Heilbrigði og hamingja

Getur ofurtrú á heilbrigði torveldað mönnum sýn á lífið og tilveruna?

Menningaráhrif af læknisfræðilegum hugsunarhætti

Sérhvert samfélag er nokkurs konar hlutafélag um verðmæti. Við deilum gæðum náttúrunnar, eigum hlutdeild í andlegri þekkingu og þekkingarleit, og sköpum siðferðileg verðmæti og hlúum að þeim í sameiningu. Til eru verðmæti sem eru séreign hvers manns eða sameiginlegt áhugamál fárra manna. Fleira er þó sameign, og sameiginlegt gildismat manna er einn sterkasti burðarásinn í mannlegu samfélagi. Segja má að menningin sé samfelld tilraun til að átta sig á því hvaða lífsgæði eru í húfi í tilverunni og til að ná tökum á þeim. Menningin er með öðrum orðum forsenda fyrir því að lögð verði rækt við lífsgæðin og réttlát skipting þeirra meðal manna tryggð.

Næsta ljóst er að góð heilsa eða heilbrigði er meðal þess sem flestir sækjast eftir. Þó er ekki að sama skapi auðvelt að henda reiður á stöðu heilbrigðisins meðal annarra gæða sem menn þarfnast og eru í hávegum höfð. Þótt ég sjái ekki frekar en aðrir til botns í því torskilda fyrirbæri sem heilbrigðið er, ætla ég að varpa fram vinnutilgátu um tengsl heilbrigðis og annarra gæða. Í því sambandi er óhjákvæmilegt að benda á nokkur atriði sem varða þetta hugtak.

Ég vil í fyrsta lagi biðja menn að leiða hugann að því að heilbrigði er á vissan hátt forsenda lífsnautnar og hamingju. Það sem menn þurfa á að halda til að geta notið lífsgæða er fyrst og fremst lífsandinn sjálfur, en í öðru lagi að vera við sem besta heilsu. Undir þessu sjónarhorni er heilbrigðið skilyrði fyrir hlutdeild í verðmætum og þar af leiðandi nokkurs konar forsenda fyrir hamingju. Því má til sanns vegar færa að heilbrigðið sé frumgæði sem menn hafi ríkari þörf fyrir en öll önnur verðmæti. Þetta viðhorf til heilbrigðis segir þó ekki allan sannleikann. Vanheill maður getur vissulega átt hlutdeild í ýmsum lífsgæðum og kann jafnvel að vera sælli en sá sem býr við góða heilsu. Þótt líklega sé sjaldgæft að þeir séu hamingjusamir sem þjást af alvarlegum veikindum, og þótt góð heilsa sé forsenda fyrir ýmsu sem menn takast á hendur, veitir heilbrigðið enga tryggingu fyrir því að athafnir manna færi þeim hamingju.

Þótt líklega sé sjaldgæft að þeir séu hamingjusamir sem þjást af alvarlegum veikindum, og þótt góð heilsa sé forsenda fyrir ýmsu sem menn takast á hendur, veitir heilbrigðið enga tryggingu fyrir því að athafnir manna færi þeim hamingju.

Hér virðist vera um þversögn að ræða. Heilbrigðið er drjúgur þáttur í því sem við sækjumst eftir í leit okkar að hamingjunni. Þó er engin trygging fyrir því að sá sem er heill heilsu sé jafnframt hamingjusamur. Hamingjan á það jafnvel til að heiðra hinn sjúka mann með nærveru sinni, þótt enginn telji hann öfundsverðan af hlutskipti sínu.

Tilgáta mín er sú að hugsjónir manna um heilbrigðið séu með þeim ósköpum gerðar að sérstakrar aðgátar sé þörf til að forða því að þær ryðji úr vegi ýmsum verðmætum sem nauðsynleg eru í lífi mennskra manna. Þetta er ofureinfalt – og margir hafa haft orð á þessu á undan mér. Ef einblínt er á lífsmörkin – á hjartsláttinn og blóðþrýstinginn, sem gjörgæslutækin mæla – á lífshorfurnar – á ævilengdina og faraldsfræðina, sem landlæknarnir mæla – og á tæknibrögðin sem beitt er til að halda mönnum á lífi, er hætta á að menn missi sjónar á því sem gerir lífið gott og bærilegt. Þetta getur auðveldlega gerst, bæði vegna þess að lífið og heilsan eru augljóslega eftirsóknarverð og vegna þess að menn eru sífellt minntir á hve stórfenglega megi bæta heilsu manna og lengja lífdagana með aðferðum læknavísinda.

