Heilbrigt umhverfi – heilbrigð börn

Börn dagsins í dag verða fullorðin fyrr en varir. Þau eiga skilið að erfa öruggan, réttlátan og heilbrigðan heim. Fá verkefni eru mikilvægari en að tryggja þeim öruggt umhverfi, nú og til framtíðar.

Kringumstæður barna um víða veröld eru afar ólíkar. Í fátækari heimshlutum stafar heilsu barna hætta m.a. af óhreinu drykkjarvatni, ófullnægjandi hreinlæti og smitsjúkdómum meðan börn hinna ríkari þjóða búa flest við góða heilbrigðisþjónustu þar sem ungbarnadauði heyrir til undantekninga og börn eru bólusett gegn algengustu barnasjúkdómum. Hér er því ólíku saman að jafna. Til þeirra þjóða teljumst við Íslendingar.

En hvert er þá umhverfi barna á Íslandi? Er allt í stakasta lagi á heimilum þeirra, í skólanum og í næsta umhverfi þeirra? Þótt Ísland skipi sér í fremstu röð þjóða varðandi umhverfi og aðbúnað barna eru atriði sem við þurfum að taka okkur á um að bæta. Lífsstíll barna og fullorðinna markar þar e.t.v. dýpstu sporin. Álag, langur vinnudagur, jafnt barna og fullorðinna, hreyfingarleysi, lítill svefn og matarræði eru þættir sem geta haft veruleg áhrif á heilsu barna.

Þá bíður fjöldi barna tjón á andlegri, ef ekki líkamlegri heilsu sinni, vegna félagslegra aðstæðna, vegna skilnaða, vegna ofbeldis á heimilum eða vegna eineltis í skólum, svo dæmi séu tekin.

Önnur ógn frá umhverfinu við heilbrigði íslenskra barna eru slysin. Á hverju ári hlýtur fjöldi barna alvarleg og stundum varanleg meiðsl í slysum og týna jafnvel lífi. Það er þekkt staðreynd að íslensk börn verða oftar fyrir slysum í umferðinni og á heimilum sínum en börn í nágrannalöndum okkar.

Leggjumst öll á eitt við að skapa börnum heilbrigt og öruggt umhverfi.

Jónína Margrét Guðnadóttir
Vilborg Ingólfsdóttir
Landlæknisembættinu

Frá Landlæknisembættinu

Maí 2003