fyrir barnið og fjölskyldu þess, t.d. verður tímabundinn aðskilnaður vegna sjúkrahúslegu. Alvarlegustu brunaslysin eru meðhöndluð á Landspítalanum í Reykjavík. Það getur tekið marga mánuði fyrir stór brunasár að gróa og iðulega þarf húðflutninga til. Oft tekur það nokkur ár fyrir barn að ná sér að fullu. Hætta er á sýkingu í brunasár og getur sýking tafið verulega fyrir því að sárin grói. Ekki má gleyma því að langvarandi dvöl á sjúkrahúsi getur haft ýmis andleg vandamál í för með sér fyrir barn.

Hitastig vökva yfir 65°C veldur alltaf bruna

Dýpt brunasáranna verður meiri því hærra sem hitastigið er og því lengur sem heitur vökvinn er í snertingu við húðina.

Því útbreiddari sem bruninn er því alvarlegri er hann. Talað er um stig brunasára, eftir því hversu djúp þau eru. Fyrsta og annars stigs brunasár gróa yfirleitt á 2-3 vikum. Komist sýking í sárið þarf það mun lengri tíma til að gróa. Þriðja stigs bruni er alltaf alvarlegur og þá er mun meiri hætta á sýkingu. Þessi brunasár þarfnast alltaf meðferðar á sjúkrahúsi sé bruninn útbreiddur. Í flestum tilfellum getur þurft að flytja húð frá öðrum stað á líkamanum til að græða brunasárið. Húð barna er mun viðkvæmari en húð fullorðinna

Slysahætta er mismundandi eftir aldri barna

Algengasta orsök bruna hjá 0-2 ára börnum er að heitur vökvi, t.d. hitaveituvatn eða heitur grautur hellist yfir þau.

Hjá 3-6 ára börnum er ástæðan oft sú að þau fikta með eldspýtur, leika sér of nálægt grilli, brennast í baði eða í sturtu.
Meðal skólabarna eru slys er tengjast áramótum algeng. Margs konar flugeldar og blys geta valdið brunasárum þegar þau springa í höndum barna. Árlega slasast að minnsta kosti eitt barn vegna heimatilbúinna sprengja.
Sprengjurnar springa í höndum barnanna og geta valdið miklum skaða t.d. fingurmissi, bruna í andliti og á handleggjum. Börn á þessum aldri eru gjörn á að fikta með eld og kveikja þá gjarnan í rusli eða sinu.

Eldsvoði

Bjarga öllum út
Hrætt barn bregst við með því að skríða í felur – inn í klæðaskáp eða undir rúm.

Hri ngja
Hringdu í neyðarnúmer 112 Gefðu upplýsingar um hvar eldsvoðinn er, hversu útbreiddur hann er og hvort einhver sé í hættu.

Slökkva
Ef þú reynir að slökkva eldinn vertu þá niður við gólfið þar sem reykurinn er minnstur. Reykurinn er hættuleg lofttegund.

Föt sem brenna
Slökkvið með vatni eða kæfið eldinn. Forðist fatnað úr eldfimum efnum.

Eldur í potti
Kæfið eldinn með því að leggja lokið yfir og slökkva á eldavélinni. Hellið aldrei vatni á heita feiti sem kviknað er í. Rafmagnsbruni
Rjúfið strauminn – t.d. með því að taka klóna eða öryggi úr sambandi.

Vertu viðbúinn því að eldur geti komið upp

Reykskynjarar hafa bjargað mannslífum

Svona átt þú að bregðast við brunaslysum

Við minniháttar bruna:

 • fjarlægið brunavaldinn – hefjið kælingu strax
 • kælið í 15 – 20 mínútur þar til sviðinn er horfinn. Æskilegt er að hitastig vatnsins sé 15°C – 20
 • kælið undir rennandi vatni eða hafið líkamshlutann sem brenndur er ofan í íláti og bætið köldu vatni út í við og við
 • skoðið vandlega hversu útbreiddur bruninn er og kælið allt brennda svæðið.
 • fyrstu 10 mínúturnar í kælingu eru mikilvægastar
 • ef einungis er um að ræða 1. stigs bruna á litlu svæði (roði) er ekki ástæða til að leita læknis.
 • ef um er að ræða 2. stigs bruna, blöðrur á húð, er best að fara með barnið á slysamóttöku/heilsugæslustöð. Brunasár eru vandmeðfarin og sýkingarhætta fyrir hendi, því er æskilegt að láta fagfólk búa um sárin
 • rafmagnsbrunar geta verið dýpri en þeir líta út fyrir að vera. Ávallt ætti að leita til slysamóttöku/heilsugæslustöðvar vegna bruna af völdum rafmagns
 • alltaf er nauðsynlegt að leita til læknis ef barn brennist á eftirfarandi stöðum:
  í andliti
  á hálsi
  á liðamótum
  á eða við kynfæri
  eða ef brunasár nær allan hringinn á útlim.
 • Við stærri bruna er ráðlegt að hringja á sjúkrabíl. Neyðarnúmer er 112. Til þess að róa barnið er gott að það hafi snuð, pela eða einhvern annan hlut sem það heldur upp á.