Menn eru sífellt minntir á hve stórfenglega megi bæta heilsu manna og lengja lífdagana með aðferðum læknavísinda.

Það vefst tæplega fyrir ykkur hvað ég er að fara með þessum fullyrðingum, ef ég tek dæmi af oflækningum á deyjandi gamalmennum. Það kann að vera rétt að leggja í flóknar og áhættusamar aðgerðir í því skyni að bjarga lífi ungmennis sem haldið er þungu meini. En óviðeigandi er að framkvæma sömu aðgerðir á örvasa gamalmenni, ef þær valda því að dauðastríðið lengist í stað þess að þjáningar sjúklingsins séu linaðar. Ef síðustu stundir dauðvona manns eru sveipaðar dulúð tæknilegra afreksverka, getur það torveldað bæði þeim sem liggur banaleguna og aðstandendum hans að horfast í augu við dauðann þegar hann nálgast. Þess háttar örþrifaráð byggjast augljóslega á misskilningi á tilgangi lækninga, vegna þess að þau auka vanlíðan þeirra sem þjást, í stað þess að færa þeim líkn.

Algengt er að fullfrískir einstaklingar beri ugg í brjósti vegna sjúkdóma sem á þá gætu herjað, en herja þó ekki í raun. Þeir sem verst eru haldnir gerast hugsjúkir; þeir eru teknir undir verndarvæng geðlæknisfræðinnar og sagðir vera ímyndunarveikir eða „hýpókonderar“. Þeir eru bókstaflega veikir af áhyggjum. Hitt er þó mun algengara, að sjúkdómsóttinn valdi ekki beinlínis hugsýki, heldur gegnsýri tilveruna með ísmeygilegum hætti og verði nokkurs konar grunnþema í lífinu. Menn sjá áhættuþætti og sjúkdómsvalda við hvert fótmál og ráða öllum ráðum sínum með það fyrir augum að sneiða hjá sjúkdómum og lengja lífdagana.

Menn sjá áhættuþætti og sjúkdómsvalda við hvert fótmál og ráða öllum ráðum sínum með það fyrir augum að sneiða hjá sjúkdómum og lengja lífdagana.

Ef slíkur sjúkdómsótti leggst þungt á menn, er hann mikið böl. Sá sem stöðugt hefur áhyggjur af heilsufari sínu, hlýtur að telja sig vera við lakari heilsu en ástæða er til. Þótt ævi manna í vestrænum löndum hafi lengst á undanförnum áratugum, og þótt læknar berjist af æ meiri hörku og þekkingu gegn fjöldamörgum sjúkdómum, endurspeglast þessi þróun ekki í mati almennings á heilsufari sínu. Víðtækar kannanir benda til þess að almenningur trúi því staðfastlega að heilsufari sínu fari hrakandi. Þessi þversögn ætti að vera þyrnir í augum heilbrigðisstarfsmanna, en svo virðist ekki vera – læknarnir virðast að minnsta kosti una glaðir við sitt, í fullvissu um að þeir láti gott af sér leiða. Hins vegar er ekkert gamanmál ef sífelldur sjúkdómsuggur veldur því að hinn almenni borgari telur sjálfan sig vera veikari en hann er, vegna þess að hann verður að endingu veikari en hann ætti að vera.

Almenningur er ofurseldur sérfræðiþekkingu þeirra sem vit hafa á líkamanum. Í hvert skipti sem eitthvað fer úrskeiðis í líkamsvélinni, er þörf fyrir liðstyrk læknavísindanna. Og þótt maður kenni sér einskis meins er hann engu að síður knúinn til að fylgja lífsreglum heilbrigðispostulanna og gangast undir læknisskoðun „til öryggis“, því enginn nema vísindamaðurinn veit upp á hverju líkaminn kann að taka næst. Þannig á sér stað ákveðin firring gagnvart líkamanum. Boðskapur læknavísindanna, sem allar manneldisstofnanirnar, öll heilbrigðiskerfin og allir upplýstir fjölmiðlar breiða út, er alltaf á sömu leið: Líkaminn er ægiflókin vél, fláráður þjónn sem getur brugðist húsbónda sínum á óendanlega marga vegu. Og þú skalt ekki láta þér detta í hug að þú getir séð við brögðum hans án aðstoðar sérfræðinganna.

