Blóðþrýstingur

 Hvað er blóðþrýstingur?

Hjartað er vöðvi á stærð við hnefa. Á einni mínútu slær hjartavöðvinn u.þ.b. 70 sinnum. Blóðþrýstingur er sá þrýstingur sem myndast þegar hjartað slær og dælir blóði út í blóðrásina. Þegar við metum blóðþrýsting mælum við þrýsting blóðs í útlimaslagæðum. Án þrýstings getum við ekki viðhaldið blóðrás til líffæranna. Tvö gildi eru skráð við blóðþrýstingsmælingu, efri mörk (slagbilsþrýstingur) og neðri mörk (hlébilsþrýstingur). Þessi gildi eru mæld í millimetrum (mm) kvikasilfurs (Hg) og sýna um hve marga millimetra af kvikasilfurssúlu þrýstingur í æðunum getur lyft.

 Slagbilsþrýstingur (efri mörk) er sá þrýstingur sem mælist þegar hjartað dregst saman og blóði er dælt út í slagæðarnar.

 Hlébilsþrýstingur (neðri mörk) mælist þegar hjartað slakar á og fyllist.

Blóðþrýstingur getur verið breytilegur yfir tíma hjá sama einstaklingi. Aðstæður, til dæmis hvenær dagsins mæling er gerð, hefur áhrif á mælingagildin. Hreyfing, andlegt álag, reiði og fleiri þættir hækka blóðþrýsting. Vegna þessa breytileika þarf að gera nokkrar mælingar (2-3) með nokkurra daga millibili áður en unnt er að greina háþrýsting. Blóðþrýstingsmæling er eina leiðin til að greina háþrýsting.Blóðþrýsting er hægt að fá mældan víða t.d. á heilsugæslu og í lyfjaverslunum. Í apótekum fást einnig blóðþrýstingsmælar sem ætlaðir eru til notkunar í heimahúsum.

Háþrýstingur er aðaláhættuþáttur heilablóðfalla. Hann tvöfaldar áhættuna á heilablóðfalli samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar.Mælt er með reglubundnu lækniseftirliti þegar um háþrýsting er að ræða.

Viðmiðunarmörk blóðþrýstings (mmHg)

Þegar blóðþrýstingur er metinn þarf að hafa hliðsjón af þáttum eins og aldri, kyni, fyrri heilufarssögu og öðrum þekktum áhættuþáttum. Viðmiðunarmörk Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar eru að blóðþrýstingur yfir eða jafnt og 160 í efri mörkum og/ eða yfir eða jafnt og 95 í neðri mörkum er skilgreindur sem háþrýstingur. Önnur samtök hafa sett fram strangari viðmiðunarmörk þar sem háþrýstingur miðast við 140/90 eða hærra. Meðfylgjandi tafla sýnir viðmiðunarmörk blóðþrýstings, en eins og þegar hefur komið fram eru margir þættir sem spila inn í þegar blóðþrýstingur er metinn.

Kjörblóðþrýstingur: minna en 120/ 80

Eðlilegur blóðþrýstingur: minna en 135/ 85

Jaðarháþrýstingur: á bilinu 135-139 / 85-89

Háþrýstingur: meira en eða jafnt og 140 -160 í efri mörkum meira en 90 -95 í neðri mörkum

Slagbilsháþrýstingur: yfir 160 efri mörkum en neðri mörk eru eðlileg (algengt hjá öldruðum).

Hversu oft á að mæla blóðþrýsting og á hvaða aldri?

Hjartavernd mælir með að fólk láti mæla þekkta áhættuþætti eins og blóðþrýsting, blóðfitu og blóðsykur eftir fertugt og fyrr ef hjarta- og æðasjúkdómar eru í ættinni. Ekkert mælir þó á móti því að fólk láti mæla þessa þætti fyrr. Ef blóðþrýstingur mælist eðlilegur nægir að láta mæla hann annað til þriðja hvert ár. Ef hann mælist hækkaður er æskilegt að endurtaka mælingu eftir nokkra daga.

Orsakir háþrýstings

Orsök háþrýstings er óþekkt í 95% tilfella. Helstu þekktu áhættuþættir háþrýstings eru erfðir, offita, hreyfingarleysi, reykingar, mikil saltneysla og ofneysla áfengis.

Einkenni háþrýstings

Einkenni háþrýstings eru oft lítil. Fólk getur haft hækkaðan blóðþrýsting árum saman án þess að finna fyrir því. Einkenni koma stundum fyrst í ljós þegar háþrýstingurinn er farinn að valda skaða.

Einkennin geta verið

· Mæði við áreynslu, sem viðkomandi hefur ekki fundið fyrir áður og tengjast áhrifum á hjartað

· Ör hjartsláttur • Höfuðverkur, sérstaklega að morgni dags

· Sjóntruflanir

Önnur þekkt einkenni eru þreyta, svimi, skert einbeiting og blóðnasir. Þessi einkenni geta þó oft verið af öðrum orsökum.

Afleiðingar ómeðhöndlaðs háþrýstings

Langvarandi blóðþrýstingshækkun veldur auknu álagi á hjarta- og æðakerfið. Heilablóðfall er alvarlegasta afleiðing háþrýstings. Háþrýstingur getur einnig skaðað augu, hjarta og nýru.

Hvað er til ráða?

Flest ráð til að stemma stigu við hækkuðum blóðþrýstingi eru hin sömu og þau sem draga úr líkum á heilablóðfalli. Helstu ráðin eru megrun, minnkuð saltneysla, reglubundin hreyfing, takmörkun á áfengisneyslu og í sumum tilfellum ástundun slökunar. Reglubundin hreyfing getur lækkað blóðþrýsting verulega (um allt að 10 mm Hg).

