Hættulegur hávaði – heyrnarskerðing hjá börnum og ungmennum

Það kannast sennilega margir við að hafa fengið suð eða són í eyrun eftir að hafa verið um tíma í mjög miklum hávaða. Slíkt getur komið yfir mann eftir dvöl á skemmtistað, leikfimitíma, (en margir kennarar hafa tilhneigingu til að stilla tónlistina allt of hátt), eða eftir rokktónleika. Oftast hverfur suðið eftir nokkra klukkutíma og við fáum aftur eðlilega heyrn en sumir fá varanlegan skaða. En hvernig skyldi staðan vera í þessum málum hjá börnum og unglingum? Ætli heyrnartap af völdum hávaða komi fyrir hjá þeim?
Samkvæmt nýrri bandarískri rannsókn er talið að 12,5% bandarískra ungmenna á aldrinum 6–19 ára, eða 5,2 milljónir, þjáist af einhverskonar heyrnarskaða sem rekja má til hávaða á rokktónleikum, frá flugeldum eða í sláttuvélum.

Bryndís Guðmundsdóttir heyrnarfræðingur hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands segir að erlendar kannanir hafi ennfremur sýnt fram á að heyrn barna kunni að hafa skaðast af völdum vasadiskóa. „Í nýlegri könnun sem gerð var á unglingum í Ástralíu og Noregi kemur fram að reglubundin notkun vasadiskóa hefur verulega neikvæð áhrif á heyrn. Rannsakendur telja að notkun slíkra tóla skaði heyrn á sama hátt og hávaði í iðnaðarumhverfi. Þá getur heyrnarskemmd, sem þegar er komin fram, versnað verulega með notkun vasadiskóa. Þá kom einnig fram að ef börnin höfðu haft þrálátar eyrnarbólgur virtist þeim hættara við að heyrn skertist af völdum hávaða.“ Bryndís telur að ástandið hér á landi sé síst betra og ákvað á síðasta ári að láta gera könnun á áhrifum vasadiskóa og tölvuleikja á heyrn ungmenna.

„Ég vildi láta kanna tölvuleikina líka því þar er oft mikill hávaði og smellir og skellir sem eru mjög varasamir fyrir heyrnina. Krakkarnir nota oft heyrnartól í tölvuleikjum og foreldrar eiga því erfitt með að fylgjast með hljóðstyrknum þar eins og við notkun vasadiskóa.“ Bryndís segir að niðurstaðna úr rannsókninni sé að vænta í vor og telur æskilegt að í framhaldinu verði farið af stað með forvarnarstarf. „Því miður hefur þessum málum verið allt of lítill gaumur gefinn hér á landi. Við pössum t.d. vel upp á að börn noti hlífðargleraugu á gamlárskvöld. Það þekkist hinsvegar varla að þau noti heyrnarhlífar á þessu kvöldi. En mikill og hvellur hávaði frá flugeldi getur skaðað heyrnina varanlega. Erlendis er mun lengra síðan farið var að rannsaka áhrif hávaða á heyrn barna og þar er t.d. nýlega farið að kanna hvort hávaði frá ýmsum leikföngum geti verið skaðlegur fyrir börn, einkum ungbörn.“

Hvenær fer hávaði að hafa áhrif á heyrn?

Bryndís segir að kannanir í Bandaríkjunum, Frakklandi og Ástralíu sýni að fólk á aldrinum 20–30 ára sé að meðaltali með svipaða heyrn í dag og fólk á aldrinum 50-60 ára hafði í kringum miðja síðustu öld. Heyrn fólks hafi því almennt versnað. Hún segir að þegar kemur að hávaða sem kunni að valda skemmdum skipti miklu máli hversu mikill hávaðinn sé og hversu lengi hann vari. „Hljóðstyrkur er mældur í desibelum og sá styrkur sem manneskja með eðlilega og heilbrigða heyrn nemur er um núll til tíu desibel. Desibelkvarðinn er lógaritmískur líkt og Richter kvarðinn fyrir jarðskjálfta þannig að hækkun um 1 dB er umtalsverð aukning á hávaða. Hljóðstyrkur sem veldur sársauka og þar með skaða er því um tíu billjón sinnum meiri en veikasti styrkur sem eyrað nemur.“ Bryndís segir að hægt sé að tala um hættulegan hávaða þegar hljóðstyrkur er í kringum 85 dB eða hærri. „Hljóðstyrkur í kringum 85 dB mælist t.d. við miklar umferðargötur eða á hávaðasömum vinnustöðum.