Áminningarnar um orsakir sjúkdóma, og um tæknibrögðin sem hægt er að beita líkamann þegar hann bilar, eru endurteknar í sífellu.

Reyndar er það eðli sjúkdóma, eða öllu heldur eðli líkamlegs sársauka, að undirstrika hinn líkamlega þátt í tilvist okkar og forgengileika lífsins. Sá sem veikist, neyðist til að horfast í augu við að hann er af holdi og blóði. Vel má vera að sumum sé eðlislægt að bregðast við þjáningunni með því að hafna líkama sínum, sem er uppspretta þjáningarinnar. Þjáningin getur valdið nokkurs konar viðbjóði á líkamanum, eða vitsmunalegri afneitun – „þetta er ekki ég, heldur hið ófullkomna hylki sálar minnar“ – eins og Þórbergur hefði sagt. Þetta veldur mér hins vegar ekki áhyggjum. Ég held að líkamlegur sársauki geti verið uppspretta þroska og auðgað skilning manna á tilvistarskilyrðum sínum. Aftur á móti óttast ég að firringin gagnvart líkamanum færist í aukana í menningu okkar. Lýsingar á ótal sjúkdómseinkennum dynja gegndarlaust á mönnum. Áminningarnar um orsakir sjúkdóma, og um tæknibrögðin sem hægt er að beita líkamann þegar hann bilar, eru endurteknar í sífellu. Firringin gagnvart líkamanum er ekki aðeins undantekningarástand hins þjáða manns, heldur viðvarandi misskilningur þess samfélags sem er undir sterkum áhrifum af tæknivísindalegum hugsunarhætti.

Menn leita ekki bara á náðir vísindanna og hvítklæddra lækna þegar líkaminn gerir allsherjar uppreisn og allt stefnir í óefni. Sífellt fleiri kvillar þykja tilefni til íhlutunar læknavísindanna. Þetta veldur því að sjálfsbjargarviðleitni er drepin í dróma. Smáskeinur og hor í nös eru ekki lengur viðfangsefni húsmæðra og heilbrigðrar skynsemi. Og þið megið trúa því að það eru ekki bara húsmæðurnar sem hafa látið gabbast og treysta sjálfum sér hvorki fyrir rauðum barnsrassi né flís í fingri lengur. Læknavísindin eru hjartanlega sátt við að rannsaka sérhvern kvilla og kveisu sem valda óþægindum og veita með ánægju ráð um hvort börnum skuli snýtt frá hægri eða frá vinstri. – Þeim mun víðtækari sem lögsaga sérfræðinganna er, þeim mun betur er hagsmunum almennings talið vera borgið.

Enn alvarlegra er þó að ótal veraldleg, eða öllu heldur tilvistarleg vandamál eru leynt og ljóst ástæður þess að menn leita sér læknishjálpar, þrátt fyrir að tæknikunnáttan gagnist ekki hætishót við að greiða úr slíkum erfiðleikum. Þannig á sér stað háskaleg blekking, sem getur tekið á sig tvær myndir. Annað hvort reyna menn að flýja tilvistarótta sinn með því að breyta þversögnum mannlegrar tilveru í tæknileg úrlausnarefni af því tagi sem læknavísindin kunna tökin á. Eða þá að menn gera ráð fyrir að læknar séu þess raunverulega umkomnir að liðsinna þeim sem eiga við lífsvanda að stríða. Menn misskilja því annað hvort eðli þeirra úrlausnarefna sem íþyngja sálinni mest eða eðli þeirrar þekkingar sem læknar eru gæddir í krafti menntunar sinnar.

Valda ekki auglýsingarnar um lífsþrótt æskunnar og tækniaðgerðirnar gegn hrörnuninni því að það verður sífellt erfiðara að takast á við tilveruna af eigin rammleik og vera sáttur við sjálfan sig?

Krankleikar miðaldra kvenna

Helsta ástæðan þess að mönnum blöskrar, þegar látið er að því liggja að tengsl séu milli læknavísindanna og óæskilegrar þróunar í samfélaginu, er að þeim þykir vegið að hinum góðu hugsjónum sem ráða ferðinni í heimi lækninga og líknar. Menn eru alltaf að hjálpa og ásetningurinn er góður – hann er óumdeilanlega, og þar af leiðandi allt að því óumræðanlega, góður.

