Grindarlos á meðgöngu og eftir fæðingu .

Undanfarin ár virðist tíðni grindarloss meðal þungaðra kvenna hafa aukist. Það má velta fyrir sér ýmsum ástæðum þess, en ekkert hefur sannast afgerandi í þeim efnum.

Mikilvægt er að konunni sé sýndur skilningur og að hún viti að einhverja hjálp sé að finna til að létta undir einkennunum.

Ákveðnar hormónabreytingar eiga sér stað á meðgöngu. Liðbönd slakna eðlilega í kjölfar þungunar til að mjaðmargrindin geti gefið eftir þegar fóstrið stækkar og fæðingarvegurinn víkkar. Oftast finna konurnar ekki svo mikið fyrir þessum breytingum, en vissar konur geta orðið fyrir talsverðum og jafnvel miklum óþægindum í mjaðmargrindinni.

Skilgreining:

Við tölum um grindarlos eða grindargliðnun ef verkirnir eru farnir að há konunni verulega í hennar daglega lífi.

Einkenni:

Einkenni grindargliðnunar geta verið mismunandi því að þau eru tengd álagi. Einkennin eru ýmist framanvert í lífbeini og/eða aftanvert í spjaldlið eða spjaldliðum. Leiðsluverkir geta verið út í mjaðmir, rassvöðva, niðureftir aftanverðu læri eða framan í nára svo eitthvað sé nefnt. Þetta getur verið í annarri hliðinni eða báðum megin.

Það sem einkennir verki frá liðböndum er að verkurinn kemur eftir álag. Einkennin geta því verið breytileg frá degi til dags eftir því hvert álagið hefur verið. Allt þetta þýðir að oft á konan erfitt með að tengja verkina við það sem hún hefur verið að gera.

Liðböndin segja til sín ef lengi er verið í sömu stöðu hvort sem um sitjandi, standandi eða liggjandi stöðu er að ræða. Best er að geta skipt um stöður reglulega og hafa gott jafnvægi milli hvíldar og hreyfingar.

Tíðni:

Hér komum við einmitt að því hvers vegna tíðni grindarloss hefur hugsanlega aukist. Ekki er ólíklegt að konur finni meira fyrir þessum einkennum í dag því að algengara er að þær vinni utan heimilis en áður var. Nú þurfa þær að sitja við skrifstofustörfin, standa við afgreiðsluborðið eða færibandið o.s.frv. í fleiri tíma á dag án þess að hafa möguleika á að breyta um stöður eftir því sem líðanin er hverju sinni. Húsmóðirin ræður sér meira sjálf, getur setið og staðið á víxl við húsverkin og jafnvel lagt sig smástund þegar þreytan er farin að segja til sín. Hjá útivinnandi konum getur lausnin verið að stytta vinnudaginn eða breyta um verkefni innan sama fyrirtækis svo að fjölbreytnin verði meiri ef möguleiki er á því. Ekki er ólíklegt að tíðnin hafi líka aukist vegna aukinnar þekkingar heilbrigðisstarfsmanna og almennings á vandamálinu. Konur leita sér meiri hjálpar í dag og bera frekar upp vandamál sín en áður. Þessir þættir auka auðvitað á tíðnina, en varast ber þó að ofgreina vandamálið.

Oft er alls ekki um grindarlos að ræða, heldur geta þetta e.t.v. verið verkir frá stoðkerfinu, bakvöðvum eða mjaðmargrindarvöðvum. Oftast er þetta þá sökum breyttrar líkamsstöðu þegar konan fer að þyngjast og verða framsettari. Mikilvægt er að greina vandamálið sem fyrst til að grípa inn í ferlið og gefa viðeigandi ráð eða meðferð.

Ef grindarlos hefur átt sér stað getum við líkt því við tognun á ökkla. Við þurfum að hvíla tognunarsvæðið með því að hindra að mikil hreyfing verði á viðkomandi svæði. Það þýðir ekki að konan hætti að hreyfa sig, heldur beiti líkamanum og hagi sér á ákveðinn hátt. Með þessu minnkum við verki og komum einnig í veg fyrir að einkennin aukist meira en komið er. Það er því nauðsynlegt að konan noti rétta líkamsbeitingu, leiðrétti líkamsstöðuna eins og kostur er, virði sársaukann og þekki sín takmörk. Ákveðin hjálpartæki og sérhæfðar æfingar geta komið að gagni. Sjúkraþjálfun getur því verið leið til að létta á einkennunum.