Heyrnin hjá flestum fer að skaðast eftir um átta klukkutíma í slíkum hávaða. Áhættan verður margfalt meiri þegar hávaði er í kringum 100 dB en þá líða að meðaltali ekki nema tvær klukkustundir þar til heyrnartap verður. Þá er hætta á að heyrnin skerðist eftir klukkutíma í hljóðstyrk upp á 105 dB og þegar hann er 110 dB er hætta á varanlegum heyrnarskaða eftir um hálftíma.“ Bryndís segir að börn og ungmenni geti hæglega stillt á hljóðstyrk upp á 105 dB þegar þau hlusta á vasadiskó án þess að átta sig á að þau séu að skaða heyrnina.

Þá er hægt að benda á að á tónleikum hljómsveitarinnar Rammstein í Laugardagshöllinni á síðasta ári mældu heilbrigðisfulltrúar hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hljóðstyrk upp á 111 dB á fyrri hluta tónleikanna og 114 á tónleikum hennar seinni daginn. Á tónleikum bresku sveitarinnar Coldplay í Laugardalshöll mældist hljóðstigið 103–108 dB. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur einnig safnað upplýsingum um hávaða á skemmtistöðum í borginni og þar kemur í ljós að algengt er að hljóðstyrkur tónlistar mælist um 100 dB. En hæsta hljóðstig sem hefur mælst á skemmtistað hér á landi er um 135 dB. Heilbrigðiseftirlitinu hafa einnig nýlega borist nokkrar kvartanir frá foreldrum vegna of mikils hávaða inni á skemmtistöðum. Einkum er kvartað vegna þess að unga fólkið hefur suð fyrir eyrum eftir veru á skemmtistað. Þess eru jafnvel dæmi að unglingspiltur hafi hlotið varanlegan heyrnarskaða eftir eina kvöldstund á skemmtistað. Læknar sem skoðuðu drenginn sögðust helst fá slík tilfelli eftir öflugar sprengingar. Þá virðast ungmenni eiga verulega á hættu að hljóta heyrnaskaða þegar þau sækja aerobiktíma en samkvæmt bandarískri rannsókn var hljóðstyrkur í kringum 105 dB í átta af hverjum tíu slíkum tímum. Hvernig skyldi ástandið vera hér á landi?

Hvernig skerðist heyrnin?

 

Bryndís segir að engin lækning sé til við heyrnartapi af völdum hávaða en bendir þó á að venjulega hljóti fólk tímabundinn skaða vegna hávaða, eins og suð eða són fyrir eyrunum til að byrja með. „Eyranu er skipt í þrjá meginhluta, ytra eyra, miðeyra og innra eyra. Hljóðhimnan við miðeyra nemur hljóðbylgjuna og leiðslukerfi miðeyrans magnar boðin og skilar þeim inn í innra eyra þar sem svokallaður kuðungur er.

Heyrnartaugin í innra eyra tekur síðan við skilaboðunum og flytur þau upp í heila. Oft er hægt að lækna skerðingu sem verður á starfsemi í ytra eyra, hljóðhimnu og miðeyra en hún getur verið vegna vökva eða sýkingar í eyra. En ef kuðungurinn í innra eyra verður fyrir skaða af völdum hávaða deyja hárfrumur þar og eyður myndast í frumusafninu sem veldur því að heyrnartapið er varanlegt. Þegar um tímabundið heyrnartap er að ræða hætta hárfrumurnar í kuðungnum að vinna um tíma, þær eins og lamast, en síðan jafna þær sig.“ Hún segir að yfirleitt valdi óhóflegur hávaði tímabundinni heyrnarskerðingu og fólk nái sér á um sólarhring. Sé fólk einnig í hávaðasamri vinnu komi hinsvegar að því að skaðinn verði varanlegur. Tímabundinn heyrnarskaði getur því verið undanfari varanlegs skaða.