Svo dæmi sé tekið, færist hormónameðferð á miðaldra konum mjög í aukana. Slíkar lækningar byggjast aldeilis á góðum ásetningi og ítarlegum rannsóknum læknavísindanna. Hormónameðferðin beinist í fyrsta lagi gegn ýmsum kvillum og óþægindum sem geta verið samfara tíðahvörfum. Og ef rétt er á haldið, getur meðferðin ekki síður haft fyrirbyggjandi áhrif gegn beinþynningu sem veldur miklum þjáningum meðal kvenna á efri árum. Tilgangurinn er með öðrum orðum góður, meðulin góð, og niðurstaðan til fyrirmyndar. Ævi kvenna lengist og dregið er úr þjáningum þeirra án verulegra læknisfræðilegra aukaverkana. – Ég tel engu að síður að áhugi lækna á hormónabúskap kvenna, og meðferðin sem þróuð hefur verið, kunni að valda umtalsverðum usla, eða menningarlegum aukaverkunum. Þessar aukaverkanir eru hins vegar ósýnilegar frá sjónarhorni þeirra vísinda sem eiga ekki aðra mælikvarða en dauðsföll og sjúkdóma.

Undir læknisfræðilegu sjónarhorni einkennist breytingaskeið kvenna af hrörnun og sjúkdómum. Ég óttast að þeim mun meira sem læknisfræðileg þekking á þessu æviskeiði kvenna breiðist út, ásamt vitneskjunni um hormónameðferðina, þeim mun erfiðara verði fyrir konur að sætta sig við að þær eldist og líkami þeirra taki breytingum. Valda ekki auglýsingarnar um lífsþrótt æskunnar og tækniaðgerðirnar gegn hrörnuninni því að það verður sífellt erfiðara að takast á við tilveruna af eigin rammleik og vera sáttur við sjálfan sig, ef maður er fertug kona – ég tala nú ekki um sextug kona? Mig grunar að sjálfsmynd kvenna sæti nú enn einni árásinni. Skilgreiningin á konu verður kannski á þessa leið: Vera sem haldin er hormónasveiflum frá kynþroska til fimmtugs, en hormónaþurrð eftir það. Hormónaskorturinn veldur vandamálum sem nú hafa verið vísindalega skilgreind. Til eru tæknilegar leiðir til að útrýma þessum vandamálum. Og sönn kona – hamingjusöm kona – er sú vera sem gengst undir slíka meðferð.

Þetta dæmi af hormónameðferð á konum er góður prófsteinn á tilgátuna um að lækningar geti haft menningarlegar aukaverkanir. Ef ævilengd og sjúkdómsvarnir eru lögð til grundvallar, virðist meðferðin vera til fyrirmyndar. Hormónameðferðin hefur heldur enga augljósa siðferðilega ágalla, eins og í dæminu sem ég nefndi áðan um oflækningar á dauðvona sjúklingum. Með hliðsjón af hormónalækningunum má orða tilgátu mína á þá leið að margþætt þróun í læknavísindum og heilbrigðismálum valdi því í fyrsta lagi að sjálfsmynd manna – karla og kvenna – raskist. Það á sér stað ákveðin firring gagnvart líkamanum. Tæknileg kunnátta, sem aðeins er á færi sérfræðinga, er forsenda fyrir réttri umgengni við líkamann. Í öðru lagi er hætta á að menn missi sjónar á verðmætum sem gefa lífinu gildi. Heilbrigði, í þrengsta skilningi læknavísindanna, er lagt að jöfnu við hamingjuna. Möguleikar manna á að njóta lífsins á mismunandi hátt, á mismunandi æviskeiðum og mishraustir til sálar og líkama, eru skertir.

Menn láta hjá líða að fjalla um sambandið milli heilbrigðis og annarra verðmæta, sem eru í húfi fyrir miðaldra konur og fyrir samfélagið í heild.

Opinber orðræða um heilbrigðismál

Páll Skúlason heimspekingur hefur fjallað um stöðu læknavísinda og annarra vísinda í samfélaginu. Í greininni „Vísindi og samfélag“ heldur Páll því fram að hugmyndakerfi vísindanna séu sjálfstæð með tilliti til annarra menningarkerfa, öfugt við önnur hugmyndakerfi í samfélaginu. Hann bendir á hættuna á því að vísindin valdi upplausn á hefðbundnum samskiptakerfum og siðakerfum og innleiði í þeirra stað tæknileg kerfi sem ekki fullnægja þörf manna fyrir verðmæti og tjáskipti. Ef tilgátan um menningarlegar aukaverkanir lækninga á við rök að styðjast, er tvímælalaust um að ræða áhrif af þeim toga sem Páll ræðir í þessari grein.