Stærri brunar

 • Hafi barnið brennst á stórum hluta líkamans er mikilvægt að stöðva brunann með kælingu og færa það varlega úr fötunum.
 • Komið barninu vel fyrir, leggið hrein blaut stykki, handklæði yfir brunasárin. Gott er að væta stykkin af og til svo þau haldist blaut.
 • Mikilvægt er að barninu kólni ekki, þess vegna þarf að halda hita á líkamanum þar sem hann er ekki brenndur. Forðist að opna glugga.
 • Flytja þarf barnið því næst á slysamóttöku eða heilsugæslustöð.
 • Munið að halda kælingu áfram á leiðinni til læknis. Ef leiðin er löng þarf að gæta þess að barninu verði ekki of kalt.

Komið í veg fyrir brunaslys

Hitaveituvatn

Stillið hitastig vatnsins með stillanlegum blöndunartækjum. 50°C er nægilegur hiti á vatni til heimilisnota.

Drekktu ekki heita drykki með barnið í fanginu. Forðist að nota borðdúka sem barn getur togað í.

Hreingerningarfötur með sjóðandi vatni geta verið hættulegar.

Kannaðu alltaf hitastig baðvatnsins áður en þú lætur barnið ofan í vatnið.

 

Í eldhúsinuÍ örbylgjuofninum hitnar matur og drykkur á mjög skömmum tíma. Á einni mínútu getur drykkur hitnað í 70°C. Munið að snúa pottsköftum þannig að barnið nái ekki í þau.
Barn getur brennst illa á heitu straujárni þó það hafi verið tekið úr sambandi. Munið að láta snúruna ekki hanga niður á gólf.
Kertaljós og eldurEldur er spennandi í augum barna – munið að láta ekki eldspýtur og kveikjara liggja á glámbekk. Skiljið ekki logandi kerti eftir í barnaherbergjum.

Bálkestir og grill

Látið börn aldrei vera ein við bálkesti. Grill eru hættuleg börnum því þau geta auðveldlega oltið, einnig eru þau sjóðandi heit viðkomu. Munið að hitinn er í lengi í kolunum. Ef grillað er í holu munið að byrgja hana eftir notkun því hætta er á að stigið sé o fan í holuna.

Útbúnaður sem eykur öryggi barnaNotið öryggisgrind á eldavélina. Setjið öryggishlíf fyrir gler á gömlum bakarofnum.

Hlífar fyrir rafmagnsofna draga úr brunahættu.

Öryggisbúnaður í innstungur dregur úr hættu á rafmagnsbruna.

Hvernig er frágangur á rafmagnssnúrum á þínu heimili?

Lekastraumsrofi getur komið í veg fyrir rafmagnsslys.Er lekastraumsrofinn á þínu heimili í lagi?

Af hverju eru brunasár á barni alvarlegri en á fullorðnum?

Af hverju á ekki að sprengja brunablöðrur?

Hver er hættan við að nota ískalt vatn við kælingu á brunasárum.

Í litlum bæklingi sem þessum er ekki hægt að svara öllum spurningum um bruna.Rauði kross Íslands heldur námskeið í skyndihjálp. Einnig er í boði námskeið um slys á börnum – forvarnir – skyndihjálp, þar sem farið er yfir algeng slys og hvernig á að bregðast við þeim.

Hafið samband við næstu deild Rauða kross Íslands og fáðu upplýsingar um hvenær næsta námskeið verður haldið.

Birt með góðfúslegu leyfi Rauða krossins, vefur þeirra er redcross.is

brunaslysum íslenskra barna 1982-1995:Ragnheiður Elísdóttir, læknir
Pétur Lúðvígsson, barnalæknir
Herdís Storgaard, hjúkrunarfræðingur
Ásgeir Haraldsson, forstöðulæknir Barnaspítala Hringsins
Ólafur Einarsson, lýtalæknir
Sigurður Þorgrímsson, barnalæknir
Þakkir fyrir yfirlestur og ábendingar
Lovísa Baldursdóttir, hjúkrunarfræðingur
Guðmundur M. Stefánsson, lýtalæknir
Hólmfríður Gísladóttir, Rauða krossi Íslands
Ingibjörg Ásgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur

Útgefið af sænska Rauða krossinum /Barnmiljöradet Bohuslandstinget /Niljö- och Halsoskydd, Göteborg

Útgefandi á Íslandi: Rauði kross Íslands

Texti: Marie_Louise Lövberg Och Britt-Marie Scander Þýtt og staðfært: Herdís Storgaard, Svanhildur Þengilsdóttir.

Myndir og útlit: Eva Zacke-Modin