Hægðatregða hjá fullorðnum

 

Hægðatregða er algeng og má skilgreina sem hægðalosun sjaldnar en 3svar í viku samfara
einkennum s.s. uppþembu og verkjum. Orsakir fyrir hægðatregðu eru margvíslegar.
Algengar orsakir hægðatregðu eru kyrrseta, trefjasnautt fæði og lítil vökvaneysla, en einnig
röskun á venjum t.d. við ferðalög. Hægðatregða getur einnig verið aukaverkun lyfja, t.d. valda verkjalyf sem innihalda kódein eða morfín, hægðatregðu. Mörg önnur lyf koma einnig til greina.
Hægðalyf geta t.d. valdið hægðatregðu ef þau eru misnotuð. Við meðferð hægðatregðu er
höfuðáhersla ávallt lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir, þar sem reglubundið líferni, dagleg
vatnsdrykkja, trefjarík fæða og hæfileg hreyfing eru aðalatriðið.

 

Lyfjaval

Eingöngu fyrir þá sem geta drukkið nóg vatn og eldra fólk sem ekki er rúmfast

Rúmmálsaukandi lyf (A 06 AC)

Semen Psyllii t.d. HUSK: 1 matskeið á dag með a.m.k. einu glasi af vatni.

Ef þessi meðferð virkar ekki eða þolist illa má reyna, eða bæta við

Hægðalyfi með osmótíska verkun (A 06 AD)

Sorbitol mixtúra

Laktúlósa mixtúra 15 – 30 ml í senn allt að 4 sinnum á dag.

og/eða

Lyf sem eykur þarmahreyfingar (A 06AB)

Senna, t.d. Senokot 1-2 töflur að kvöldi 3svar í viku.

Takmarka ber meðferð með Senna lyfjum við fyrirfram ákveðinn tíma.

 

Tvö síðastnefndu lyfin eru notuð við meðferð hægðatregðu hjá eldra
fólki sem er orðið lasburða og ekki er tryggt að drekki nóg af vatni.

Þá er meðferð hafin með M. Sorbitol og Senna bætt við ef þarf.

Ef rembingur er höfuðvandamál og erfiðleikar eru á að koma hægðum frá sér er hægt að nota,
auk ofangreindra lyfja.

Bísakódýl endaþarmsstíla t.d. Dulcolax, einn stíl að morgni eftir morgunverð, mest 3svar í viku.

Athugasemdir

Í byrjun getur þurft að losa um hægðir með þreifingu hjá einstaklingum með langvinna hægðatregðu
og uppsöfnun hægða í endaþarmi og ristli. Þá er losun hægða með rektal þreifingu fylgt eftir með:

Innhellislyfjum (A 06AG), en þau eru einnig notuð til að tæma þarma fyrir röntgenskoðanir eða
skurðaðgerðir.

Biskódýl – Toilax, Dókusat natríum – Klyx eða Lárýlsúlfat – Mícrolax

Heimildir

 1. Effectiveness of laxatives in adults University of York. NHS Centre for Reviews and Dissemination. Effectiveness of laxatives in adults..Effective Health Care 7(1): 12.
 2. Systematic review of the effectiveness of laxatives in the elderly. Petticrew M, Watt I, Sheldon T. Health Technology Assessment Vol.1: No.13 1997: 1(13) 53.
 3. SM Tramonte, NB Brand, CD Mulrow et al. The treatment of chronic constipation: a systematic review. Journal of General Internal Medicine 1997 12: 15-24.
 4. Locke GR, Pemberton JH, Phillips SF. American Gastroenterological Association medical position statement: guidelines on constipation. Gastroenterology 2000 Dec;119(6):1761-6.
 5. MeReC 1999; vol 190 no 9. "The management of constipation" http://www.npc.co.uk/
 6. Donatelle EP. Constipation: Pathophysiology and treatment. Am Fam Physician 1990;42:1335-1342
 7. Harari D, Gurwitz JH, Minaker KL. Constipation in the elderly. JAm Geriatr Soc 1993;41:1130-1140
 8. Cheskin LJ, Kamal N, Crowell MD, Schuster MM, Whitehead WE.
 9. Mechanisms of constipation in older persons and effects of fiber compared with placebo. J Am Geriatr Soc 1995;43:666-669
 10. Kot TV, Pettit-Young NA. Lactulose in the management of constipation: a current review. Ann Pharmacother 1992;26:1277-1282
 11. Passmore AP, Wilson-Davies K, Stoker C, Scott ME. Chronicconstipation in long stay elderly patients: a comparison of lactulose and a senna-fibre combination. BMJ 1993;307:769-771
 12. Puxty JAH, Fox RA. Golytely: a new approach to faecal impaction in old age. Age and Ageing 1986;15:182-184
 13. Harari D. et al. Correlates of Regular Laxative Use by Frail Elderly Persons. Am.J.of Med.1995;99(5):513-518.

Unnið 1998 af Jóni E Jónssyni, Einari Magnússyni og Sigurði Helgasyni og endurskoðað 1999 af Ingolf Pedersen og Sigurði Helgasyni.

Frá ritstjóra:

Nýleg úttekt á meðferð við hægðatregðu á meðgöngu á vegum Cochrane samtakanna sýndi að trefjar hefðu gagnleg áhrif. Jewell DJ, Young G. Interventions for treating constipation in pregnancy (Cochrane Review). In: The Cochrane Library, Issue 1, 2003. Oxford: Update Software. http://www.update-software.com/abstracts/ab001142.htm

Endurskoðað í apríl 2003. Sigurður Helgason

Greinin var fyrst birt á vef landlæknis.