Gyðingdómur

Þessi síða er hluti af ritinu Menningarheimar mætast

Áhrif trúar, menningar og arfleifðar á samskipti og meðferð innan heilbrigðisþjónustunnar

Gyðingdómur

Judaism

Gyðingdómur er eingyðistrú og byggir á Gamla Testamentinu og er því elst eingyðistrúarbragða í hinum vestræna heimi. Megininntak trúarinnar er að Guð er skapari veraldarinnar þar sem maðurinn er miðlægur. Hann vekur allt líf, viðheldur því og allt gott er frá honum komið. Ekki eru allir gyðingar jafn trúræknir eða fastheldnir á hefðir og spannar gyðingdómurinn allt frá strangtrúuðum gyðingum til frjálslyndra. Helst liggur munurinn í túlkun hópanna á lögmálinu, reglum um fæðuvenjur, viðhorfum til helgidaga og hvíldardagsins „sabbat “. Þess má geta að strangtrúaðir gyðingar bera það ekki alltaf með sér að þeir séu strangtrúaðir, þar sem margir þeirra klæðast, snyrta hár sitt og skegg eins og gengur og gerist meðan aðrir lúta ákveðnum hefðum í því sambandi.

Gyðingar hafa dreifst um allan heim og eru ekki bundnir einum kynþætti. Gyðingdómurinn er þannig ekki bara þjóð, heldur sambland af átrúnaði, þjóðerni og þjóð. Þeir líta svo á að barn fæðist sem gyðingur sé móðir þess gyðingur og að það verði eftir sem áður gyðingur þó það aðhyllist ekki gyðingatrúna síðar á ævinni. Venjulega ríkir sterk samkennd meðal gyðinga. Nokkrir tugir gyðinga eru búsettir á Íslandi.

Helgisiðir

Trúhneigðir gyðingar halda hvíldardaginn „sabbatinn“ heilagan, það er frá sólarlagi á föstudegi til sólarlags á laugardegi. Það má heita að hver einasti gyðingur hafi þá venju að kveikja á tveimur hvítum kertum og láti þau brenna út í tilefni sabbatsins sem tákn um sköpun Guðs. Misjafnt er þó hversu fast þeir halda í hefðir helgihaldsins þó svo að í augum flestra sé helgihaldið mikilvægt. Þeir strangtrúuðu forðast hvers kyns verk á hvíldardaginn, t.d. nota þeir ekki síma, horfa ekki á sjónvarp, nota ekki lyftur, kveikja ekki ljós, reykja ekki, snerta ekki peninga og ferðast ekki á hvíldardaginn, meðan þeir sem frjálslyndari eru láta sér fátt um finnast.

Gyðingar halda nokkrar meginhátíðir á ári af ýmsu tilefni sem tengist arfleifð þeirra. Má þar nefna nýárshátíðina og „yom kippur“ eða friðþægingarhátíðina sem haldnar eru í september eða október. Boðuð er ströng sólarhringsfasta áður en friðþægingarhátíðin gengur í garð, þ.e. frá sólarlagi til sólarlags. Ljósahátíðin eða „kanúkkah“ er haldin í desember og er þá venja að gefa börnum gjafir. Hátíðin á ekkert skylt við jól kristinna manna. Páskar eru ein meginhátíð gyðinga og eru þá hafðar í heiðri matarvenjur sem tengjast atburðum í sögu Gyðingaþjóðarinnar og gæta strangtrúaðir gyðingar þá sérstaklega að matarræði sínu.

Gyðingar fara jafnan með þakkarbænir fyrir og eftir máltíðir. Gera þarf ráð fyrir því og skapa þeim næði til þess.

Gyðingar trúa á ódauðleika sálarinnar og réttvíst endurgjald í öðrum heimi. Guðrækinn gyðingur fer með bænarorðin „Heyr, Ísrael, Drottinn, vor Guð, er einn Drottinn!“ (eða Shema Israel, Adonæ Elohenú, Adonæ Ekad) kvölds og morgna alla ævi sína. Þetta er fyrsta bænin sem hann lærir sem barn og sagt er að gyðingar deyi með þau orð á vörunum.

Strangtrúaðir karlmenn ganga jafnan með höfuðfat, einskonar kollu, og láta sér vaxa hár og skegg sem merki um trúrækni. Sumar konur ganga með hárkollu, slæðu eða hatt af sömu ástæðu. Þá nota sumir karlar bænasjal og bænakollur við bænir og bera bænatrefil innan klæða.

Drengir eru umskornir á 8. degi eftir fæðingu og gefur þá faðirinn drengnum nafn samkvæmt hefðinni. Fresta má umskurði ef heilsa barnsins leyfir hann ekki. Stúlkubörnum er gefið nafn strax við fæðingu. Gyðingar skíra ekki börn sín.