Æ fleiri læknar bjóða miðaldra konum upp á hormónalyfin, sem áður var getið um, og sífellt fleiri konur neyta slíkra lyfja. En þrátt fyrir að þessi hormónameðferð færist í aukana, fer ekki fram raunveruleg þjóðfélagsumræða um kosti hennar og galla. Öll umræða á opinberum vettvangi um ágæti þessara lyfja er eins og bergmál af rökræðum læknavísindanna. Þar er eingöngu til umræðu að hve miklu leyti hormónameðferðin sporni gegn fylgikvillum tíðahvarfa og sjúkdómum sem hrjá konur á efri árum. Aðrar hliðar á málinu eru einfaldlega ekki á dagskrá. Menn láta hjá líða að fjalla um sambandið milli heilbrigðis og annarra verðmæta, sem eru í húfi fyrir miðaldra konur og fyrir samfélagið í heild.

Samfélagið skortir veigamiklar stofnanir er haldið gætu á lofti gagnrýnni orðræðu um hvert sé hlutverk heilbrigðiþjónustunnar og hvernig hugvit og tæknikunnátta lækna skuli nýtt.

Þetta bendir til þess að menning okkar sé að nokkru leyti komin í þrot gagnvart læknavísindunum. Sú orðræða sem ætti að tryggja að tæknilegar nýjungar verði nýttar til mannlegra framfara, lýtur sjálf sömu lögmálum og hin tæknilegu kerfi. Orðræðan er þess ekki umkomin að hlúa að mannlegum verðmætum og beisla læknavísindin í þeirra þágu, vegna þess að hún gengur að því vísu að vísindin muni leiða til raunverulegra framfara. Menningarleg kerfi, sem ættu að bregðast við nýjungum og finna þeim stað í tilverunni, hafa með einhverjum hætti verið gerð óvirk. Rétt er að ítreka að þetta merkir ekki að einhugur ríki um það í samfélaginu að allar nýjungar í læknavísindum séu til góðs. Öðru nær – margir eru tortryggnir í garð læknavísindanna. Hins vegar skortir samfélagið veigamiklar stofnanir er haldið gætu á lofti gagnrýnni orðræðu um hvert sé hlutverk heilbrigðisþjónustunnar og hvernig hugvit og tæknikunnátta lækna skuli nýtt.

Þekkingarfræðileg og sálfræðileg gagnýni

Tilvera mannsins einkennist af óvissu, en þekkingarþráin er honum í blóð borin. Okkur er eðlislægt að reyna að greina sannleika frá lygi og hverfult frá traustu. Hins vegar er oft erfitt að ganga úr skugga um hvað er satt og hvað logið, hvað sýnd og hvað reynd, í einstökum málum. Við vitum sjaldnast hverju við eigum að trúa, hvað sé rétt að gera og hverju megi treysta. Okkur þyrstir í öryggi. Því er ekki að undra þótt menn taki þeim fræðum fegins hendi sem hafa upp á áreiðanlega þekkingu að bjóða.

Ef rétt er að verki staðið má treysta því að niðurstöður læknavísindanna séu sannar. Vísindamenn jafnt sem almenningur leggja kapp á að ekkert skuli talið til sanninda í læknavísindum nema það hafi verið rannsakað til hlítar. Og á undanförnum tveimur öldum hafa átt sér stað stórstígar framfarir í læknavísindum. Þekkingin verður sífellt víðtækari, nákvæmari og traustari. Viðfangsefni þekkingarinnar er maðurinn sjálfur og sá háski sem honum er búinn frá vöggu til grafar. Læknavísindin ráða yfir víðtækri þekkingu á upphafi lífsins, þroska mannverunnar og hrörnuninni sem leiðir til veikinda og dauða. Þetta veit hver maður og læknavísindin njóta mikillar virðingar fyrir vikið.

Þekkingin verður sífellt víðtækari, nákvæmari og traustari. Viðfengsefni þekkingarinnar er maðurinn sjálfur og sá háski sem honum er búinn frá vöggu til grafar.

