Heimafæðing

Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að konur óski eftir að fæða heima. Heimafæðingar eru reyndar ekkert nýmæli því ekki eru nema um 40 ár síðan sjúkrahúsfæðingar urðu algengari en heimafæðingar. Þótt heimafæðingum hafi fækkað mjög milli 1970 og 1990 voru alltaf einhverjar konur sem kusu þennan fæðingarmáta. Með aukinni menntun og sjálfsþekkingu kvenna hefur þeim vaxið ásmegin og nú eru, sem fyrr segir, æ fleiri konur sem kjósa að fyrsti áfangastaður barnsins út í lífið sé á eigin heimili.

Geta allar konur fætt heima?

Heimafæðing er ekki valmöguleiki fyrir allar konur. Margar konur eiga við sjúkdóma og erfiðleika að stríða sem ekki er mögulegt að meðhöndla í heimafæðingu. Konum með t.d. meðgöngueitrun, sykursýki, sýkingar, ótímabæran legvatnsleka eða undirliggjandi fötlun eða sjúkdóma, er ráðið frá að fæða heima. Grundvöllur þess að kona fæði heima er að hún sé heilbrigð og að meðgangan hafi gengið áfallalaust fyrir sig, barnið sé í höfuðstöðu og meðgöngulengd sé 37 – 42 vikur. Ekki er talið æskilegt að fæða tvíbura eða barn í sitjandastöðu heima og konum sem áður hafa farið í keisaraskurð er einnig ráðið frá því.

Kostir heimafæðingar

Helsti kosturinn er að konan er á heimavelli og stjórnar sjálf sínu umhverfi, hverjir eru viðstaddir og hvað er gert í fæðingunni. Hún þarf ekki að hlíta stofnanareglum eða vera undir eftirliti ókunnugs fólks í fæðingunni og hættan á inngripum er minni ef konan er heima hjá sér. Konan þarf heldur ekki að yfirgefa heimilið í miðri fæðingu, því hún fær ljósmóðurina til sín og því fylgir mun minni truflun. Ekki eru notuð nein lyf í fæðingum í heimahúsum og því er konan með fulla meðvitund og barnið ekki sljótt af deyfilyfjum við fæðingu. Barnið þarf ekki að koma í snertingu við annað fólk en foreldra sína og ljósmóðurina sem tekur á móti því og því ætti það ekki að fá í sig utanaðkomandi bakteríur.

Ókostir við heimafæðingu

Helsti ókosturinn er að ekki er hægt að fá allt það sem stendur til boða á sjúkrahúsi, t.d. verkjadeyfingar og ekki er hægt að grípa inn í fæðinguna með sogklukku eða keisaraskurði eins snögglega og á sjúkrahúsi. Það ástand getur skapast í fæðingunni að flytja þurfi konuna eða barnið á sjúkrahús. Það getur t.d. farið að blæða óhóflega (getur bent til fylgjuloss), legvatnið orðið grænt (bendir til fósturstreitu), hjartsláttur barnsins hægt á sér (bendir til fósturstreitu) eða fæðingin dregist á langinn þannig að ljósmóðirin telur ráðlegra fyrir konuna að fá deyfingu og/eða hríðarörvandi lyf.

Flest, ef ekki öll, vandamál sem upp koma í fæðingu gera þó nægilegt boð á undan sér til að hægt sé að flytja konuna á sjúkrahús í tæka tíð.

Hver tekur á móti barninu ef ég fæði heima?

Á Íslandi hefur tíðkast að ljósmæður sinna konum í öllu barneignarferlinu – frá getnaði fram yfir sængurlegu. Starf þeirra á sér lagalega stoð og þær geta starfað sjálfstætt utan stofnana. Ljósmæður hafa frá upphafi sögunnar aðstoðað konur í fæðingu, bæði heima og á sjúkrastofnunum. Um allt land eru starfandi ljósmæður en það er þó misjafnt hvort þær sinna heimafæðingum. Kannaðu málið í þínu byggðarlagi.

Hvernig ber ég mig að ef ég vil fæða heima?

Ræddu fyrst við þá ljósmóður sem annast þig á meðgöngunni. Ef til vill sinnir hún líka heimafæðingum. Ef ekki, þá getur hún komið þér í samband við ljósmóður sem gerir það eða bent þér á hvernig þú getir nálgast hana. Þú getur líka talað við Ljósmæðrafélag Íslands eða skoðað lista ljósmæðra á heimasíðu Félags áhugafólks um heimafæðingar.

Hvernig haga ég undirbúningi fyrir fæðinguna?

Byrjaðu á því að semja við ljósmóður um að aðstoða þig í fæðingunni. Hún segir þér hvað þú þarft að eiga og hvernig aðstæður þurfa að vera heimafyrir. Ljósmóðirin kemur tvisvar sinnum í heimsókn þegar líður nær fæðingu og ræðir við þig um tilhögun fæðingarinnar og þá getið þið farið saman yfir óskalistann þinn. Þú þarft líka að skrifa undir að þú sért reiðubúin að vera flutt á sjúkrahús ef ljósmóðirin telur þér eða barninu betur borgið þar.

Ræddu við ættingja og vini um hvernig heimsóknum skuli hagað eftir fæðinguna. Þú þarft góða hvíld fyrstu vikuna og nýja fjölskyldan þarf næði til að tengjast og kynnast hvert öðr u. Reynið því að halda gestagangi í lágmarki – afar og ömmur og e.t.v. systkini ykkar. Aðrir geta beðið þar til jafnvægi er komið á fjölskylduna.