Að þekkja einkennin

Bryndís segir að einstaklingurinn átti sig oft mun seinna en umhverfið á að hann hafi skerta heyrn. Hann viti hvað hann heyri en ekki hvað fari framhjá honum. Hún segir að heyrnarskert börn hvái oft mikið, svari ekki ef talað er til þeirra eða virðist ókyrr þegar þau séu í raun að skima eftir þeim sem er að tala. Í fjölmenni gerist gjarnan annað tveggja að barnið reyni að „taka völdin“ og stjórna leiknum eða það dragi sig út í horn með bók.

Hún segir að fyrstu málhljóðin sem hverfi vegna skemmdar af völdum hávaða séu s, g og þ. „Þá á barnið t.d. erfitt með að greina milli orða eins og fara, sara og þara eða önnur málhljóð sem byrja á þessum upphafsstöfum. Ef heyrnar-skemmdin er alvarlegri detta síðan út málhljóðin d, f, og h og að síðustu b, p, k og t. Barn eða unglingur með mikla heyrnarskemmd misskilur og misheyrir því oft það sem sagt er.“ Bryndís segir að tiltölulega lítil heyrnarskerðing hjá ungum börnum geti seinkað málþroska og bjagað tal þeirra, því skipti miklu máli að þekkja einkennin nógu snemma.

Áhrif á skólagöngu og samskipti

Bryndís segir að börn sem þjást af heyrnartapi geti verið ókyrr í skóla því þau þurfi gjarnan að snúa sér við í sætunum og horfa framan í þann sem talar til að skilja hvað hann segir. „Þá eiga þau oft erfitt með að greina orðaskil ef kliður er í skólastofunni. Þetta getur því haft veruleg áhrif á námshæfni þeirra.“ Bryndís segir ennfremur að þessi börn séu oft undir miklu álagi. Þau þurfi að spenna sig upp til að heyra hvað sagt er og fylgja kennaranum eftir til að greina hvað hann segir. Þau þjáist oft af höfuðverk, vöðvaspennu og þreytu. „Grunur leikur á að brottfall heyrnarskertra í framhaldsskólum sé hærra en hjá börnum með eðlilega heyrn. Þá verða heyrnarskert börn og unglingar oft félagslega einangruð. Þau meðtaka ekki skilaboð félaganna eða misskilja þannig að þau verða gjarnan utanveltu eða draga sig smám saman út úr hópnum.“

Forvarnir

 

Bryndís segir brýnt að almenn vitundarvakning verði í þjóðfélaginu um skaðsemi of mikils hávaða. „Foreldrar, forsvarsmenn skóla, félagsmiðstöðva, kvikmyndahúsa, skemmtistaða eða hvar sem börn koma verða að átta sig á skaðsemi hávaða og mikilvægi forvarna. Í Noregi fá til dæmis öll 13 ára börn bækling með leiðbeiningum um umgengni við hávaða. Þar er þeim bent á að þau þurfi ekki endilega að hætta að nota vasadiskó heldur sé mikilvægt að lækka í tólunum og takmarka tímann sem þau eru notuð.

Nýlega voru samþykkt lög þar sem kemur fram að Heyrnar- og talmeinastöð Íslands eigi að sjá um forvarnir þannig að forvarnarverkefni eins og Norðmenn hafa hrint af stað ætti að falla undir verkefni Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar.“ Þá segir hún mikilvægt að foreldrar passi upp á að börn og unglingar hafi græjur, vasadiskó og tölvuleiki ekki of hátt stillt. Foreldrar þurfi jafnvel að setja vissar reglur um hávaða og takmarka þann tíma sem börnin nota vasadiskó eða eru í tölvuleikjum. Þá verði þeir að brýna fyrir ungmennum að nota heyrnarhlífar ef þau eru t.d. í vinnu þar sem mikill hávaði er. „Heyrnarskerðing er eitt algengasta heilsufarsvandamál hér á landi. Með forvörnum og almennri vitundarvakningu í þessum efnum má koma í veg fyrir að stór hluti barna og ungmenna hljóti varanlega heyrnarskerðingu í framtíðinni,“ segir hún að lokum.

Birt með góðfúslegu leyfi uppeldi.is, en greinin birtist áður í tímaritinu Uppeldi.