Heimaleikfimi er heilsubót

„Heimaleikfimi er heilsubót, herðir mann upp og gerir mann stífan. Hvort sem að undir er gras eða grjót, gólfteppi, eldhúsborð, stóll eða dívan.“

Það er margt til í þessum orðum, leikfimi er heilsubót hvort sem hún er framkvæmd heima, úti eða á líkamsræktarstöð.

Þjálfun má skipta í eftirfarandi flokka:

Styrktarþjálfun

Styrktarþjálfun styrkir vöðva. Æfingarnar eru gerðar frekar hægt og endurteknar 10-15 sinnum. Þá á vöðvinn, sem verið er að styrkja, að vera orðinn þægilega þreyttur. Ekki á að finna fyrir mæði. Áhrif æfinganna má auka með því að nota viðbótarþunga, t.d. líkamsþunga eða þyngdarkraftinn.

Þolþjálfun

Þolþjálfun eykur úthald vöðva og hjarta. Til að auka úthald vöðva eru æfingarnar gerðar frekar hratt og endurteknar oft. Áhrif æfinganna má auka með því að gera þær lengur eða hraðar. Til að fá þjálfunaráhrif á hjarta er best að ganga, hjóla, hlaupa eða synda. Eðlilegt er að púls hækki og fundið sé fyrir léttri mæði og þreytu. Púlsinn má ekki hækka of mikið eða mæði verða of mikil því þá verða þjálfunaráhrifin minni. Hve hátt púlsinn má fara er mjög einstaklingsbundið og m.a. háð aldri og þeim lyfjum sem viðkomandi tekur.

Þrekþjálfun

Hægt er að fá bæði styrktar- og þolþjálfun úr sömu æfingunni eftir því hvernig hún er framkvæmd. Þunginn er hafður minni en við styrktarþjálfun en hraðinn heldur meiri og endurtekningarnar fleiri.

Vöðvateygjur

Vöðvateygjur eru gerðar þannig að vöðvi(ar) er settur í lengstu stöðu og haldið þar í a.m.k. 30 sekúndur.

Hreyfing til heilsubótar

Því miður komast ekki allir í leikfimi á líkamsræktarstöð eða hafa ekki efni á því. Þeir þurfa þó ekki að örvænta því hægt er að gera daglega lífið að heilsubót hvar sem er og hvenær sem er án allra tækja eða tóla.

Með því að leggja bílnum hæfilega langt frá áfangastað fæst auka gönguferð. Veldu að ganga stiga í stað þess að taka lyftu og fáðu þolþjálfun fyrir hjarta og lærvöðva. Ekki hlamma þér niður í stól eða styðja þig þegar þú stendur upp og fáðu styrktarþjálfun fyrir lærvöðva. Greiddu hárið svolítið lengur í hvert sinn og handleggir þjálfast. Svona má lengi telja.

Heimaæfingar

Það er líka hægt að gera einfaldar æfingar heima til að styrkja líkamann. Það eru fjölmargar aðferðir sem hægt er að nýta sér við heimaleikfimina. Hvort heldur fólk kemur sér fyrir með boxpúða í kjallaranum eða bílskúrnum. Tekur jógatímann heima með mynddiski. Gengur á staðnum með útvarpsleikfiminni. Eða bara dansar að lífs og sálarkröftum um alla íbúð og syngur með. Síðan eru líka þeir sem nota tímann og hlaupa á bretti eða hjóla á staðföstum fák á meðan horft er á eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu.

Lokaorð

Þetta eru bara nokkur dæmi um hvernig hægt er á einfaldan hátt að þjálfa sig heima. Allt þetta er  hugsað sem heilsubót og þess vegna þarf að fara varlega, huga að verkjum sem geta komið fram og miða endurtekningar og álag við það. Vonandi nýtist þetta sem flestum.

Góð heilsa er gulls ígildi!