Hafa óbeinar reykingar áhrif á heilsu fólks?

Að undanförnu hefur nokkuð verið rætt um það að löndin í námunda við okkur eru að gera alla vinnustaði reyklausa, þar á meðal veitinga- og skemmtistaði. Írar gerðu alla vinnustaði reyklausa í mars 2004, Norðmenn í júní sama ár og Svíar stíga skrefið 1. júní 2005. Þetta hefur einnig verið rætt hér á landi en málið fengið misjafnan hljómgrunn. En af hverju ættu allir vinnustaðir að vera reyklausir? Hefur það einhver áhrif á heilsu fólks að anda að sér tóbaksreyk frá öðrum? Hér á eftir verður reynt að svara þessum spurningum.

Rúm hálf öld er síðan fyrstu sannanir um skaðleg áhrif reykinga á heilsu komu fram en nú er einnig vitað að þeir sem búa eða vinna við óbeinar reykingar eru í aukinni hættu á fjölmörgum sjúkdómum, s.s. lungnakrabbameini, hjarta og- æðasjúkdómum og heilablóðfalli, og óbeinar reykingar valda einnig gjarnan óþægindum í augum, hósta, ógleði og jafnvel öndunarerfiðleikum. Nú er vel þekkt að í reyk sem myndast við bruna tóbaks (hliðarreyk) er meira af skaðlegum efnum en í þeim reyk sem reykingamaður fær ofan í sig við sog (meginreyk). Þar sem reykt er innanhúss verður reykmengun því að stærri hluta til úr þessum hættulegri hliðarreyk.

Starfsfólk veitingahúsa í sérstakri hættu

 

Starfsfólk veitingahúsa er sá hópur fólks sem er hvað mest í reykmettu umhverfi og er þess vegna í sérstakri hættu. Rannsóknir sýna að fólk sem vinnur á bar en reykir ekki er með svipaða þéttni nikótíns í blóði og fólk sem reykir daglega. Þá sýna rannsóknir einnig að fólk sem vinnur á börum og veitingahúsum er í allt að 50% meiri hættu en aðrir að fá lungnakrabbamein. Ófædd börn þungaðra kvenna sem vinna í reykmettuðu umhverfi eru einnig í sérstakri hættu. Lítil fæðingarþyngd og fyrirburafæðing er algengari ef óbeinar reykingar hafa haft áhrif á móðurina á meðgöngu og hættan fyrir barnið eykst eftir því sem óbeinu reykingarnar eru meiri og tíðari.

Núverandi löggjöf um reyklaus svæði og loftræstingar er ekki nægjanleg því starfsfólk þarf að vinna á reyksvæðum jafnt sem reyklausum, reykur berst á milli reyksvæða og svæða sem eiga að vera reyklaus auk þess sem loftræstibúnaður ræður ekki við að hreinsa tóbaksreyk úr andrúmsloftinu. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að með því að gera vinnustað alveg reyklausan þá losnar fólk, að stærstum hluta við óþægindi sem það fann fyrir á meðan að reykt var á vinnustaðnum.

Íslendingar færu jafnoft eða oftar á veitingastaði

 

Samkvæmt könnun Lýðheilsustöðvar, sem gerð var í maí árið 2004, reykja innan við 20% fólks á aldrinum 15-89 ára (sjá: www.lydheilsustod.is-Rannsóknir-Tóbaksvarnir). Aðrar nýlegar kannanir sýna að meirihluti fullorðinna Íslendinga er hlynntur alveg reyklausum veitinga- og kaffihúsum. Þær sýna að 86% svarenda færu jafnoft eða oftar á veitingastaði eða kaffihús væru þeir reyklausir. Aðeins 14% töldu að þeir færu sjaldnar. Athyglisvert er að 53% reykingafólks sagðist mundu fara jafnoft eða oftar á kaffihús og veitingastaði yrðu þeir reyklausir.

Í umræðu um reyklausa veitinga- og skemmtistaði koma gjarnan fram áhyggjur af hugsanlegum taprekstri og uppsögnum starfsfólks. Fjárhagsleg áhrif reykingabanns á veitinga- og skemmtistaði hafa verið skoðuð víða, t.a.m. í Bandaríkjunum, Ástralíu og Kanada, og er þar ekki að finna áreiðanlegar niðurstöður sem styðja þessar áhyggjur veitingamanna. Í New York borg, sem hefur bannað reykingar á veitingahúsum, jókst sala um tæp 9% fyrsta árið og 10.600 fleiri manns fengu starf í greininni, sem er mun meiri fjölgun en árin þar á undan (http://www.lydheilsustod.is/wp-content/uploads/2012/06/fraedsla//Jeff-Passive_smoke.ppt#16).

Hafirðu áhuga á að kynna þér enn frekar áhrif óbeinna reykinga og helstu rök fyrir því að allir vinnustaðir ættu að vera reyklausir þá er ítarlegri greinargerð um málið að finna á vef lýðheilsustöðvar: http://www.lydheilsustod.is/frettir/tobaksvarnir/nr/944