Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir

Þröngsýni er ekki talinn kostur og það þykir ekki eftirsóknavert að staðna. Til að koma í veg fyrir stöðnun er mikilvægt að tileinka sér víðsýni og takast á við lífið með jákvæðum og opnum huga. Jákvætt og opið hugarfar eykur umburðarlyndi dregur úr fordómum og hjálpar okkur að halda áfram að þroskast út lífið. Það er ekki farsælt að halda fast í eigin skoðanir hvað sem á dynur. Mun farsælla er að hlusta á aðra í kringum sig með opnum huga og vera tilbúin að læra af þeim og endurmeta eigin skoðanir þegar það á við.

Þeir sem hafa mikla reynslu á einhverju sviði telja oft að þeir geti ekki lært mikið af öðrum. Langskólagengið fólk til dæmis, telur oft að það geti ekki lært mikið af þeim sem eru minna menntaðir en í því er fólgin ákveðin þröngsýni. Það er hægt að læra margt af fólki sem hefur minni menntun en maður sjálfur. Það er til dæmis hægt að læra margt af börnum, þau geta oft á tíðum hjálpað til við að koma auga á það sem mestu máli skiptir í lífinu og kennt öðrum að meta það. Sýn barnanna á heiminum er oft á tíðum skýrari og betri en þeirra sem eldri eru og því mikilvægt að vera opin fyrir því að læra af þeim.

Margir eiga einnig erfitt með að læra af þeim sem standa þeim næstir, foreldrum, maka, systkinum og vinum. Ef við hugsum út í það, þá er þetta fólkið sem í flestum tilfellum þekkir okkur best og því mikilvægt að geta lært af þeim eins og öðrum. Frá þessu fólki getum við lært margt um það hvernig við getum bætt okkur sjálf. Ef við þorum að taka við ábendingum þeirra og líta á þær jákvætt, í stað þess að taka þeim sem aðfinnslum, verðum við betri manneskjur fyrir vikið.

Það er mikilvægt að láta ekki stolt eða þrjósku koma í veg fyrir að við lærum meira og höldum áfram að þroskast. Að geta tekið við ábendingum frá öðrum, hverjum sem er ber vott um hugrekki, lítillæti og sjálfsöryggi og veitir okkur tækifæri til að þroskast áfram á einfaldan hátt.

 

Heilsan í brennidepli – Landlæknisembættið