Heilabólga


Hvað er heilabólga?

Bólga í sjálfum heilavefnum sem stundum nær til heilahimnanna sem umlykja heilann.

Hver er orsökin?

Heilabólga er yfirleitt af völdum veirusýkinga. Margar veirur hafa fundist sem geta valdið sjúkdómnum, t.d. mislingaveiran og hlaupabóluveiran. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir er ekki alltaf hægt að finna veiruna sem veldur sjúkdómnum.

Hver eru einkennin?

  • Höfuðverkur sem er oft mjög slæmur.
  • Hnakkastífleiki.
  • Hiti
  • Minnkuð meðvitund.
  • Í sumum tilfellum getur sjúkdómurinn haft í för með sér krampa og/eða lömun útlima.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Ef lækni grunar, að um heilabólgu sé að ræða eftir að hafa skoðað sjúklinginn, er mænuvökvinn rannsakaður. Rannsóknin getur leitt í ljós fjölgun hvítra blóðkorna, en eðlilegt prótein- og sykurmagn. Stundum er hægt að rækta veiruna úr vökvanum. Einnig er tekin tölvusneiðmynd af heilanum.

Hver er meðferðin?

Meðferðin fer alltaf fram á sjúkrahúsi þar sem veirulyf er gefið í æð. Þar að auki er reynt að draga úr fylgikvillum.