Guillian-Barré syndrome GBS

Hvað er Guillian-Barré Sjúkdómur (GBS)?

Guillian-Barré sjúkdómur er bólgusjúkdómur sem leggst á úttaugakerfið, þ.e. taugarnar utan heila og mænu. Sjúkdómurinn byrjar yfirleitt með skyndilegu máttleysi, lömun í fótum, höndum, öndunarfærum eða andliti. GBS er algengasta ástæða skyndilegrar lömunar í Bandaríkjunum í dag, en sjúkdómurinn nær til 1-2 af hverjum 100.000 íbúum Bandaríkjanna. Gera má ráð fyrir að hlutfallið sé svipað hér á landi.

Sjúkdómurinn uppgötvaðist sem slíkur 1976 eftir að 500 Bandaríkjamenn sem höfðu fengið svokallað ,,Swine-flu“ bóluefni veiktust. Bóluefnið var gefið yfir 40 milljónum manna á u.þ.b. 11 vikum haustið ’76 en það var hætt að gefa það þegar í ljós kom að það hafði  ,,framkallað” þennan sjúkdóm í ca. 500 manns, en af þeim létust 25.

Sjúkdómurinn byrjar gjarnan með máttleysi og/eða einkennilegri viðkvæmni í fótum og höndum. Jafnframt getur sjúkdómurinn haft áhrif á vöðva í brjóstholinu, andliti og augum. Þó mörg tilfelli séu væg, þá verða sumir sjúklingarnir nánast lamaðir. Öndunarvöðvarnir geta verið svo slappir að einstaklingur þurfi öndunarvél til að anda. Margir sjúklinganna þurfa að vera á gjörgæslu til að byrja með, sérstaklega ef öndunarvöðvarnir veikjast og einstaklingurinn þarf öndunarvél. Þó flestir einstaklingar jafni sig, þá er lengd sjúkdómsferilsins óútreiknanleg og oft þurfa einstaklingarnir að vera á sjúkrahúsi í nokkra mánuði. Flestir sjúklinganna jafna sig nánast alveg og geta aftur lifað eðlilegu lífi og gert það sem þeir gátu áður, en sumir finna þó hægan bata og einstaka sjúklingur er áfram bundinn við hjólastól um ótiltekinn tíma.

Ástæða fyrir GBS er ekki vituð og það er engin árangursrík meðferð til.

Hvernig er GBS greint?

Oft er hægt að greina sjúkdóminn með líkamsskoðun og sögu. Skyndilegt máttleysi eða lömun útlima, ásamt einkennilegri tilfinningu í báðum útlimum jafnt er algeng. Missir á ósjálfráðum viðbrögðum s.s. í hné fylgir yfirleitt. Til að staðfesta sjúkdómsgreiningu er yfirleitt tekinn mænuvökvi og greindur. Er þar leitað eftir því hvort um sé að ræða hækkun próteina, loks eru tauga- og vöðvapróf gerð til staðfestingar.

Hvernig er GBS meðhöndlað?

Vegna þess hvað gangur sjúkdómsins er óútreiknanlegur í byrjun, er nýgreint fólk yfirleitt lagt inn á sjúkrahús til eftirlits, jafnvel inn á gjörgæslu ef sjúkdómurinn virðist ætla að hafa áhrif á öndunarfæri.

Umönnun felst fyrst og fremst í almennri umönnun og eftirliti. Það fer mikið eftir því hversu alvarlega sjúkdómurinn leggst á einstaklinginn hversu mikillar umönnunar er þörf. Í sumum tilfellum er reint að hreinsa blóðið og gefa immunóglóbulín í stórum skömmtum til að stytta tímann sem það tekur sjúkdóminn að ganga yfir.

Fljótlega eftir að sjúklingar eru komnir á sjúkrahús og sjúkdómurinn kominn í jafnvægi er hafin endurhæfing. Endurhæfingin felst í því að virkja aftur taugaboð og ýta undir sjálfráðar hreyfingar eftir því sem taugaboðin virkjast á ný.