Lífshættir

Fæðuvenjur
Almennt leggja gyðingar mikið upp úr og halda fast við fæðuvenjur sínar bæði heima fyrir og meðan á sjúkrahúsdvöl stendur. Ákveðnar reglur gilda um fæðutegundir og meðhöndlun matar. Meðal annars neyta gyðingar ekki svínakjöts, afurða sem innihalda dýrafitu, né annarrar fæðu sem ekki er meðhöndluð samkvæmt gyðinglegum hefðum („Kosher hefð“). Þá blanda þeir ekki saman fæðutegundum eins og kjöti og mjólkurmat. Þeir neyta heldur ekki matar sem komist hefur í snertingu við fæðutegundir sem eru bannaðar, t.d. borða þeir ekki brauð sem bakað hefur verið í ofni sem svínakjöt hefur einhvern tímann verið steikt í. Þess má geta að það má finna ýmis matvæli sem framleidd eru samkvæmt „Kosher“ hér á landi og eru þau merkt með u inni í hring framan á pakkningunni.

Margir gyðingar borða aldrei kjöt en leggja áherslu á grænmeti, ávexti og fisktegundir sem eru með hreistur og ugga svo sem ýsu, þorsk, lax, karfa, s&iacut e;ld og túnfisk sé hann matreiddur einn sér en er ekki í salati. Þá borða þeir egg, smjör og mjólkurmat, en ekki íslenska osta þar sem þeir eru hleyptir með gerlum úr görnum kúa. Þeir borða brauð sem ekki inniheldur dýrafitu og er bakað í ofnum sem ætlaðir eru til brauðbaksturs og svo t.d. hrökkbrauð og kornfleks. Á páskum huga strangtrúaðir gyðingar sérstaklega að matarræði sínu og neyta einskis sem hefur gerjast svo sem brauðs eða gerjaðra drykkja.

Strangtrúaðir gyðingar nota ekki matardiska né hnífapör sem öðrum en strangtrúuðum er ætlað að nota. Nota má einnota áhöld þegar því er að skipta. Hafa verður í huga að frjálslyndir gyðingar halda ekki eins fast í þessar venjur og því best að hafa samráð við sjúklinginn um hvað gildir og hvað ekki.

Föstur
Sérstakar fæðuvenjur og föstur frá sólarlagi til sólarlags tengjast ákveðnum helgidögum. Undanskyldir föstu eru börn yngri en 15 ára og þeir sem samkvæmt læknisráði er ráðið frá því að fasta.

Hreinlæti
Það er litið svo á að konur séu „óhreinar“ meðan tíðablæðingar vara og meðan úthreinsun á sér stað eftir fæðingu. Þetta þýðir að konur halda sig til hlés þennan tíma. Að loknum tímabilinu baðar konan sig samkvæmt sérstakri venju. Skegg strangtrúaðra er snyrt með skærum eða rafmagnsrakvél, en ekki með rakvél, þar sem hvorki rakvéla- eða hnífsblað má snerta húðina. Því ætti helst að nota rafmagnsrakvél, ef því verður við komið, t.d. við undirbúning á skurðsvæði.

Hreyfing
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við gyðinga sem lýtur að hreyfingu.

Áfengi og aðrir vímugjafar
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við gyðinga sem lýtur að áfengi og öðrum vímugjöfum.

Reykingar
Gyðingar reykja ekki á hvíldardaginn.

Viðhorf til fjölskyldunnar

Fjölskyldubönd eru sterk og með því að rækta fjölskyldu sína sýnir gyðingurinn rækt við uppruna sinn. Heimilið í augum trúaðra gyðinga er miðstöð trúarlífsins og skyldurnar við fjölskylduna eru helgar.

Viðhorf til sjúkdóma og meðferðar

Viðhorf gyðinga til hefðbundinna læknismeðferða er ekki svo frábrugðið því sem við eigum að venjast. Meginviðhorf þeirra er að lífið er æðra öllu og því er í lagi að víkja frá trúarhefðum og siðum ef líf er í húfi.

Almennt gildir að halda rannsóknum, aðgerðum eða öðrum meðferðum á hvíldardaginn eða á öðrum hátíðisdögum gyðinga í lágmarki. Hvíldardagurinn hefur mismikið vægi eftir því hvort í hlut eiga strangtrúaðir eða frjálslyndir gyðingar.

Gyðingar leggja mikla áherslu á alla meðferð sem varðveitir lífið.

Orsakir sjúkdóma
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við gyðinga sem lýtur að orsökum sjúkdóma.

Getnaðarvarnir
Almennt eru gyðingar ekki á móti notkun getnaðarvarna, sér í lagi þegar heilsa viðkomandi konu kallar á slíkt.

Fóstureyðingar
Gyðingdómur er einungis samþykkur fóstureyðingum ef líf móðurinnar er í hættu.

Meðganga
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við gyðinga sem lýtur að meðgöngu, nema það sem fram kemur undir samskipti.

