Heilræði fyrir fólk á besta aldri

Tökum undir – verum með

Mikið væri þjóðfélagið og þar með menningarlíf þess fátækara ef félög og starfsemi þeirra væru ekki fjölþætt og virk. Sá sem búinn er lélegri líkamlegri, andlegri og félagslegri færni og hefur ekkert gert til þess að styrkja þessa þætti, er illa búinn undir nútíma lífshætti. Þessir þrír þættir sem ég nefndi eru taldir hornsteinar heilbrigði. Við þurfum að vera viðbúin svo fjarska mörgu, sjúkdómum, slysum á almannafæri, meiðslum á heimilum, verðum að vera viðbragðsskjót er við stjórnum ökutæki, hugljúf í viðmóti og hjálpsöm og örvandi til samskipta. Lengi má telja. Starfshæfni er undirstaða þessa alls. Hún fæst ekki einvörðungu fyrir þjálfun frá líkamsæfingum, útivist, daglegu sundi eða þátttöku í íþróttakeppni. Hin mörgu félög sem við eigum ná sem heild yfir stórt svið og með því að ná til þeirra eða vekja einstaklinginn til að gefa sig að þeim, þá hefur útgáfa þessa rits borgað sig og kall kunnáttufólks Slysavarnafélags Íslands bergmálað til vakningar.

Þorsteinn Einarsson, varaformaður félags áhugafólks um íþróttir aldraðra.

Frá félagi áhugafólks um íþróttir aldraðra

 

Við erum mörg félagar í ótöldum félögum sem vinna að áhugamálum samkvæmt jafnmörgum stefnuskrám. Verulegur fjöldi þeirra leggur sig fram af einlægni til þess að vinna tilgangi félagsins gagn. Fórna tíma, kröftum og jafnvel efnum.

Félag áhugafólks um íþróttir aldraðra hefur brátt starfað í tvo áratugi. Höfuðtilgangur þess er að stuðla að iðkun líkamsæfinga meðal aldraðra svo að þeir megi halda starfshæfni sem lengst og njóta gleði í leik og starfi. Efnt hefur verið til léttrar keppni í ratleik, holugolfi og boccia (ítalskur kúluleikur), íþróttaviku að Laugarvatni og íþróttadaga með leikfimi, sundi, leikjum og dansi. Margs má geta um jákvæð áhrif slíkrar hreyfingar á aldraða og að hún ekki einvörðungu hægir á hrörnum, heldur endurhæfir vefi sem orðið hafa fyrir skemmdum.

Hvatningarorð félagsins eru:

ALDREI OF SEINT!

Það þýðir að enginn er of gamall til að hefja líkamsæfingar. Félag okkar getur fært inn í þessa forvarnarstarfsemi aukna starfshæfni aldraðra, svo þeir geti öruggari brugðist við hættum hins daglega lífs.

Hver er aldraður?

Tvennt gerir þessa spurningu erfiða. Við eldumst misjafnlega og vitum að langlífi er að einhverju leyti ættgengt. Einnig skiptir lífsmátinn miklu og því má oft sjá sláandi mun á útliti jafngamalla einstaklinga. Lífsmáti okkar ræður að miklu leyti því hvort við fáum ýmsa sjúkdóma og einnig gerir hann okkur misjafnlega útsett fyrir áföllum svo sem slysum.

Slysavarnir aldraðra
Slysavörnum aldraðra má skipta í tvo meginþætti, forvarnir gegn slysum og forvarnir gegn afleiðingum slysa. Fyrri þátturinn fjallar um það hvernig við komum í veg fyrir að verða fyrir slysum, bæði á heimilinu og utan þess, en síðari þátturinn fjallar um það hvernig við getum dregið úr afleiðingum slysanna.

Aukum vöðvastyrk
Þegar aldurinn færist yfir er líklegt að jafnvægi verði ekki eins mikið og áður og viðbrögð verða seinni. Algengt er þá að menn dragi úr hreyfingu og hætti til dæmis að ganga úti nema nauðsyn krefji. Þetta hefur þær afleiðingar að vöðvastyrkurinn dofnar og það eykur hættuna á byltu. Helsta vörn okkar gegn byltum er að efla styrk vöðvanna, auk þess sem úthald verður betra, öryggi í hreyfingum eykst og okkur líður miklu betur.

Styrkjum beinin
Fjölbreytt mataræði og neysla D-vítamíns eru mikilvægir þættir í viðhaldi sterkra beina. Beinþynning er orsök þess að öldruðum hættir til að beinbrotna við fall. Nú orðið vitum við svo mikið um það hvernig koma má í veg fyrir alvarlega beinþynningu að við ættum með sameiginlegu átaki að geta dregið stórlega úr brotum eldra fólks á næstu áratugum.

Þetta gerum við með þrennu móti: hreyfingu, kalkneyslu og að reykja ekki.

Jón Snædal, læknir.

Hreyfum okkur reglulega

 

Þegar hefur verið talað um þýðingu reglubundinnar hreyfingar til að styrkja vöðva og bein. En þar leiðir eitt af öðru, andlega og líkamleg vellíðan stóreykst, hjarta- og æðakerfið eflist, svo ekki sé minnst á ónæmiskerfið.

Öflugt ónæmiskerfi er forsenda þess að við getum varist algengum umgangspestum og sjúkdómum.

