Grindarverkir á meðgöngu

Af hverju stafa grindarverkir?

Á meðgöngu myndast hormón í fylgjunni sem hefur það hlutverk að búa líkamann undir fæðingu barnsins. Þetta hormón kallast Relaxín og hefur þau áhrif að mjúkvefir líkamans verða teygjanlegri og mýkri en vanalega. Allir liðir líkamans verða lausari í sér, vöðvar slakari og húðin mýkri. Meira að segja liðir sem venjulega eru lítið hreyfanlegir, eins og spjaldhryggurinn og lífbeinið, verða mjúkir og lausir í sér og nuddast því saman við hreyfingu. Þetta er orsök þess að margar konur finna fyrir verkjum í mjaðmagrindinni á meðgöngu. Verkirnir eru yfirleitt mest áberandi í lífbeininu og spjaldhryggnum. Þeir versna ef konan setur skekkju á mjaðmagrindina eins og t.d. við að snúa sér í rúminu, skúra gólf eða ganga upp stiga. Oft leiða verkirnir niður í rasskinnar, yfir mjaðmirnar og út í nárana. Í flestum tilvikum eru verkirnir vægir og unnt að halda þeim niðri með réttri líkamsbeitingu og hvíld. En einstaka kona fær það mikla verki að þeir hindra eðlilega hreyfingu og trufla verulega hennar daglegu störf. Þá er talað um að kona sé með grindarlos. Það eru liðbönd mjaðmagrindarinnar sem geta valdið verkjum á meðgöngu

Grindarlos

Grindarlos getur gert vart við sig snemma á meðgöngu og staðið yfir þar til löngu eftir að konan hefur fætt. Verkirnir hamla konunni í daglegum störfum og hafa áhrif á allt hennar líf og þeirra sem standa henni næst. Kona með grindarlos þarf því mikla hjálp og stuðning.

Hvernig er best að bregðast við grindarlosi?

Ef þú finnur fyrir grindarverkjum, ráðfærðu þig þá við ljósmóðurina sem annast þig í mæðravernd eða lækninn þinn. Ennfremur er það góð hugmynd að ræða við sjúkraþjálfa til að fá leiðbeiningar um vinnustellingar og hreyfingar og einnig gefa þeir oft meðferð eins og heita bakstra, nudd og æfingar.

Til eru ýmis ráð og hjálpartæki sem draga úr einkennum og geta stundum fyrirbyggt að ástandið versni.

Nauðsynlegt er að draga úr daglegum heimilisstörfum því allt sem setur skekkju á grindina, eins og að skúra, ryksuga, keyra innkaupakörfu, ganga stiga og fara inn og út úr bíl eykur verkina. Aðrir fjölskyldumeðlimir verða því að leggja harðar að sér og mikilvægt er að þínir nánustu geri sér grein fyrir að þetta ástand getur varað langt fram yfir fæðingu.

Flestar konur kjósa að eignast snúningslak í rúmið. Það er lítið þverlak úr efni sem er sleipt öðru megin og er síðan brotið saman þannig að sleipu hliðarnar snúa saman. Þá renna þær saman þegar konan snýr sér í rúminu og hún þarf því ekki að spyrna í.

Dýnan í rúminu þarf að vera hæfilega mjúk en þó þannig að hún styðji vel við líkamann.

Meðgöngubelti sem styður við mjaðmir og spjaldliði getur hjálpað sumum konum.

Oft getur verið gott að fara í sund. Vatnið gerir þig léttari og tekur þungann af fótum og mjaðmagrind. Það heldur líka vel að grindinni og auðveldar þér hreyfingu. Hitinn í vatninu dregur líka úr verkjunum og auðveldar slökun.

Ef grindarlosið er mjög slæmt getur þurft að nota hækjur til að létta álaginu af grindinni.

Yfirleitt þurfa konur sem þjást af grindarlosi að draga úr eða hætta alveg vinnu. Þó fer það eftir því hvernig vinnu þær stunda og hversu illa haldnar þær eru. Athugaðu hver réttur þinn er varðandi veikindadaga og sjúkradagpeninga og ræddu það við lækni í mæðravernd.

Hefur grindarlos áhrif á gang fæðingarinnar?

Þótt þú hafir grindarlos á meðgöngu á það ekki að koma í veg fyrir að þú getir fætt á eðlilegan hátt. Ýmislegt þarf þó að hafa í huga bæði varðandi hreyfingu og stellingar í fæðingu og einnig hvað varðar verkjameðferð. Flestum konum hentar vel að vera uppréttar og á hreyfingu í fæðingunni. Gott er að nota háa göngugrind eða rúmið í hæstu stöðu til að “hanga” á. Það er mikilvægt að nota engar stellingar sem “glenna” út grindina, eins og að sitja á hækjum sér eða liggja á bakinu og draga að sér fæturna. Mörgum konum með grindarlos finnst gott að vera á fjórum fótum í sjálfri fæðingunni.

Á sumum stöðum er boðið upp á vatnsböð sem verkjameðferð í fæðingu og reynist það mjög gott fyrir konur með grindarlos – líkt og sundlaug. Nudd og slökun eru einnig góðir kostir. Misjafnt er hvort mænurótardeyfing (epidural) er talin heppileg fyrir konur með grindarlos. Hættan er sú að ef þú ert alveg dofin, finnir þú ekki fyrir grindinni og farir því í stellingar sem setja of mikið álag á hana, án þess að þú finnir fyrir því. Þegar svo deyfingin fer úr eru verkirnir mun verri en áður og þú getur verið lengur að jafna þig.

Hvernig eru horfurnar?

Það fer eftir því hversu mikil einkennin hafa verið og hversu lengi grindarlosið hefur varað hvernig batinn gengur. Oft er sagt að búast megi við að verkirnir vari jafn lengi eftir fæðinguna eins og fyrir hana. Það dregur sm&aa cute;m saman úr þeim og úthald og hreyfigeta eykst að sama skapi. Flestar konur jafna sig á fáeinum vikum þótt sumar konur þurfi einhverja mánuði til að jafna sig. Einstaka kona finnur fyrir grindinni mun lengur, jafnvel árum saman.

Árið 1998 var stofnað félag áhugafólks um grindarlos (FAG) sem veitir upplýsingar og stuðning, en í því eru bæði sjúkraþjálfarar og konur sem hafa reynslu af grindarlosi.