Líffæraflutningar
Almennt viðhorf gyðinga er að leita beri allra leiða til að bjarga mannslífi og eru þeir því samþykkir líffræraflutningum. Annað kann þó að gilda um mjög strangtrúaða gyðinga.

Verkjameðferð
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við gyðinga sem lýtur að verkjameðferð.

Blóðgjafir
Ekkert sérstakt hefur komið fram í gögnum eða viðræðum við gyðinga sem lýtur að blóðgjöf.

Krufningar
Almennt eru gyðingar mótfallnir krufningu og eru jafnvel tilbúnir að fórna öðrum hagsmunum, eins og til dæmis tryggingarfé, fremur en að fram fari krufning. Til að krufning sé réttlætanleg þurfa sérstakar ástæður, s.s. réttarlæknisfræðilegar, að liggja að baki eða að niðurstaða krufningar geti leitt til björgunar á mannslífi. Ef krufning er gerð verða allir líkamshlutar að fylgja í greftruninni.

Snerting

Strangtrúaðir karlmenn snerta ekki aðrar konur en eiginkonu, dætur og móður. Rétt er að hafa það í huga þegar heilbrigðisstarfsfólk sýnir hluttekningu sína við andlát, að handaband eða faðmlag kann að vera óviðeigandi. Í reynd gildir t.d. almennt í samskiptum við gyðinga að óskyldur einstaklingur af gagnstæðu kyni snertir ekki viðkomandi þegar sýnd er hluttekning.

Samskipti

Oftast er aðskilnaður kynjanna ekki mikilvægur þegar lítur að samskiptum innan heilbrigðiskerfisins, þannig að inngrip og umönnun getur verið framkvæmd af einstaklingum af gagnstæðu kyni. Þó kunna einstaka strangtrúaðir gyðingar að óska eftir að verða skoðaðir af lækni af sama kyni. Þetta á t.d. við um strangtrúaðar konur á meðgöngu.

Umönnun sjúkra og deyjandi

Við umönnun sjúkra og deyjandi er ekki venjan að gera sér stakar ráðstafanir aðrar en þær sem gilda jafnan við slíkar aðstæður á sjúkrahúsi eða í heimahúsi. Sérstakar óskir gætu þó komið fram sem tengjast menningar eða trúarhefðum.

Heimsóknir ættingja og vina fela í sér trúarskyldur við sjúklinginn. Er þá gjarnan lesið úr helgiritum og bænir beðnar. Mikil áhersla er lögð á að sjúklingur deyi ekki einn, að einhver sé til staðar þegar sál sjúklingsins yfirgefur líkamann.

Ekki á að snerta líkið í smá tíma eftir andlát. Samkvæmt hefðinni er það talið æskilegt, ef því verður við komið, að ættingjar eða einstaklingar úr samfélagi gyðinga sjái um umönnun eftir andlát. Samkvæmt strangtrúarreglum er gyðingum ekki leyfilegt að búa um lík á hvíldardeginum og kæmi það því í hlut hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða að sjá um frágang á hefðbundinn hátt. Algengt er að ættingjar og vinir skiptist á að sitja hjá líkinu þar til það er borið til grafar.

Umhverfi

Gyðingar eru vanir að kveikja á tveimur hvítum kertum við upphaf hvíldardagsins eða við upphaf hátíða og láta þau brenna út. Ef sjúklingurinn óskar eftir að kveikt sé á kertum hjá honum, og aðstæður leyfa það, verða aðstandendur hans að gera það geti hann það ekki sjálfur. Það nægir ekki að heilbrigðisstarfsfólk geri það. Nota má hvít spritt kerti.

Gyðingar bera jafnan fram þakkarbænir fyrir og eftir máltíðir svo gera þarf ráð fyrir því og skapa þeim næði til þess.

Krosstákn með Kristi samræmist ekki trúarviðhorfum Gyðinga.

Útför og greftrun

Gyðingar eru venjulega bornir til grafar sem fyrst, helst samdægurs ef því verður við komið. Gyðingar þiggja þjónustu útfararstofa. Útförin getur farið fram í kirkju eða samkomusal og eru þá gerðar viðeigandi ráðstafanir varðandi umhverfi og muni. Frjálslyndir gyðingar leyfa bálför meðan strangtrúaðir gyðingar eru á móti henni. Eftir jarðaförina fer sjö daga sorgartími í hönd hjá fjölskyldunni og fer fjölskyldan þá ekki út þann tíma nema til að taka þátt í helgihaldi.

Eitt megineinkenni hvers gyðinglegs samfélags er hið svokallaða „heilaga bróðerni“ (Kevrat Kadisha) en meðlimir samfélagsins líta á það sem heiðursskyldu við hinn látna að sjá um kistulagningu og greftrun. Slíkt samfélag er ekki enn til hér en dæmi er um að gyðingar búsettir hér á landi hafa tekið að sér að jarðsyngja trúsystkin sín.

Birt með góðfúslegu leyfi Landlæknisembættisins, Landspítala-háskólasjúkrahúss og höfunda