Það merkilega er að ekki þarf miklar æfingar til þess að ná góðum árangri. Létt leikfimi eða ganga í 20-30 mínútur þrisvar í viku nægir öllu venjulegu fólki. Það hefur meira að segja verið sýnt fram á að fólk á tíræðisaldri sem hreyfði sig orðið sáralítið, gat aukið vöðvastærð í lærum og fótleggjum um helming með léttri leikfimi þrisvar í viku. Þessi sannindi eru því í fullu gildi alla ævi.

Stigar og tröppur

< br />

Góð lýsing er mikilvæg í stigahúsum, rofar þurfa að vera uppi og niðri.

Mikilvægt er að hafa handrið báðum megin í stigahúsum eða við tröppur inni á heimilinu.

Gott getur verið að setja límborða í áberandi lit á neðstu tröppu til að sjá betur hvar tröppur enda.

Þegar hálka er að vetrarlagi er gott að hafa fötu með sandi í við útidyrnar. Hægt er að dreifa sandi á undan sér til að komast óhindrað niður tröppurnar. Handrið á tröppum utandyra og góð lýsing eru mikilvæg.

Þegar teppi í stiga eru farin að slitna þarf að láta lagfæra þau.

Hálar tröppur er hægt að lagfæra með því að setja á þær hálkustrimla.

Tvískipt gleraugu geta verið varasöm þegar gengið er í tröppum og það tekur einhvern tíma að venjast því að nota þau.

Baðherbergið

Vegna gufumyndunar á baðherbergjum geta gólf orðið hál, gott er að nota stamar mottur á gólfið.

Hægt er að koma fyrir handföngum við baðkör sem auðveldar að komast óhindrað í og úr baðkarinu. Það sama má geta við sturtur.

Mikilvægt er að hafa hitastilli á blöndunartækjum í baðherbergjum til að hindra að vatnið verði skaðlega heitt.

Ljós og hiti

 

Það er algengara að fólk detti að vetrarlagi, líka innanhúss. Ástæður eru oft léleg lýsing og of mikill hiti sem getur leitt til sljóleika.

Með aldrinum þarf meiri birtu. Hægt er að nota sterkari perur og athuga að birtan sé jöfn í íbúðinni/húsinu.

25 ára – 25 W
40 ára – 40 W
60 ára – 60 W
75 ára – 75 W
Lekastraumsrofi er nauðsynlegur til að koma í veg fyrir alvarleg slys vegna rafmagns.

Hitateppi geta verið varasöm ef rafmagnssnúrur eru farnar að slitna og ekki er gott að sofa með slík teppi í sambandi.

Húsgögn og innréttingar

 

Æskilegt er að vera aldrei með lausar mottur eða laus teppi á gólfum. Best er að setja hálkunet undir til að tryggja stöðugleika.

Rafmagnssnúrur er best að hafa upp við veggi og forðast að þær liggi dreifðar um gólfið.

Ávallt skal þurrka bleytu af gólfum og eftir þvott er gott að bíða þess að þau þorni. Veljið bón sem ekki er hált.

Gott pláss og yfirsýn tryggir greiða leið um herbergið.

Til að auðvelt sé að nálgast símann þarf hann að vera miðsvæðis í íbúðinni/húsinu og þá er þráðlaus sími einnig góð lausn til að minnka hlaupin um íbúðina/húsið.

Í eldhúsinu er hægt að raða þannig í skápa að þeir hlutir sem eru í daglegri notkun séu neðstir og að auðvelt sé að nálgast þá án teljandi fyrirhafnar. Þá er mikilvægt að þurfa ekki að fara langt með heita hluti eins og kaffikönnu eða potta heldur hafa alltaf nauðsynleg áhöld við höndina.

Notum aðeins stöðugar og vandaðar tröppur þegar skipta þarf um perur í loftljósum, taka niður og setja upp gardínur eða þrífa glugga.

Við val á stólum og borðum skiptir rétt hæð miklu máli, því þannig er mun auðveldara að setjast eða standa á fætur.

Umferð – gangandi og akandi

 

Umferðarþungi hefur margfaldast og því er enn frekari ástæða til að gæta varúðar, bæði fyrir ökumenn sem og gangandi vegfarendur. Hjá ökumönnum er samspil sjónar og viðbragðs því miður ekki alltaf í takt við viljann og því æskilegt að láta kanna sjón með reglulegu millibili ásamt því að hefðbundin læknisskoðun er nauðsynleg.

Okkur öllum til ánægju hefur hjólanotkun aukist til muna á síðustu árum og er nú umferð reiðhjóla orðin töluverð.

Gleymum ekki hjálminum þegar við hjólum af stað, hann er besti vinur okkar ef við dettum. Þá er ástæða til að hvetja alla gangandi vegfarendur til að nota endurskinsmerki í skammdeginu.

Hálkuvarnir – mannbroddar

 

Mannbroddar með litlum göddum

Ef þunn ísing er á götum er best að nota mannbrodda með litlum göddum, þar sem grófari broddar ná ekki að ganga ofan í ísinn og geta valdið því að fólk verði óstöðugt og detti.

Mannbroddar með grófum göddum

Ef snjór eða þykkari ís er á götum er best að nota grófari brodda þannig að þeir grafi sig ofan í hálkuna. Ekki er æskilegt að nota þennan búnað í mikilli hálku, þar sem hætta er á falli ef þeir festast.
Þessar upplýsingar eru fengnar úr bæklingi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.