Glerungseyðing tanna

Hver eru áhrif sýrueyðingar?

Hin síðari ár hefur í vaxandi mæli orðið vart við eyðingu glerungs af yfirborði tanna. Hún orsakast af sýru sem situr við yfirborð tannanna og leysir upp glerunginn. Sýran kemst í munninn eftir mörgum leiðum og er fyllsta ástæða fyrir alla að gera sér grein fyrir þeim þáttum sem því valda.

Greina má glerungstæringu á því að glerungsfletir tungumegin á tönnum eyðast. Form tannanna breytist og oft verður vart meiri kulvísi. Fyllingar í jöxlum virðast rísa upp yfir glerunginn sem áður var þeim jafnhár. Glerungur framtanna eyðist mun hraðar að innanverðu og verða tennurnar þá mjög þunnar í bitkantinn og fer jafnvel að brotna eða flísast úr þeim.

Orsakir sýrueyðingar

Í fyrstu var talið að orsaka sýrueyðingarinnar væri eingöngu að leita í súru magainnihaldi sem ropað væri upp í munninn. Þetta getur vissulega átt sér stað en er mun sjaldgæfara en talið var. Einstaklingar sem ropar sífellt upp súru magainnihaldi, og hafa jafnvel gert það frá blautu barnsbeini, gera sér sjaldnast grein fyrir að þetta er ekki eðlilegt.

Stuðpúðavirkni munnvatns

Munnvatnið gegnir stóru hlutverki í að breyta sýrustigi munnsins og draga úr skaðsemi þess. Í heilbrigðum einstaklingi getur munnvatnið aðlagað sýrustig þannig að uppleysiáhrif súrra drykkja sé í lágmarki. Þetta nefnist stuðpúðavirkni. Í rannsókn á einstaklingum sem voru með glerungstæringu kom í ljós að liðlega helmingur þeirra hafði lélega stuðpúðavirkni munnvatns.

Sýrustig í drykkjum

Með breyttum neysluvenjum hefur glerungseyðing orðið meira áberandi. Þegar vatn og mjólk voru okkar helstu drykkjarföng og súrir ávextir sjaldgæfari var hættan á sýrueyðingu mun minni. Kannanir sýna að um 30% þess vökva sem landsmenn neyta er í formi gosdrykkja. Auk þess hefur neysla ávaxtasafa, bæði hreinna og blandaðra, aukist verulega.

Að hafa gos við hendina og dreypa á allan daginn hefur mun verri áhrif heldur en að þamba drykkinn á stuttum tíma. Einnig ber að hafa í huga að ávaxtasafar eru mjög súrir. Sítrónusýra hefur til dæmis svipað sýrustig og flestir gosdrykkir og hefur eiginleika til að leysa upp glerung. Vatn, mjólk og undanrenna valda litlum eða engum skaða á glerungi og tönnum.

Ert þú í áhættuhópi?

Nauðsynlegt er að vera sér meðvitaður um áhrif þeirra drykkja og fæðutegunda sem við neytum daglega. Sért þú í áhættuhópi vegna sýrueyðingar, skaltu ræða það við tannlækninn þinn. Uppgötvist skaðinn finna tannlæknar oftast leiðir til að bæta hann, en lagfæringarnar jafnast þó sjaldnast á við upprunalegt ástand tannanna.

Fimmti hver unglingur er talinn vera með glerungseyðingu á byrjunarstigi

Rannsókn sem Inga B. Árnadóttir lektor gerði árið 1997 og var kynnt á norrænu rannsóknartannþingi sama ár leiddi í ljós að fimmti hver unglingur á Íslandi hefði glerungseyðingu á byrjunarstigi.

Birt með góðfúslegu leyfi Tannverndarráðs