Handleiðsla

Á síðustu 30 árum hefur umræða um þörfina fyrir handleiðslu fyrir starfsfólk í heilbrigðisstéttum stöðugt aukist. Þessi umræða hefur orðið til þess að framboð á handleiðslu hefur vaxið og á mörgum vinnustöðum er nú litið svo á að handleiðsla sé eðlilegur þáttur í starfseminni.

Flestir þekkja nauðsyn þess fyrir nýtt starfsfólk að fá leiðsögn í starfi, þjálfun og kennslu á ný vinnutæki og upplýsingar um vinnustaðinn, aðstöðuna og samstarfsfólk. Þegar rætt er um handleiðslu er ekki átt við þessa þætti. Þeir eru jafnnauðsynlegir hverjum nýjum starfsmanni, þó hann fái handleiðslu í starfi. Það sem átt er við með handleiðslu er að hverjum starfsmanni, sem vinnur fyrst og fremst með fólk og notar fyrst og fremst sjálfan sig sem vinnutæki er nauðsynlegt að vinna úr ýmsum þáttum, flækjum, óöryggi, skorti á styrk, uppgjöf, meðvirkni og mörgu fleiru, sem gerir vart við sig undir slíkum kringumstæðum. Til þess fær hann handleiðslu sér reyndari starfsmanns, sem jafnframt kann að vinna með fólk og kann handleiðslu.

Á milli 1930 og 1940 fór handleiðsla að þróast út frá áhrifum frá sálgreiningu og það voru fyrst og fremst fagmenn, sem höfðu tök á sálgreiningu eða svipaðri meðferðarvinnu, sem sinntu handleiðslu. Í dag er farið að líta á handleiðslufræði sem sérstaka fræðigrein og hlutverk handleiðara er skýrt aðgreint frá hlutverki meðferðaraðila. Fyrsta kennslubókin í handleiðslu kom út árið 1958 og þó mikil þróun hafi átt sér stað síðan í handleiðslufræðum, er grunnhugmyndafræðin enn sú sama. Það er hins vegar ekki fyrr en á allra síðustu árum, sem handleiðsla hefur öðlast fastan sess í starfi meðferðarstofnana og sambærilegra vinnustaða á Norðurlöndum. Hér á landi höfum við verið enn seinni, þó nú sé víða skipulagt handleiðslukerfi sem sérstakur hluti af stjórnun og rekstri vinnustaðarins.

Tilgangurinn með handleiðslu er að auka hæfni viðkomandi einstaklings til þess að takast á við starf sitt með fólk. Gera hann meðvitaðri um sjálfan sig og hvernig hans eigin tilfinningar, skoðanir, viðhorf, líðan o.fl. hafa áhrif á starf hans og hvernig sá sem hann er að vinna með hefur áhrif á hann til baka. Gera hann meðvitaðan um það samspil, sem alltaf á sér stað milli einstaklinga og hvernig það muni stýra honum ómeðvitað í starfi, ef hann er ekki meðvitaður um það og vakandi yfir því.

Yfirfærsla og gagnyfirfærsla, fordómar og meðvirkni, eru hugtök, sem mikið eru skoðuð í handleiðslu. Með yfirfærslu er átt við þau áhrif sem skjólstæðingurinn hefur á meðferðaraðilann og með gagnyfirfærslu er átt við þau áhrif sem meðferðaraðilinn hefur á skjólstæðinginn umfram það sem hann ætlar sér með meðferðinni. Með fordómum er átt við fyrirfram mótaðar skoðanir meðferðaraðilans á ýmsum þáttum í lífinu, sem síðan tengjast skjólstæðingnum vegna þess hver hann er eða vegna aðstæðna hans. Þannig geta fyrirfram mótaðar skoðanir meðferðaraðila á hommum (jákvæðar, neikvæðar eða hlutlausar) haft áhrif á hegðun hans og vinnubrögð gagnvart karlmanni, sem lítur út fyrir að vera kvenlegur, hvort sem hann er hommi eða ekki. Það sama gildir um fyrirfram mótaðar skoðanir á fátækt o.s.frv. Meðvirkni í meðferð orsakar það að meðferðaraðilinn getur ekki unnið á faglegan hátt með skjólstæðinginn vegna tilfinninga sinna til hans.

Enska hugtakið yfir handleiðslu, „supervision” er á margan hátt betur lýsandi fyrir fyrirbærið en íslenska hugtakið. Með því að skipta orðinu í tvennt þannig, „super vision” eða „yfir skynjun” eða „skynjun til hliðar við”, nálgumst við þá hugmynd að handleiðarinn á að geta skynjað þá stöðu sem hinn handleiddi er í vegna stöðu sinnar utan við aðstæður þess handleidda og án þess að vera þátttakandi í þeim. Sá sem handleiðir á þó ekki að hafa neina yfirskynjun, heldur fyrst og fremst að einbeita sér að yfirsýn yfir aðstæður þess handleidda og kenna honum.

Skilgreiningar á því hvað handleiðsla er eru enn nokkuð á reiki vegna ungs aldurs greinarinnar, enda eru til margar kenningar og mismunandi vinnuaðferðir, en framangreint lýsir innihaldi handleiðslu og um það eru menn að mestu sammála. Einnig greinir menn nokkuð á hvort sá handleiddi og sá sem handleiðir eigi að hafa sama fagheiti. Hitt eru menn sammála um að sá sem handleiðir þurfi að hafa þekkingu á þeim kröftum eða öflum, sem í gangi eru í mannlegum samskiptum og því hvernig fólk hefur áhrif hvort á annað í samskiptum sín á milli.