Heilbrigt hjarta ævilangt

Alþjóðlegur hjartadagur 30. september 2001:

Sunnudaginn 30. september verður haldinn í annað sinn víða um heim alþjóðlegur hjartadagur. Hann er haldinn í yfir 100 löndum. Það er Alþjóða hjartasambandið (World Heart Federation) með stuðningi frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og UNESCO sem hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda upp á hjartadaginn. Hjartavernd er aðildarfélag í Alþjóða hjartasambandinu.

Forvarnarstarf Hjartaverndar hefur skilað aukinni þekkingu á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma hérlendis og átt sinn þátt í að lækka tíðni þeirra ásamt miklum tækniframförum og bættri meðferð á þessu sviði. En betur má ef duga skal. Hjarta- og æðsjúkdómar eru enn helsta dánarorsök hérlendis sem og á Vesturlöndunum.

Tilgangur með Hjartadeginum er að auka þekkingu almennings á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma og gera hvert og eitt okkar meðvitað um hvað við getum sjálf gert til að draga úr hættunni á að fá þessa sjúkdóma. Hjartadagurinn var haldinn í fyrsta skipti árið 2000. Skilaboðin þá voru dagleg hreyfing í samtals 30 mínútur. Það gildir enn. Í ár eru skilaboð dagsins að fólk geri sér grein fyrir því að hvert og eitt okkar hugi að þeim áhættuþáttum sem við getum haft áhrif á.

Þema dagsins: Heilbrigt hjarta ævilangt („A heart for life”)
Heimasíða dagsins: www.worldheartday.com
Heimasíða Hjartaverndar: www.hjarta.is

Í tilefni Hjartadagsins hérlendis munu Landssamtök hjartasjúklinga, SÍBS, Hjartavernd, HL-stöðin í Reykjavík(Endurhæfingastöð hjarta- og lungnasjúklinga) og Félag hjartasjúklinga á Reykjavíkursvæðinu standa fyrir dagskrá í Mjóddinni í Breiðholtinu þennan dag. Dagskráin verður í samræmi við skilaboð dagsins þar sem fólki er bent á leiðir til að fara vel með sitt hjarta. Boðið verður upp á mælingar á helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Þannig verður boðið upp á blóðþrýstingsmælingu, blóðfitumælingu, líkamsþyngdarstuðull verður reiknaður út, fulltrúar frá Ráðgjöf í reykbindindi verða á staðnum og fulltrúar frá Rauða kross Íslands veita ráðgjöf í endurlífgun. Þá verður hin árlega Hjarta- og fjölskylduganga Landsamtaka hjartasjúklinga farin frá SVR í Mjódd kl.14 þennan dag. Hálftíma rösk ganga daglega er veruleg forvörn fyrir hjarta- og æðasjúkdómum.

Víða um land verður Hjarta- og fjölskyldugangan og verður einnig á sumum stöðum boðið upp á samskonar mælingar og í Mjóddinni.

„Topp-tíu listinn” fyrir heilbrigt hjarta:

Þitt framlag:

1. Reykleysi-BESTA SEM ÞÚ GERIR FYRIR HEILSUNA.

Ef þú reykir, hættu því. Við vitum að það er erfitt, en það er hægt. Á boðstólnum eru ýmiss námskeið í reykbindindi. Þá eru til lyf bæði nikótínlyf og nikótínlaus lyf til að hjálpa fólki að hætta að reykja. RÁÐGJÖF Í REYKBINDINDI er grænt númer s: 800 6030 þar sem sérþjálfaðir hjúkrunarfræðingar veita ráðgjöf alla virka daga milli klukkan 17-19. Þar er m.a. hægt að fá upplýsingar um námskeið í boði. Bent er á bækling Hjartaverndar: Reykingar, dauðans alvara (feb. 2000)

2. Hreyfðu þig daglega í samtals 30 mínútur- EÐA MEIRA

Þú þarft ekki að hlaupa maraþon til að vernda hjartað. Hreyfing í samtals 30 mínútur daglega gerir gæfumunin. Með því að hafa hreyfingu í huga allann daginn er þetta vel framkvæmanlegt. Því ekki að ganga upp stigana og sleppa lyftunni? Ganga út í búð og hvíla bílinn? Losa sig við fjarstýringuna á sjónvarpinu og standa upp úr sófanum? Margt smátt gerir eitt stórt. Finndu hreyfingu sem þú hefur gaman af og áður en þú veist af ertu orðinn háður/háð því að hreyfa þig daglega. Ekki má gleyma börnunum, hreyfum okkur saman! Það er bjarnargreiði að keyra þau allra sinna erinda.

