Heilbrigðis- og öryggisráðgjöf á vinnustað

Þróun tölvuvæðingar síðustu ára hefur leitt af sér einhæfara starfsumhverfi og benda rannsóknir til, að þetta sé einn af þeim þáttum er orsakar álagseinkenni/-sjúkdóma sem hrjáir æ fleiri Íslendinga. Á vinnustöðum þar sem hugað er að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna eru stjórnendur meðvitaðir um mikilvægi þess að innleiða heilsuverndarstarf innan vinnustaðarins.

Við heilbrigðisráðgjöf er lögð áhersla á öflugt forvarnarstarf og er það skilgreint á tvenna vegu. Annars vegar að fyrirbyggja ýmis álagseinkenni/álagssjúkdóma og hins vegar að koma í veg fyrir áframhaldandi þróun á álagseinkennum/-sjúkdómum. Við öryggisráðgjöf er unnið út frá greiningu á starfsumhverfi þ.e.a.s andlegum, líkamlegum og efnislegum áhættuþáttum. Þegar talað er um efnislega áhættuþætti, þá er átt við tæki, húsgögn, aðbúnað starfsmanna, tölvur, lýsingu, loftræstingu o.fl. Þegar talað er um andlega áhættuþætti, þá er átt við samskipti, upplýsingaflæði, vinnuskipulag, stjórnunarhætti, álag við vinnu o.fl. Þegar talað er um líkamlega áhættuþætti, þá er átt við álagseinkenni /-sjúkdóma, svo sem spennuhöfuðverk, vöðvabólgu, og mjóbakseinkenni.

Rannsóknir sýna að andleg líðan hefur áhrif á líkamlega líðan starfsmanna og öfugt. Álagseinkenni af völdum vinnuumhverfisins geta valdið viðkomandi hugarangri og vangaveltum um það hvort hann geti áfram sinnt starfi sínu. Þau valda líka oft erfiðleikum utan vinnutíma, t.d. við framkvæmd heimilisstarfa eða í tómstundum. Samkvæmt könnun frá 1996 sem Evrópubandlagið gerði, telur 57% starfsfólks að vinnan hafi áhrif á heilsufar þess. Með markvissum fyrirbyggjandi aðferðum, þar sem áhættuþættir á vinnustað eru greindir, er hægt að koma í veg fyrir álagseinkenni/álagssjúkdóma, vernda heilsu starfsmanna og efla vellíðan, starfsanda og starfsánægju.

En hvernig er heilsuvernd háttað á Íslandi í dag? Í gegnum tíðina hefur borið á að fyrirtæki/stofnanir óski eftir ráðgjafa með sérþekkingu á heilbrigðis- og öryggisþáttum, til að veita ráðgjöf sem lýtur að heilsuvernd, en án markmiðasetninga. Um er að ræða tilkomu heilsuverndar af ýmsum toga sem koma frekar af þvinguðum aðgerðum samanber „vandamál er til staðar en þarfnast lausnar” í stað þess að stjórnendur taki ákvörðun um að innleiða heilsuvernd með markvissum hætti. Það er ekki nóg að greina andlega/líkamlega og efnislega áhættuþætti í umhverfinu, heldur þarf að setja fram markmiðasetningar til að móta þær áætlanir sem hrinda þarf í framkvæmd til að sporna við frekari þróun þeirra áhættuþátta sem fyrir liggja í umhverfinu. Markmiðasetningum á alltaf að hugsa út frá lausnum eða frekari aðgerða til að ná fram árangri.

Til þess að innleiða heilsuvernd markvisst er mikilvægt að stjórnendur og starfsmenn séu samhuga í verkefnum. Undirstaða árangurs er fólgin í að efla vitund og ábyrgð á þáttum sem lúta að öryggishegðun einstaklinga. Heilsuverndarstarfið þarf að svara þörfum fyrirtækis/stofnunar/vinnustaðarins, stjórnenda og starfsmanna og vera hluti að gæðastefnu innan vinnustaðarins.