Heilsuleysi barna vegna fátæktar

Það deyja árlega fimm milljónir barna yngri en 15 ára af völdum skaðvalda í nánasta umhverfi.

Fólk tekur lítið eftir svona tilkynningu. Það eru alltaf að berast fréttir af einhverjum hörmungum. Margt fer inn um annað eyrað og út um hitt, án verulegrar viðkomu í nokkurri heilastöð. En þetta samsvarar því að ein þota full af farþegum farist á 45 mínútna fresti.

Börn eru næmari fyrir óheilbrigðu umhverfi en fullorðnir. Skaðvaldarnir gera sér líka mannamun. Þeir leggjast helst á þá fátæku. Þá sem eru veikir fyrir vegna næringarskorts, skorts á hreinu drykkjarvatni og einföldustu hreinlætisaðstöðu og þekkingu. Það er hægt að koma í veg fyrir þessi dauðsföll. Það er vitað til hvaða aðgerða þarf að grípa, en það er ekki gert.

Tími örbirgðarsjúkdóma er liðinn á Íslandi. En umhverfið heldur áfram að taka sinn toll, þegar sjúkdómar eru annars vegar. Rannsóknir gerðar hér á landi sýna að börnum og unglingum frá heimilum sem búa við bág kjör hættir meira til að fá ýmsa nútímakvilla. Að einhverju leyti er lífsstíl um að kenna.

Sjálfsagt eru flestir þeirrar skoðunar hér á landi að allir eigi jafnan rétt á að búa við góða heilsu, að minnsta kosti meðan þeir eiga ekki sjálfir þátt í að spilla henni vísvitandi. Þetta á enn frekar við um börn. Þau fæðast inn í umhverfi og aðstæður, sem þau hafa engin tækifæri til að hafa áhrif á að neinu marki. Heilsuleysi meðal barna, sem tengist umhverfisþáttum, er því merki um ójöfnuð og óréttlæti, sem okkur ber að berjast gegn.

Stjórnvöld eiga að skapa fólki þau skilyrði að það geti sjálft haft sem mest áhrif á eigið líf og að heilbrigðasta leiðin sé sem greiðfærust, til dæmis með meiri skattlagningu á óholla vöru eða niðurgreiðslu á íþróttastarfsemi. Ekkert barn á að þurfa að búa við fátækt og skort hér á landi. Heilsuleysi barna sem rekja má til þess er óþolandi.

Í heilbrigðisáætlun fyrir Ísland til ársins 2010 segir að unnið verði að því að jafna mun á heilsufari barna sem tengist þjóðfélagsstöðu foreldra. Ekki er þess getið hvaða leið verði farin. En orð eru til alls fyrst og þess er vænst að ekki verði látið sitja við orðin tóm.

Matthías Halldórsson aðstoðarlandlæknir, tímabundið við störf hjá lýðheilsudeild ESB

Frá Landlæknisembættinu