Handhreinsun í heilbrigðisþjónustu

Handhreinsun í heilbrigðisþjónustu er mikilvægasta sýkingavörnin

Í dag er alþjóðlegur dagur til að minna á mikilvægi handhreinsunar í heilbrigðisþjónustu. Frá árinu 2009 hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) staðið fyrir umbótaverkefninu „Save lives: Clean your hands“ sem hefur að markmiði að efla og bæta handhreinsun starfsfólks með margháttuðu fræðsluefni um handhreinsun í heilbrigðisþjónustu.

Verkefnið er í beinu framhaldi af verkefninu „Hreinlæti og örugg heilbrigðisþjónusta haldast í hendur“ (Clean care is safer care) sem hófst árið 2007, en heilbrigðisráðherrar fjölmargra þjóða, þar á meðal þáverandi heilbrigðisráðherra Íslands, undirrituðu þátttökuyfirlýsingu og skuldbindingu um að vinna gegn sýkingum í heilbrigðis-þjónustunni.

Skráning sýkinga á sjúkrahúsum, bæði hér á landi og erlendis, bendir til þess að tíundi hver sjúklingur fái svokallaða spítalasýkingu eða sýkingu sem hægt er að reka til heilbrigðisþjónustu. Bein snerting er algengasta smitleiðin og til að rjúfa hana þarf að þvo eða spritta hendurnar fyrir og eftir snertingu.

Handhreinsun heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga, jafnt þvottur og sprittun, er öflugasta vörnin gegn því að sýkingar komi upp í kjölfar heilbrigðisþjónustu. Það hefur verið margsannað með rannsóknum og flestum ljóst en einhverra hluta vegna hefur reynst misbrestur á að fólk þvoi eða spritti hendur sínar.

Verkefni Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar miðar að því að fá einstök sjúkrahús og heilsugæslustöðvar til að skrá þátttöku í átaki til að efla handhreinsun starfsfólks. Nú þegar hafa yfir 13 þúsund heilbrigðisstofnanir víðs vegar í heiminum skráð sig til þátttöku, en engin íslensk heilbrigðisstofnun gert það enn sem komið er. Þær stofnanir sem vilja taka þátt í átakinu geta gert það með skráningu á vefslóðinni:

http://www.who.int/gpsc/5may/register/en/index.html