Of mikil saltneysla hækkar blóðþrýsting. Saltneysla Íslendinga er almennt of mikil. Þeir sem hafa væga blóðþrýstingshækkun ættu að miða daglega saltneyslu við um 5 grömm af matarsalti (u.þ.b. 1 teskeið). Meira en helmingur salts í fæði kemur úr tilbúnum matvælum. Margir salta matinn af gömlum vana. Reynið að draga úr saltneyslu. Fersk matvæli og fryst innihalda að öllu jöfnu minna af salti en tilbúin matvæli. Hreint jurtakrydd, laukur, hvítlaukur, pipar, sítróna og karrí eru dæmi um saltlaus krydd sem gefa matnum bragð. Natríuminnihald í ýmsum gerðum af salti er mismunandi. Æskilegast er, að natríuminnihaldið sé sem minnst. Seltin og Eðalsalt eru dæmi um salttegundir sem innihalda minna natríum en aðrar tegundir og hafa því minni áhrif á blóðþrýsting.

Mikil lakkrísneysla getur í sumum tilvikum hækkað blóðþrýsting!

Lyfjameðferð við háþrýstingi

Stundum duga framangreind ráð ekki til að lækka blóðþrýstinginn og verður þá jafnframt að beita lyfjameðferð. Lyfjameðferð við háþrýstingi er í stöðugri þróun. Unnt er í flestum tilfellum að halda háþrýstingi niðri með réttri lyfjameðferð og lækniseftirliti. Oft þarf að prófa sig áfram til að finna út hvaða lyfjaflokkur og skammtastærð hentar. Stundum er fleiri en ein tegund lyfja notuð. Aldrei skal hætta lyfjameðferð nema í samráði við lækni jafnvel þótt blóðþrýstingur hafi lækkað og orðin eðlilegur. Sum blóþrýstingslyf eru þess eðlis að draga þarf smátt og smátt úr skömmtunum áður en inntöku þeirra er alveg hætt. Elstu lyfin í flokki blóðþrýstingslyfja eru svokallaðir betablokkar og vatnslosandi lyf þ.e. þvagræsilyf. Aðrir lyfjaflokkar hafa verið þróaðir. Helstu háþrýstilyfin tilheyra 5-6 lyfjaflokkum.

Lyfjaflokkar við háþrýstingi

Betablokkar: Hægja á hjartslætti og lækka þannig blóðþrýsting. Betablokkar eru fyrst og fremst fyrir einstaklinga sem hafa fengið hjartaáfall eða eru með sögu um brjóstverk. Þeir eru síður fyrir þá sem eru með astma vegna áhrifa þeirra á lungnastarfsemina. Aukaverkanir: Fyrir þá sem stunda hreyfingu reglulega og eru í góðri þjálfun, geta betablokkar verið hamlandi þar sem þeir hægja á hjartslætti. Hjá sumum hefur þetta engin áhrif. Aðrar aukaverkanir geta verið þreyta, fót- og handkuldi, þunglyndiseinkenni, svimi og óreglulegur svefn. Í vissum tilfellum draga þessi lyf úr kyngetu.

Þvagræsilyf: Auka útskilnað þvags eins og nafnið gefur til kynna. Til eru margar tegundir þvagræsilyfja með mismikilli verkun. Stundum þarf að nota kröftug þvagræsilyf þegar liggur á að lækka blóðþrýsting. Í öðrum tilfellum eru vægari tegundir notaðar og þá til lengri tíma. Þvagræsilyf auka útskilnað vökva (vatnslosandi lyf) og minnka þar með vökvamagnið í blóðrásarkerfinu. Þannig minnkar álag á blóðrásarkerfið og blóðþrýstingur lækkar. Aukaverkanir: Flestir þola þessi lyf vel. Sumir kvarta þó um þreytu, svima og getuleysi.

Kalsíumblokkar: Virka á vöðvafrumur í æðaveggjum og valda vöðvaslökun í æðaveggjunum. Það þýðir minna viðnám fyrir hjartað þegar það dælir blóðinu út í blóðrásina og blóðþrýstingur lækkar. Sum þessara lyfja hægja einnig hjartsláttinn. Aukaverkanir: Sum þessara lyfja geta valdið hægðatregðu. Önnur valda höfðuverk, svima, bjúg, þreytu og útbrotum.

Alfa-blokkar: Virka einnig á vöðvafrumur í æðaveggjum með aukinni vöðvaslökun. Aukaverkanir: Þvagleki hjá konum í einstaka tilfellum. Sumir kvarta um svima í upphafi lyfjameðferðar.

ACE-blokkar og skyld lyf: Virka einnig á vöðvafrumur í æðaveggjum með aukinni vöðvaslökun. Auka einnig útskilnað salts og vatns. Þessi lyf eru oft kjörlyf fyrir sykursjúka sem eru með háþrýstin g. Aukaverkanir: Hósti í sumum tilfellum. Minnkað bragðskyn, þreyta og slappleiki. Í einstaka tilfellum fær fólk kláða, hita og útbrot. Leitið nánari upplýsinga hjá lækni ykkar.

Meðferð við háþrýstingi hefur verið í örri þróun s.l. áratugi. Rannsóknir Hjartaverndar hafa gert kleift að fylgjast með þessari þróun hérlendis.

Rannsóknirnar sýna svo ekki verður um villst að árangur í meðferð við háþrýstingi er mun betri hér á landi en í nágrannalöndum okkar.

Lækkandi dánartíðni á Íslandi vegna heilablóðfalla má að hluta til þakka bættri meðferð við háþrýstingi.

Þessi grein er unnin upp úr bæklingi Hjartaverndar sem gefin var út 2002