3. Betri fæða-BÆTIR HEILSU

4. Haltu þig við kjörþyngd-LOSAÐU ÞIG VIÐ AUKAKÍLÓIN

Njóttu matarins. Haltu þig sem næst kjörþyngd. Umfram kíló valda auknu álagi á hjartað. Fjölbreytt fæði án óþarfa fitu og sykurs er það sem mælt er með. Borðaðu 5 skammta af ávöxtum og grænmeti daglega. Einn skammtur getur verið einn meðalstór ávöxtur, 75-100 g af grænmeti (þ.e. 1 dl af soðnu grænmeti eða 2 dl af salati) 1-2 kartöflur eða glas af hreinum ávaxtasafa. Bent er á bæklinga Hjartaverndar: Offita, taktu hana alvarlega (júni 2001) og 5 á dag/ hvatningarspjald (Útgefandi: Manneldisráð, Krabbameinsfélagið og Hjartavernd, 1996)

5. Forðastu streitu – SLAKAÐU Á

Brostu framan í heiminn eins oft og þú getur. Finndu leiðir sem henta þér til slökunar. Þannig gerir þú sál og líkama gott.

„Þitt framlag felst í því að huga að ofangreindum þáttum á hverjum degi. Það kostar smávegis fyrirhöfn til að byrja með en áður en þú veist af er það orðinn eðlilegur hluti af þínu daglega lífi.”

Einnig skaltu hafa í huga:

6. Hefur þú látið mæla blóðþrýstinginn þinn?

Láttu mæla blóðþrýstinginn og finndu þannig út hvort þú sért með of háan blóðþrýsting. Til eru árangursríkar leiðir til að lækka blóðþrýsting. Lyfjameðferðir og á fyrstu stigum hækkaðs blóðþrýstings dugar stundum að létta sig og breyta mataræði. Dragðu úr saltneyslu.

7. Útilokaðu sykursýki.

Mæling á fastandi blóðsykri gefur miklar upplýsingar. Vissir þú að sykursýki eykur hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum. Með því að láta mæla fastandi blóðsykur er möguleiki á að greina sykursýki á fyrstu stigum, ómeðhöndluð sykursýki getur gert skaða á hjarta- og æðakerfið.

8. Veistu hvað kólesterólið þitt mælist í blóði? Er ástæða til að lækka það?

Hækkað kólesteról getur leitt til hjarta- og æðajsúkdóma. Stundum dugar að breyta mataræði til að snúa þróuninni við.

Bent er á bækling Hjartaverndar: Kólesteról, Þekkir þú þitt kólesteról (sept 2000) Það gildir sama um kólesteról, blóðsykur og hækkaðan blóðþrýsting. Hægt er að vera með þessa þætti hækkaða án þess að gera sér grein fyrir því. Því er mikilvægt að láta mæla þá. Mælt er með að fólk láti athuga þessa þætti eftir að 40 ára aldri er náð og fyrr ef sterk ættarsaga er um kranæðasjúkdóma eða aðra þekkta áhættuþætti.

9. Pantaðu tíma í almenna læknisskoðun.

Flestir fara með bílinn sinn reglulega í skoðun. Hvort sem hann er bilaður eða ekki! Farðu í almenna læknisskoðun. Þú getir skipt um bíl og fengið þér nýrri árgerð ef sá gamli er farinn að gefa sig. En þú skiptir ekki um líkama. Gott eftirlit og viðhald afar brýnt til að halda góðri heilsu.

….síðast en ekki síst…….

10. Markmiðið er heilbrigt hjarta ævilangt.

Hugsaðu vel um hjartað og hvettu fjölskyldu þína og þá sem þér þykir vænt um til að gera slíkt hið sama. Því fyrr á lífsleiðinni sem þú byrjar að hlúa að hjarta þínu þeim mun betra. En það er aldrei of seint að byrja. Viltu hugsa vel um hjartað? „Topp tíu listinn” er einfaldur listi til að fara eftir til að hugsa vel um það. Bent skal þó á þá áhættuþætti sem við getum ekki breytt, eins og aldur, kyn og síðast en ekki síst erfðir. Því er enn mikilvægara að við einbeitum okkur að þeim þáttum sem við getum breytt. Það eru þessi smáu atriði í okkar daglega lífi sem skipta sköpum. Einbeittu þér að heilbrigðum lífstíl sem fellur inn í þitt daglega líf í stað þess að umbylta þínum daglegu venjum. Þannig er líklegra að þú takir upp lífstíl sem þú temur þér til frambúðar.