Heilbrigt kynlíf

Nýleg grein á pressunni með tilvísun í lokaritgerð Hrefnu Hrundar Pétursdóttur og Hlínar Magnúsdóttur hlýtur að vekja mann til umhugsunar. Við höfum fengið staðfestingu á því sem okkur hefur lengi grunað, þ.e.a.s.  að íslenskir unglingar byrji tiltölulega snemma að stunda kynlíf í samanburði við önnur lönd, eða í kringum 15 ára aldur. Þá er það áhyggjuefni sem kemur fram að kostnaður við kaup á getnaðarvörn eins og smokknum hindri unglingana í því að nota slíkar sjálfsagðar varnir. Það er ekkert launungarmál að tíðni kynsjúkdóma er hæst  í aldurshópnum 15-25 ára og hefur lengi verið svo, alvarlegir sjúkdómar leynast þarna á meðal og geta haft veruleg áhrif á framtíð ungs fólks. Þar nægir að nefna mögulega ófrjósemi hjá konum af völdum klamydíusýkingar.

Þetta eru ekki nýjar fréttir en það sem kannski stingur mann mest er að samskipti milli foreldra og unglinga virðast ekki nægjanlega góð, upplýst umræða á heimilinu virðist vera undantekning  frekar en regla ef marka má ummæli. Í  því samfélagi sem við lifum í dag virðast enn þrífast verulegar ranghugmyndir þrátt fyrir gnótt upplýsingaflæðis á interneti og víðar, síðast en ekki síst  í internetvæddum símum ungmenna nú til dags. Það er því ekki hægt að bera við skorti á möguleikum til að fræðast. Vefsíður eins og Doktor.is  hafa þar leikið ákveðið hlutverk ásamt mörgum öðrum og markviss kynfræðsla fer fram í skólum og í gegnum sjálfboðavinnu læknanema, Ástráð, svo eitthvað sé nefnt.

Maður veltir fyrir sér í kjölfarið hvort  við höfum á einhvern hátt brugðist, er þetta ástand nýtt eða eingöngu sett skýrar fram í dag en áður? Ég hef ekki tölur um smit  af völdum kynsjúkdóma í þessum aldurshópi í löndunum í kringum okkur. Það var amk bent á að dreifing  smokka væri ókeypis sums staðar, kannski eru tölur þar betri en hér hvað varðar útbreiðslu kynsjúkdóma, vert er að skoða það.  Mér sem lækni finnst stundum að fræðslan og umræðan snúist fyrst og fremst að ótímabærri þungun og  að okkur beri að koma í veg fyrir slíkt. Ósjaldan kemur móðir með dóttur sína til að biðja um pilluna, en hún ver einstaklinginn nákvæmlega ekkert gegn kynsjúkdómi. Mögulegt er að hún ýti kannski frekar undir minni notkun smokka og þar með aukna smithættu. Hér er auðvitað fræðsla lykilatriði og hlýtur að stærstum hluta að falla á herðar foreldra. Nú hef ég ekki neinar tölur um notkun getnaðarvarnapillunnar hér í samanburði við lönd í kringum okkur en það væri fróðlegt að vita hvort við eigum líka met í þeirri notkun.

En hver er þá niðurstaðan? Að mínu viti er hún margþætt. Í fyrsta lagi þarf að bæta aðgengi að getnaðarvörnum eins og smokkum, skoða þarf kynfræðslu í skóla og endurmeta hana í samvinnu við nemendur og foreldra. Það ætti að skylda foreldri til að taka svipuð námskeið, enda ekkert sem segir til um hæfni foreldra til að miðla upplýsingum í raun, hvað þá heldur að þeirra eigin reynsla sé endilega til þess fallin að geta veitt leiðbeiningu. Þetta ætti því ekki að vera neitt feimnismál. Nýleg lög um bólusetningu barna við HPV veiru er stórt skref í kynheilbrigði og virðingarvert á niðurskurðartímum, en betur má ef duga skal. Við erum því líklega öll sammála að kynlíf er eitthvað stórkostlegt og ef vel tekst til eykur það sjálfstraust, vellíðan og almenna hamingju þeirra sem þess njóta. Því ætti að hvetja til þess en að sama skapi uppfræða um hætturnar.

„Heilbrigt“ kynlíf hlýtur að verða mottó okkar allra!