„Hættum að reykja”

Reykbindindisnámskeið Krabbameinsfélags Reykjavíkur.

Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur um árabil haldið námskeið í reykbindindi. Þátttakendur á námskeiðunum hittast sex sinnum á fimm vikna tímabili. Áður en byrjað er á námskeiðinu er fólk boðað í viðtal (30 mín.) þar sem spurt er út í reykingasögu viðkomandi. Á námskeiðunum er m.a. fjallað um reyklaus svæði, fráhvarfseinkenni, langvarandi afleiðingar tóbaksneyslu, orsök tóbaksfíknar, streitu, hreyfingu og nikótínlyf. Fyrstu tveir fundirnir kallast undirbúningsfundir en þá er fólk hvatt til að mynda reyklaus svæði. Byrjað er að draga úr reykingum með því að fækka þeim svæðum sem reykt er á. Jafnframt er fólk að venjast þeirri ákvörðun að hætta að reykja. Það getur hjálpað fólki að hafa reyklaus svæði tilbúin á heimilum sínum sem nokkurs konar athvarf þegar reykingum er hætt. Þriðji fundurinn er H-dagur, „ég er hætt/ur að reykja” – fyrsti reyklausi dagurinn. Fólk hefur undirbúið sig í tvær vikur fyrir þennan dag en samt sem áður fylgir honum mikil spenna og er því fjórði fundurinn haldinn í sömu viku. Fólk hittist þá tvisvar með stuttu millibili fyrstu reyklausu dagana. Þannig fær það styrk og stuðning til að halda áfram í reykbindindi. Síðustu tveir fundirnir eru stuðningsfundir til þess að styðja fólk í gegnum fráhvarfseinkenni og styrkja það í ákvörðuninni að hætta að reykja.

Ábending til þátttakenda

Fyrir flesta er það heilmikið mál að hætta að reykja og marklaust að gera slíkt með hálfum huga. Þeir sem innrita sig á námskeið Krabbameinsfélagsins í reykbindindi verða að hafa eftirfarandi í huga:

  • Ætlast er til að komið sé á alla fundi.
  • Reynslan hefur sýnt að því betur sem mætt er á fundi þeim mun meiri líkur eru á að einstaklingurinn hætti að reykja.
  • Ætlast er til að fólk fylgi í einu og öllu leiðbeiningum um undirbúning.
  • Á meðan námskeiðið stendur og eftir að því lýkur geta þátttakendur fengið einkaviðtöl við leiðbeinanda ef þess gerist þörf.

Skráning

Leiðbeinandi á námskeiðunum er Alda Ásgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur og fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur.

Hægt er að skrá sig á námskeiðin í síma 540 1900. Einnig má senda inn skráningu með tölvupósti á netfangið alda@krabb.is.

Fyrir utan almenn námskeið er boðið upp á sérstök námskeið fyrir starfsfólk fyrirtækja. Innifalið í námskeiðsgjaldi, sem er 8000 krónur, eru námskeiðsgögn, viðtal við leiðbeinanda og eftirfylgni. Öryrkjar, ellilífeyrisþegar og hjón sem sækja námskeiðin er veittur afsláttur.

Vefur Krabbameinsfélagsins er krabb.is