Hættur fyrir börn í nánasta umhverfi þeirra

Með hækkandi sól fara börnin að leika sér meira utandyra. Þar geta leynst ýmsar hættur og mikilvægt að foreldrar og aðrir sem eru með börnum séu vakandi fyrir þeim.

Byggingavinnustaðir

Á liðnum árum hafa mörg börn slasast alvarlega þegar að þau hafa komist óhindruð inn á byggingavinnusvæði til að leika sér. Þessir vinnustaðir eru mjög hættulegir börnum enda mörg þessara slysa lífshættuleg. Sem dæmi má nefna að lítil börn hafa drukknað í grunnum fullum af vatni. Börn hafa grafist undir moldarbörðum sem hrunið hafa yfir þau. Börn hafa fengið steypustyrktarjárn í gegnum líkamann svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir að til séu reglugerðir um að þessir staðir skulu afgirtir þá er því miður of mikið um að svo sé ekki. Það er því mikilvægt fyrir foreldra að ganga úr skugga um að ekki séu ógirt byggingavinnusvæði í næsta nágrenni við heimilið. Mikilvægt er að foreldrar setji sig í samband við byggingadeild sveitarfélagsins og láti vita um slík svæði.

Pollar og vatnssöfnun

Pollar geta verið skemmtilegir að leika sér í fyrir eldri börn eða börn sem hafa náð sjö ára aldri og eldri. Fyrir yngstu börnin getur pollur sem er 2-5 cm djúpur verið lífshættulegur. Dæmi er um að börn undir fjögurra ára aldri hafi drukknað í pollum hér á landi og börn nokkuð eldri drukknað í vatni sem safnast saman úti á víðavangi þegar að snjóa leysir. Það er því mjög mikilvægt að foreldrar fylgist vel með börnunum sínum.

Börn og umferð

Þegar fer að vora og börnin leika sér meira úti leggja þau oftar leið sína yfir umferðagötur eða eru í leikjum á þeim. Foreldrar og forráðamenn verða að brýna fyrir þeim að götur séu ekki leiksvæði og að þau verði að gæta sín á umferðinni. Ökumenn bifreiða og annarra farartækja þurfa að taka tillit til barna og haga akstri eftir aðstæðum sem endranær.

Sprautunálar á víðavangi

Fíkniefnaneytendur, sem sprauta sig í æð, fleygja stundum frá sér nálum og sprautum á víðavangi, t.d. á leikvöllum, göngustígum, almenningsgörðum og víðar. Hættan á því að barn smitist af alnæmisveiru eða öðrum blóðsmitandi veirum eins og lifrarbólguveirum, þegar það stingur sig á slíkri nál er sem betur fer ákaflega lítill en það veldur alltaf miklum sviða og áhyggjum.

Fyrirbyggjandi aðgerðir:

1. Börn ættu aldrei að leika sér berfætt í almenningsgörðum, á leikvöllum eða annars staðar úti.
2. Brýna ætti fyrir börnum að taka aldrei upp nál eða sprautu ef þau finna slíkt á víðavangi og einnig ætti að brýna fyrir þeim að segja fullorðnum frá því að þau hafi fundið slíka hluti.
3 Ef nál og sprauta finnst á víðavangi er mikilvægt að farga þeim eins fljótt og auðið er og með öruggum hætti til þess að draga úr hættu á því að nokkur geti stungið sig á slíkum nálum eða orðið útsettur fyrir blóði.

Besta aðferðin við að farga nálasprautu er:

1. Að verða sér úti um plastilát sem er það hart að sprautunálar geti ekki rofið það. Slík ílát eru t.d. gosflöskur eða ílát undir hreinsiefni.
2. Að láta ílátið á flatt stöðugt yfirborð, eins nálægt nál og sprautu og auðið er.
3. Að reyna ekki að setja hulsu á nálina. Taka upp sprautuna á endanum sem er fjærst skarpa endanum og láta hana falla í ílátið. Forðast skal að halda utan um ílátið á meðan að nálin og sprautan eru látin falla í það. Loka síðan ílátinu með skrúfutappa.
4. Og að lokum að þvo hendurnar með heitu sápuvatni. Hafa síðan samband við Sorpu um endanlega förgun efnisins.

Skyndihjálp – Hvað skal gera ef stunguóhapp verður?

1. Fjarlægja skal nálina úr húð barnsins sem hefur stungið sig.
2. Þrýsta skal hæfilega á sárið til að fá það til að blæða.
3. Þvo svæðið með volgu sápuvatni.
4. Setja á sótthreinsandi efni og síðan plástur.
5. Fara með barnið til læknis eða á bráðavakt spítala til að fá ráðgjöf.

Greinin er samvinnuverkefni Árvekni og Landlæknisembættisins.

Birt með góðfúslegu leyfi Árvekni og Landlæknisembættisins