Þeim spurningum um lífið og dauðann sem heitast brenna á mönnum er hins vegar ekki auðsvarað. Það eru spurningar á borð við „hver er ég?“, „hvers vegna lifum við?“, „hvernig eigum við að ráðstafa lífi okkar?“ og „hvernig getum við horfst í augu við dauðann?“ Með tilliti til þessara spurninga eru svör læknavísindanna hálfsannleikur eða óhrekjandi lygi – óhrekjandi vegna þess að vísindin eru sannarlega uppspretta sannleika og vissu og menn eiga ekki annarra kosta völ en að treysta þeim, en lygi vegna þess að engin vísindi eru þess umkomin að leysa þær gátur mannlegrar tilveru sem vekja ríkasta þörf fyrir fullvissu.

Með aðferðum nútíma læknisfræði er hægt að lækna marga og líkna þeim sem ekki er við bjargandi. Þannig virðist læknisfræðin vera fremst í hópi þeirra tæknivísinda sem draga úr bölinu sem á manninum dynur.

Ef menn slysast til að leggja tilvistarlega merkingu í afrek læknavísindanna, er ástæðan ekki aðeins sú að vísindin eru örugg og traust og virðast svala þörf manna fyrir þekkingu. Bölið og þjáningin eru ávallt til staðar í tilveru mannsins og kalla á viðbrögð og úrbætur. Hins vegar er torvelt að sporna gegn bölinu og viðleitni manna til að draga úr þjáningu og gera veröldina byggilegri er allt of oft unnin fyrir gýg. En í bræðralaginu með tækninni er máttur vísindanna svo mikill að menn verða agndofa af hrifningu. Viska læknanna helst í hendur við getu þeirra til að leika á dauðann og líkna þeim sem þjást. Með aðferðum nútíma læknisfræði er hægt að lækna marga og líkna þeim sem ekki er við bjargandi. Þannig virðist læknisfræðin vera fremst í hópi þeirra tæknivísinda sem draga úr bölinu sem á manninum dynur.

Menn þyrstir í svör við gátum tilverunnar og þurfa jafnframt á allri tiltækri hjálp að halda til að berjast gegn þjáningu og vanlíðan. Í sérhverju samfélagi eru þau kennivöld stærst sem takast á við þessi tilvistarskilyrði mannsins, leitast við að skýra merkingu lífs og dauða og liðsinna þeim sem eru í nauðum staddir. Til skamms tíma gegndu kristin trúarbrögð þessu hlutverki meðal vestrænna þjóða. Hins vegar væri það reginskyssa að ætla að dregið hafi úr trúarþörf manna eða þörfinni fyrir háleit gildi á síðustu tímum, þótt kristin kirkja sé ekki lengur andlegur leiðtogi samfélagsins né heldur miðstöð líknar og samhjálpar í sama mæli og áður. Menn leita einfaldlega eftir svörum við hinstu gátum tilverunnar hjá öðrum véfréttum en áður og treysta öðrum yfirvöldum fyrir velferð sinni. Svo kann jafnvel að virðast sem hver maður trúi því sem honum hentar best, því straumarnir og stefnurnar í andlegum málefnum eru óteljandi í nútímanum. Þó er ákveðinn trúarboðskapur eins og rauður þráður í andlegri einstaklingshyggju og einkatrúarbrögðum í samtímanum, en það er boðskapur læknavísindanna og heilbrigðisstofnananna, en jafnframt boðskapur allra annarra heilbrigðispostula og kuklara sem kenna sig við önnur fræði en læknavísindin.

Kjarninn í heilbrigðistrúnni er vitaskuld sá að heilbrigði sé æðst allra gæða, enda jafngildi góð heilsa hamingju. Nútímamenn eiga erfitt með að henda reiður á því sem er handan við jarðlífið, en ef hið besta er að vera hraustur þarf ekki að skírskota til æðri máttarvalda eða handanlífsins þegar spurt er um óttann og þjáninguna sem menn vilja forðast. Markmið mannlífsins er jarðneskt og áþreifanlegt og sérfræðingarnir koma í stað guðs. Hlutverk sérfræðinganna er að uppræta þjáninguna – þeir leysa sérhvern vanda. Það þýðir að allt sem veldur mönnum áhyggjum eru „læknisfræðileg vandamál“. Meira að segja sá vandi sem erfiðast virðist vera að uppræta úr mannlífinu, það er að segja dauðinn sjálfur, er að öllu leyti í lögsögu sérfræðinganna. Þótt dauðinn hafi ekki verið upprættur enn, hefur hann að mestu leyti verið einangraður – hann er læknisfræðilegt fyrirbæri og á sér oftast stað á þar til gerðum stofnunum, svo að segja ósýnilegur almenningi.

