Heilsurækt og vinnuvernd

Dr. Hólmfríður K. Gunnarsdóttir

Kyrrsetur – hljóða hættan

 

Á síðustu öld kom út bókin Heilsurækt og mannamein sem var víðlesin enda á þeim tíma ekki mikið um tiltæka fræðslu af þessu tagi fyrir almenning. Nú er öldin önnur í bókstaflegum skilningi og fræðslan er alls staðar, í sjónvarpi, blöðum, ræðu og riti og ekki hvað síst á netinu. Flestir, ef ekki allir, vita að það er óhollt að reykja, að fólk ætti að neyta áfengis í hófi, hreyfa sig og borða holla fæðu. Minna er talað um hvernig eigi að rækta hugsunina og andlega líðan, þótt allir ættu að vita að líkami og sál búa í slíku nábýli að þau hafa gagnverkandi áhrif hvort á annað.

Vinnuvernd er í hugum margra eitthvað allt annað en heilsuvernd. Þegar fólk er spurt hvað því detti í hug þegar talað er um vinnuvernd nefna margir Vinnueftirlitið sem fylgist með því hvort viðeigandi hlífar séu á vélum og hávaði og efni undir settum mörkum. Ef spurningunni er breytt og spurt um heilsueflingu á vinnustað nefna margir líkamsbeitingu í vinnu og tíma hjá líkamsræktarstöðvum.

Allt eru þetta rétt svör en þó aðeins hluti af veruleikanum. Vinnuvernd fer nefnilega fram á vinnustöðunum sjálfum og hvergi annars staðar. Opinberar stofnanir, eftirlit og ráðgjafar geta aldrei leikið nema lítið hlutverk til að ná settu marki í vinnuvernd en það er að fólk bíði ekki tjón á heilsu sinni vegna vinnunnar.

Oft má heyra að fólk er vonsvikið yfir því að ekkert hafi verið gert til úrbóta þótt þörfin sé brýn og starfsmenn Vinnueftirlitsins hafi bent á hvað betur mætti fara. Vonbrigðin byggjast á þeim misskilningi að Vinnueftirlitið hrindi umbótum í framkvæmd á vinnustöðum. Það er ekki raunin. Atvinnurekandinn ber alla ábyrgð á að hafa vinnustaðinn heilsusamlegan og það er hans að taka til hendinni þegar þurfa þykir.

Vinnuvernd er heilsurækt og á alls staðar rétt á sér þar sem vinna fer fram. Henni er ætlað að koma í veg fyrir heilsutjón. Það er ekki bara í stóriðjunni og á svokölluðum hættulegum vinnustöðum sem hennar er þörf.

En hvaða heilsufarshættur leynast á góðu vinnustöðunum t.d. á skrifstofum þar sem er hlýtt og bjart, allir virðast í sparifötunum, hávaði er takmarkaður og efnamengun lítil? Því er fljótsvarað. Á þessum vinnustöðum leynast nefnilega ýmsir vágestir og einn stórhættulegur þótt hann sé ekki sýnilegur í fljótu bragði. Hann lætur lítið yfir sér en vinnur verk sitt í hljóði. Þessi viðsjárverði vágestur heitir kyrrseta. Hættum vegna kyrrsetunnar verður ekki bægt frá með því að fá einhvern til stilla stólinn eins og oft er talin viðunandi lausn. (Reyndar er best að hver og einn eigi kost á að finna hvernig honum/henni finnst þægilegast að sitja eða standa en gott er að skipta sem oftast um stellingu.) Birtan, hitinn og hávaðinn – allt skiptir þetta máli – en best er að einstaklingarnir geti sem mest haft þetta eftir eigin höfði. Ef ekki eru aðstæður til þess er gagnlegt að fá faglega ráðgjöf. En það skiptir líka miklu máli í hverju vinnan er fólgin, hvernig hún er skipulögð, hvernig starfsandinn er, samstaðan á vinnustaðnum og möguleikar til að nýta hæfileika sína. Vinnuálagið má hvorki vera of lítið né of mikið.

Allt þetta þekkir fólk af eigin raun og annarra og mikið er rætt og ritað um ýmiss konar vandamál í vinnunni en kyrrsetan hefur fengið að vera að mestu óáreitt. Afleiðingarnar koma hægt og hljótt. Við verðum þeirra oft ekki vör fyrr en í óefni er komið. Þjóðin er að þyngjast, offitunni fylgja sjúkdómar og vanlíðan. Matarræðið hefur breyst, framboð á ýmiss konar matvöru hefur aukist og á það hefur verið bent að skammtarnir verða stærri.

Full vinnuvika er 40 klukkustundir en margir sitja lengur við skrifborðið og þegar heim er komið er sest við matarborðið og loks við sjónvarpið.

Fæstir fara heim í hádeginu og borða léttan, hollan hádegisverð heldur þurfa þeir að taka með sér nesti, sem oft verður fábreytt þegar fram í sækir, leita á náðir skyndibitastaða eða borða í mötuneytum, þar sem maturinn er ekki miðaður við kyrrsetufólk. Áður en sest er við sjónvarpið – eða fyrir framan það – er borðuð þyngsta máltíð dagsins.

Þegar við þetta bætist streita af ýmsum toga er ekki von á góðu.

Vinnuvernd miðar að því að koma í veg fyrir heilsutjón vegna vinnunnar. Hún fjallar því ekki bara um hávaða, vélar, efnamengun og fallhættu, heldur ekki síður um hinar hljóðu hættur á vinnustöðunum eins og sálfélagslega þætti og kyrrsetu.

Á rannsókna- og heilbrigðisdeild Vinnueftirlitsins hafa verið gerðar kannanir á heilsufari, líðan og vinnuumhverfi nokkurra starfshópa. Niðurstöðurnar sýna sterk tengsl líðanar og heilsufars annars vegar og vinnuaðstæðna og sálfélagslegra þátta hins vegar.

Hver einasti atvinnurekandi og starfsmaður þurfa að mörgu að hyggja. Það er ekki nóg að fara í líkamsrækt og út að ganga eða hjóla – en það hjálpar mikið. Það er ekki nóg að huga að matarræðinu – en það hjálpar mikið. Það er ekki nóg að draga úr vinnutengdri streitu og vanlíðan – en það hjálpar mikið. Allt skapar þetta eina heild og þarf að haldast í hendur.

En er þá svona flókið að vera til og láta sér líða vel í vinn unni? Svarið er . Atvinnurekendur bera ábyrgð á vinnuaðstæðunum en hver og einn einstaklingur þarf að vanda sig við að lifa – að gera þetta líf, sem okkur er gefið, eins gott og við getum.

Það er þó engin ástæða að örvænta því að verkefnið er bæði heillandi og skemmtilegt.

 

Janúar 2003