Ef konan finnur fyrir einkennum í mjóbaki eða mjaðmargrind á meðgöngu ætti hún að taka upp vandamálið hjá sínum lækni eða þeirri ljósmóður sem hún gengur til í mæðraeftirlitinu. Læknirinn og/eða ljósmóðirin geta gefið ýmis ráð, en ef þau telja að hér þurfi frekari skoðunar, fræðslu og/eða meðferðar við beina þau konunni frekar til sjúkraþjálfara. Sama er að segja eftir fæðingu.

Horfur:

Flestar konur losna sem betur fer við einkennin fljótlega eftir fæðingu. Algengt er að það geti þó tekið 6-12 vikur að ná sér smám saman. Sumar konur halda þó áfram að hafa verki við og eftir ákveðið álag eða við egglos og blæðingar. Þær þurfa þá oft að sætta sig við það með því að hlusta á viðvörunina, sem er verkurinn, og velja sér lífsstíl eftir því. Hér er mikilvægt að passa líkamsstöðuna, beita líkamanum rétt og halda sér við með ákveðinni þjálfun eins og að ofan greinir. Því miður eru einstaka konur sem finna fyrir verkjum daglega löngu eftir fæðingu og losna aldrei við þetta. Þessar konur þurfa á verkjameðferð að halda auk fræðslu, hjálpartækja og æfingameðferðar.

 

Hvað gerir sjúkraþjálfarinn?

Sjúkraþjálfarinn byrjar á að hlusta á konuna lýsa einkennunum. Sjúkrasagan segir okkur mikið. Að því loknu skoðum við líkamsstöðuna, athugum hugsanlegar skekkjur og gerum ýmis próf til að staðfesta eða útiloka grun okkar um grindarlos.

Ef við greinum grindarlos getur mjaðmargrindin hafa færst úr stað. Það þýðir að við getum þurft að losa um skekkjuna og fylgja því eftir með mjúkvefjameðferð og sérhæfðum æfingum. Æfingarnar miðast við að styrkja og veita stöðugleika kringum mjaðmargrindina. Auk þess er mikilvægt að teygja mjaðmargrindarvöðvana, en þeir eru undir stöðugu álagi þar sem þeir taka við hlutverki liðbandanna til að halda mjaðmargrindinni sem mest stöðugri.

Sjúkraþjálfunin getur því innifalið meðferð ef ástæða reynist til, þ.e. verkjameðferð sem er ýmist mjúkvefjameðferð með eða án liðlosunar auk æfingameðferðar.

Ef viðkomandi kemur til okkar áður en einkennin komast á alvarlegt stig getur nægt að gefa ráð um líkamsbeitingu og æfingar auk hugsanlegra ábendinga um hjálpartæki til að létta á einkennunum. Hægt er að taka upp meðferð síðar ef leiðbeiningarnar duga ekki til. Sama gildir eftir fæðingu.

Ef konan hefur fengið beiðni hjá lækni um sjúkraþjálfun er henni í sjálfsvald sett hvert hún leitar. Við tímapöntun er rétt að hún gefi upp hvert vandamálið er svo að hún fái þjálfara sem hefur þekkingu eða reynslu í þessum efnum.

Ég vil að lokum benda á bækling um grindarlos sem sjúkraþjálfarar hafa gefið út. Þessi bæklingur hefur að geyma ýmis ráð sem gætu komið að gagni. Hægt er að nálgast bæklinginn á ýmsum heilsugæslustöðvum og á skrifstofu FÍSÞ í Lágmúla 7.

Úrdrátt úr honum er að finna á Doktor.is undir heitinu Grindarlos.

Erna Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari
Sjúkraþjálfun Styrkur ehf,
Stangarhyl 7, 110 Reykjavík