Hvað þarf ég sjálf að útvega mér fyrir heimafæðingu?

Þú þarft að eiga síma til að geta hringt í ljósmóðurina og e.t.v. hjálparmanneskjur til aðstoðar. Það er gott að eiga dálítið stóran vax- eða plastdúk (byggingaplast), slatta af stórum plastpokum, nóg af handklæðum, púðum og sængurfötum og svo er gott að eiga nokkrar rakadrægar undirbreiðslur sem fást í apótekinu. Hitapoki er góður kostur til að hita upp vöggu og fatnað barnsins og handklæðið sem notað er til að þurrka því þegar það fæðist. Hitapokann má líka nota til að lina bakverki. Ljósmóðirin þarf gott ljós þegar hún skoðar fylgju og spöng eftir fæðingu, svo það er gott að eiga vinnulampa eða góðan skrifborðslampa einhversstaðar nálægt. Það getur verið nauðsynlegt að teygja lampann langt frá næstu innstungu, svo framlengingarsnúru er gott að eiga. Strauborð eða létt sófaborð er einnig gott til að geyma á handklæði, undirbreiðslur og áhöld ýmiskonar.

Hvernig undirbý ég heimilið fyrir fæðinguna?

Skrifaðu niður öll helstu símanúmer sem þú gætir þurft á að halda, ljósmóðir, aðstoðarfólk og sjúkrabíll og hafðu blaðið nálægt símanum. Hafðu einnig mæðraskrána á aðgengilegum stað.

Skoðaðu hvaða herbergi þú vilt helst fæða í. Þú getur verið á ferðinni, gangandi eða skríðandi um, á meðan útvíkkunin varir, en yfirleitt verður eitt herbergi fyrir valinu sem fæðingarstaður. Þar skaltu hafa allt sem til þarf og passa að þar sé góður hiti, 22 – 25 °C og ekki gegnumtrekkur.

Þú þarft heldur ekki endilega að fæða í rúmi. Mörgum konum gefst vel að standa eða vera á fjórum fótum á gólfinu, vera í baðinu (eða fæðingarlaug sem sem sumar ljósmæður koma með) eða liggja á hliðinni í stofusófanum. Notaðu hugmyndaflugið og sjáðu fyrir þér hvernig þú vildir helst fæða.

Hafðu fatnað fyrir barnið, sem og vögguna, vöggusæng og sængurfatnað, tilbúið. Fáðu þér einnig stór dömubindi því það blæðir kröftuglega fyrstu dagana eftir fæðinguna. Það er líka gott að eiga nátttreyjur sem eru hnepptar að framan til að auðvelt sé að gefa brjóst.

Reiknaðu einnig með að eiga dálítið af fljótlegum mat ,eins og brauði, áleggi, ávöxtum, jógúrt, ávaxtasafa, te og kaffi, til að fóðra þig og aðstoðarmanneskjurnar í fæðingunni. Svo er ekki verra að eiga t.d. pottrétt eða eitthvað einfalt og fljótlegt í frystinum til að hita upp og borða þegar fæðingin er afstaðin – þá eru allir svangir.

Ef önnur börn búa á heimilinu þarf að taka ákvörðun um hvort þau eiga að vera heima eða í pössun og þá hjá hverjum. Ef þau eru með í fæðingunni er mikilvægt að hafa einhverja manneskju með sem getur sinnt þeim og útskýrt, ef með þarf, hvað er að gerast.

Tíminn eftir fæðinguna

Ljósmóðirin er hjá þér í a.m.k. 2 klukkutíma eftir fæðinguna til að fylgjast með að legið dragi sig vel saman, ekki blæði óhóflega, barnið sé sprækt og taki vel brjóst og jafnvægi ríki hjá fjölskyldunni. Næstu daga heimsækir ljósmóðirin ykkur tvisvar á dag til að fylgjast með gangi mála og ráðleggur og styður ykkur við umönnun barnsins og aðlögun að foreldrahlutverkinu. Ljósmóðirin kemur til ykkar daglega í heila viku.

Það er gott ráð að móðirin haldi sig sem mest við rúmið fyrstu dagana eftir fæðinguna og hafi barnið hjá sér. Gefðu barninu brjóst í hvert sinn sem það leitar eftir því. Brjóstagjöfin fer yfirleitt betur af stað og kemst fyrr í jafnvægi ef barnið tekur brjóstið oft. Þá er líka minni hætta á stálma, barnið er fljótara að læra að sjúga rétt og því minni hætta á sárum geirvörtum, stíflum og brjóstasýkingum. Sjá nánar á Doktor.is um brjóstagjöf.

Þótt flestar konur séu í sæluvímu og finnist þær ósigrandi hetjur eftir fæðinguna (sem þær og eru) kemur að því að mesti hátíðleikinn líður hjá og þær geta þá orðið þreyttar og viðkvæmar. Oft gerist þetta á 3. eða 4. degi. Nýorðnir feður fá ekki síður spennufall, en ekki endilega á sama tíma og móðirin. Mikill erill og stöðugur straumur gesta truflar ekki einungis brjóstagjöfina, heldur líka tengslamyndunina við barnið og eðlilegt tilfinningaflæði. Eldri börnin þurfa líka sína athygli og til að þau tengist litla systkininu fljótt og vel getur verið gott að lofa þeim að kúra með því í foreldrarúminu – öll fjölskyldan saman. Helgið því fyrstu daga barnsins hvert öðru og barninu, kúrið saman og ræðið um fæðinguna, væntingar og vonbrigði og framtíðaróskir og drauma.