Heilsuvernd – hvað er það?

Höfundar starfa við heilsu- og vinnuverndarráðgjöf hjá Sólarplexus ehf.

Heilsuvernd á vinnustað er forvarnarstarf sem miðar að því að koma í veg fyrir hvers kyns álagseinkenni vegna rangrar líkamsbeitingar við vinnu.

Forvarnarstarf er þríþætt. Fyrsta stig er að koma í veg fyrir álagseinkenni, annað stig er að koma í veg fyrir að áunnin álagseinkenni ágerist og þriðja stig er að hindra að álagseinkenni leiði til heilsutjóns og jafnvel örorku. Unnið er að fyrsta og annars stigs forvörnum innan vinnustaðarins en þriðja stigs forvarnir fara að mestu fram innan heilbrigðiskerfisins, m.a. í formi meðferðar.

Andlegir og líkamlegir þættir

Í vinnuumhverfinu er að mörgu að huga, bæði andlegum og líkamlegum þáttum. Andlegir þættir, t.d. samskipti, álag og streita, geta í sumum tilfellum skipt meira máli en líkamlegir þættir eins og vinnuaðstaða, lýsing og loftræsting. Í öðrum tilfellum er vinnuandinn til fyrirmyndar en augljóst að vinnuaðstaðan veldur líkamlegri spennu og vanlíðan. Þannig getur oft reynst erfitt að greina hvaðan gott kemur og hvað það er sem veldur spennu- og álagseinkennum.

Þar að auki er það þekkt að andleg líðan hefur áhrif á líkamlega líðan og öfugt. Álagseinkenni valda viðkomandi oft hugarangri og vangaveltum um það hvort hann geti áfram sinnt starfi sínu. Þau valda líka oft erfiðleikum utan vinnutíma, t.d. við framkvæmd heimilisstarfa eða í tómstundum.

Hlutverk ráðgjafa

Til að tryggja ákjósanlegt starfsumhverfi gerir ráðgjafi í heilsu- og vinnuvernd úttekt á vinnuaðstöðu, skráir niðurstöður og skilar skýrslu í lok úttektar. Skýrslan er síðan notuð sem verkfæri í stefnumótun fyrirtækisins hvað varðar heilsu- og vinnuvernd.

Þetta gerir atvinnurekendum og/eða yfirmönnum kleift að fylgjast með áhættuþáttum í vinnuumhverfinu og auðveldar þeim að grípa til aðgerða.

Til að fá heildarmynd af aðstæðum á vinnustað er gerð úttekt hjá hverjum starfsmanni fyrir sig. Út frá henni eru áhrif vinnuaðstöðu á andlega og líkamlega vellíðan metin. Ráðgjafi heldur utan um niðurstöður og kortleggur þörf á úrbótum á viðkomandi vinnustað og raðar úrlausnum í forgangsröð. Sami aðili sér um að kalla til aðra fagaðila ef þörf er á. Ráðgjafinn er í nánu samstarfi við stjórnendur og starfsmenn, bæði hvað varðar breytingar á vinnuumhverfi og veitir jafnt og þétt upplýsingar og fræðslu um andlega og líkamlega vellíðan á vinnustað.

Uppbygging heilsuverndar

Heilsuvernd miðar að því að viðhalda andlegri og líkamlegri heilsu og vellíðan einstaklinga á vinnustaðnum. Hver starfsmaður ber þó sjálfur ábyrgð á eigin heilsu og hvers kyns hvatning til heilsueflingar af hálfu fyrirtækja og stofnana, s.s. námskeið, fyrirlestrar og íþróttastyrkur, er mikilvægur hluti af heilsuverndarstarfinu.

Til þess að árangur náist í uppbyggingu á heilsuvernd innan vinnustaðarins er nauðsynlegt að stjórnendur og starfsmenn séu samhuga. Úttekt á vinnuumhverfinu og mat á því hvernig núverandi heilsuverndarstarfi er háttað í fyrirtækinu er grundvöllur þess að sett séu raunhæf markmið við uppbyggingu þess.

Hvernig er hægt að ná þeim markmiðum sem sett eru? Með reglulegri eftirfylgni ráðgjafa er hægt að meta og mæla árangurinn af heilsuverndarstarfinu. Þar er farið yfir hvað hefur verið gert og hvert næsta skref framfara er. Hafa ber í huga að læknisskoðanir trúnaðarlæknis, vigtun eða fitumælingar, einar og sér og án markmiða, eru aðeins hluti af forvarnarstarfi. Heilsufarsskoðanir geta verið hluti af heilsuvernd og eiga að taka mið af áhættuþáttum í umhverfinu. Fræðsla, ráðgjöf og námskeið fyrir starfsmenn og stjórnendur skapa forsendur fyrir ábyrgð á eigin heilsu.

Ávinningur atvinnurekenda er fólginn í auknum afköstum starfsmanna og fækkun veikindadaga og fjarveru vegna meðferðar í vinnutíma. Með aukinni almennri vellíðan á vinnustað er ávinningurinn fólginn í tvíefldu starfsliði sem sér hag sinn í því að skapa sér og fyrirtækinu fleiri sóknarfæri.