Heilbrigðistrúin virðist gegna stóru hlutverki í tilraunum manna til að koma á jarðnesku þúsundáraríki.

Heilbrigðistrúin hefur jafnframt þann kost að hún gerir einstaklinginn að miðpunkti allrar athygli. Þegar ég gengst undir læknisskoðun skipta veikindi mín og heilsa mín meginmáli. Þrátt fyrir allan þann munað og frelsi sem nútíminn hefur uppá að bjóða, er innsta eðli einstaklingsins sjaldan sýnilegt öðrum mönnum. Tilveran er full af skrifuðum og óskrifuðum reglum sem valda því að fjarlægðin milli manna er raunverulega mikil. Menn eru alltaf einir síns liðs að leika eitthvert hlutverk. Þess vegna líður okkur aldrei betur en þegar við getum baðað okkur í athygli þeirra sem þjónusta okkur og hugga í heilbrigðis- og umönnunargeiranum. Auglýsingar um hreinni tennur, þynnri dömubindi og stærri vöðva, þunglyndi, fæðingarbletti, brjóstaskoðun og beinþynningu hafa þann ótvíræða kost fyrir móttakandann að honum er sýnd athygli, einhver lætur sig velferð hans skipta og tekur ímynduð eða raunveruleg vandamál hans alvarlega. Og hjá lækninum get ég leyst frá skjóðunni. Hlutverk læknisins er að hjálpa mér og milli okkar ríkir trúnaðarsamband. Ég get slakað á kröfunum og komið til dyranna eins og ég er klæddur – þreyttur, óttasleginn eða einfaldlega í örvæntingarfullri leit að athygli.

Heilbrigðistrúin virðist gegna stóru hlutverki í tilraunum manna til að koma á jarðnesku þúsundáraríki. Trúin á að hægt sé að móta fyrirmyndarsamfélag með pólitískum aðgerðum er í fyrsta lagi undir því komin að til séu markmið sem eru skynsamleg og eftirsóknarverð fyrir alla, en í öðru lagi að til séu tæknilegar leiðir til að ná þessum markmiðum. Mörgum virðist sem æðstu gildi heilbrigðistrúarinnar uppfylli þessi skilyrði. Á dögum iðnbyltingarinnar, þegar borgir uxu hraðar en áður, var nýrri þekkingu á smitsjúkdómum og næringarfræði beitt með góðum árangri til að skipuleggja hreinlæti og mataræði í borgum. Allar götur síðan hafa menn lifað í voninni um heilbrigða og hamingjusama þjóðarsál í hraustum þjóðarlíkama.

Læknar eru betur þjálfaðir sem tæknimenn en nokkrir fyrirrennarar þeirra, en gegna í raun hlutverki æðstupresta í óopinberum trúarbrögðum samfélagsins.

Að svo miklu leyti sem þessi lýsing á heilbrigðistrú nútímans á við rök að styðjast, þykir mér illa vera komið fyrir sjálfum mér og öðrum ungum læknum. Við erum betur þjálfaðir sem tæknimenn en nokkrir fyrirrennarar okkar, en gegnum í raun hlutverki æðstupresta í óopinberum trúarbrögðum samfélagsins. Okkur er kennt að mæla sjúklinginn út og taka vandamál hans tæknilegum tökum, en samfélagið og jafnvel sjúklingurinn sjálfur ætlast til þess að við hjálpum honum við að höndla hamingjuna. Ekki nóg með það, heldur eru heilbrigðisfræðin talin veita haldbestu svörin við því hvernig samfélagið skuli skipulagt. Mér virðist því vera hróplegt ósamræmi milli menntunar minnar og þess hlutverks sem læknavísindin gegna í samfélagi okkar. Þótt það kitli vissulega hégómagirndina að fá tilboð um svo glæsilegt hlutverk, er ég hræddur um að hlutverkið sé hverjum manni ofviða og engum í hag að þessi tvískinnungur sé látinn viðgangast. En einmitt vegna þess að við dýrkum öll heilbrigðistrúarbrögðin hlýtur svona tal að hljóma eins og guðlast.

Stefán Hjörleifsson lauk BA prófi í heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1992 og embættisprófi í lækningum við Björgvinjarháskóla 1998 og starfar við Sjúkrahúsið í Harstad.