Glerungseyðing

Hvað er glerungseyðing?

Glerungseyðing er eyðing glerungs af völdum sýru en er óháð sykri og bakteríum og því óskyld tannskemmdum. Hér er um að ræða sýrur frá bakflæði maga eða vélinda eða sýrur frá súrum mat eða drykkjum eins og gos- og ávaxtadrykkjum. Helsta einkenni glerungseyðingar er aukin næmni fyrir hita og kulda. Glerungseyðing er alvarlegur sjúkdómur vegna mikils sársauka, eyðingar tanna auk kostnaðarsamra en nauðsynlegra tannviðgerða.

Áhættuþættir

Helstu áhættuþættir eru bakflæði, uppköst, munnþurrkur en aðallega tíð neysla gos- og ávaxtadrykkja auk íþrótta- og orkudrykkja. Á landsvísu drekkur ungt fólk að meðaltali tæpan einn lítra af gosdrykkjum og/eða ávaxtadrykkjum á dag. Þessi lífsstíll hefur bæði verið tengdur við tannskemmdir og aukna tíðni á glerungseyðingu tanna. Að vísu er sykurinn ekki til staðar í öllum drykkjunum en sykur er æti fyrir bakteríurnar í munnholi og veldur hinum eiginlegu tannskemmdum. Hins vegar eru flestir þessara drykkja undir áhættusýrustigi munns (pH 5,5) og stuðla því að glerungseyðingu. Áhrifin frá súrum drykkjum og bakflæði maga og vélinda á glerungseyðingu getur farið eftir stuðpúðavirkni munnvatns hvers einstaklings. Með þessu er átt við hversu hagstætt munnvatnið er í hverjum manni fyrir sig eða hversu mikinn tíma það tekur fyrir munnvatnið að hlutleysa sýruna sem fylgir gosinu.
Samsetning munnvatns er mjög mikilvæg í þessu sambandi. Má þar helst nefna magn kalsíums og fosfórs sem skiptir miklu máli auk mettunar á efnasamböndunum flúorapatít og hydroxyapatít. Flæði munnvatns er mjög stór þáttur í virkni munnvatnsins en eðlilegt flæði munnvatns er einn millilítri á mínútu þegar að munnvatnsflæði er örvað. Neyslumynstur á gosi, ávaxtadrykkjum, orku- og íþróttadrykkjum skiptir einna mestu máli, en rannsóknir hafa sýnt fram á að tíðni neyslu bæði gagnvart tannskemmdum og glerungseyðingu hefur meira að segja heldur en magnið sem er drukkið.

Rannsóknir

Nýlega hefur verið greint frá niðurstöðum rannsóknar á rannsóknarstofu varðandi glerungseyðandi áhrif drykkja á íslenskum markaði. Niðurstöðurnar sem voru birtar í Læknablaðinu sýndu að flest allir svaladrykkir á íslenskum markaði eru glerungseyðandi að undanskyldu sódavatni án bragðefna, kranavatni og flest öllum mjólkurdrykkjum. Mysa og mysudrykkir reyndust þó glerungseyðandi.
Ávaxtasafar reyndust mest glerungseyðandi á rannsóknarstofu en kóladrykkir minnst. Niðurstöður af rannsóknarstofum eru nauðsynlegur hluti af rannsóknarferlinu en faraldsfræðilegar rannsóknir gefa eðlilegri mynd af hvaða drykkir eru raunverulega að valda sýrueyðingu tanna. Árið 1996 voru 15 ára reykvískir unglingar skoðaðir með tilliti til glerungseyðingar og kom fram að 20% þátttakenda höfðu byrjunareinkenni eyðingar. Í framhaldi af þessu var unnin faraldsfræðileg rannsókn á Íslandi árið 2000-2002 þar sem samband tíðni neyslu glerungseyðandi drykkja á íslenskum markaði og tíðni glerungseyðingar var skoðað. Í þeirri rannsókn fannst einungis marktækt samband á milli neyslu kóladrykkja og tíðni glerungseyðingar, en 39% einstaklinga úr þýði tveggja hópa Íslendinga voru með glerungseyðingu. Hóparnir voru auðkenndir sem ungir fullorðnir (meðalaldur 21 árs) og bakflæðisjúklingar (meðalaldur 35 ára).

Hvað er til ráða?

Glerungseyðing er tannsjúkdómur sem ber að taka alvarlega en nýjustu rannsóknir benda til þess að tíðni hans fari vaxandi. Þó það sé óraunhæft að mæla algjörlega gegn neyslu glerungseyðandi drykkja ætti að gæta hófs og hafa í huga að vera ekki að sí súpa á gosdrykkjum eða öðrum súrum drykkjum. Helst ætti að drekka drykkina á skömmum tíma, með röri og/eða jafnvel með mat, þar sem rörið og maturinn gætu hlíft tönnunum að einhverju leyti. Mælt er með ávaxtadrykkjum fremur en gosdrykkjum þar sem ávaxtasafarnir eru næringarríkari og innihalda vítamín eins og C-vítamín sem eykur upptöku á járni og öðrum næringarefnum. Enn fremur skal gæta þess að nota ekki tannbursta 30 mínútum eftir neyslu súrra drykkja eða annarra súrra matvæla þar sem tannburstinn gæti gert illt verra, með því að bursta burt uppleystan glerung og þannig ýtt undir eyðingu glerungs.

Í kjölfar þess að Íslendingar eru meðvitaðri um glerungseyðingu tanna má búast við að almenningur geri meiri kröfur til drykkjaframleiðanda. Drykkjaframleiðendur erlendis eru nú þegar farnir að þróa drykki með ágætum árangri sem eru hagstæðari fyrir tennurnar. Það er því ekkert til fyrirstöðu að íslensk drykkjafyrirtæki komi á móts við neytandann með sama hætti og erlend fyrirtæki hafa gert.