Gláka

Hvað er gláka?

Þegar þrýstingur er of mikill í auganu, nefnist það gláka. Þessi hækkaði augnþrýstingur veldur dauða taugafrumnanna í sjóntauginni. Þetta leiðir aftur til að sjónsviðið skerðist og seinna meir sjónskerðingu og blindu ef ekkert er að hafst til að koma í veg fyrir þessa þróun.

Hver er orsökin?

Fellingabaugurinn í auganu framleiðir stöðugt vökva, sem nefnist augnvökvi. Þessi vökvi flæðir í gegnum augað sem losar sig við hann í gegnum örsmáan síuvef. Ef vökvinn kemst ekki út um síuvefinn eykst þrýstingurinn í auganu og gláka myndast. Gláku er skipt í tvær megintegundir, sem hvor um sig hefur sínar orsakir:

 • Hægfara gláka er talin vera af minnkuðu afflæði í gegnum síuvef augans. Þessi stífla eða minnkað flæði í gegnum síuvefinn getur versnað með árunum sem aftur leiðir til enn hærri augnþrýstings. Um orsakir hægfara gláku er ekki mikið vitað en sýnt hefur verið fram á greinileg fjölskyldutengsl þessa sjúkdóms.
 • Við bráðagláku lokast síuvefur augans skyndilega. Þessi gerð gláku er mikið sjaldgjæfari en um leið hættulegri þar sem þrýstingshækkunin er oft miklu meiri og hraðari. Ýmsar mismunandi orsakir geta verið fyrir bráðagláku.

Ekki er enn vitað hvort hinn hækkaði augnþrýstingur veldur beinum skaða á taugafrumum sjóntaugarinnar eða hvort áhrifin séu óbein með því að þrýstingurinn valdi truflun á blóðflæðinu sem veldur síðan skemmdum og dauða taugafrumnanna í sjóntauginni.

Hver eru einkennin?

Sé þrýstingshækkunin hægfara eins og er í langflestum tilfellum eru einkennin engin fyrr en skemmdir eru orðnar mjög miklar á sjóntauginni. Það er þessi staðreynd sem gerir þennan sjúkdóm svo hættulegan.

Hægfara gláka:

 • Sjónsviðið skerðist og blindir blettir myndast í því. Yfirleitt veitir maður þessu ekki athygli fyrr en sjónsviðsskerðingin er orðin mjög mikil. Þegar það hefur gerst getur viðkomandi veitt því eftirtekt að hann greini ekki hluti til hliðar svo sem að hann reki sig á eitthvað sem fellur inní blinda bletti sjónsviðsins. Skarpa sjónin í miðju sjónviðinu helst yfirleitt mjög lengi eðlileg sem er megin ástæða þess að sjúklingar verða ekki varir við sjónsviðsskerðinguna framan af.
 • Blindu svæðin stækka (án meðhöndlunar) og með tímanum sér maður einungis með skörpu sjóninni í miðju sjónsviðinu. Þetta er eins og að horfa í gegnum rör þar sem maður sér skýrt á mjög litlu svæði í miðjunni en í kringum þetta svæði er allt svart.
 • Erfiðleikar með litarskyn.
 • Léleg nætursjón.
 • Hæg þróun sjúkdómsins sem leiðir til algjörrar blindu sé meðhöndlun ekki hafin í tíma.

Bráðagláka:

 • Mött hornhimna vegna bjúgmyndunar sem leiðir til sjónskerðingar. Verkur í auga og höfuðverkur. Ljósfælni, roði í auga og aukin táramyndun. „Regnbogasjón“ í kringum ljós. Hröð þróun sem getur valdið miklum skemmdum á sjóntaug á tiltölulega stuttum tíma.

 

Hvenær er hætta á ferð?

 • Greining og meðferð skulu gerðar af sérfræðingi í augnsjúkdómum. Ef eitthvað af ofangreindum einkennum eru til staðar, leitið til augnlæknis. Verið á varðbergi gagnvart ofangreindum einkennum ef þið hafið verið með bólgur í lithimnu eða aðra bólgusjúkdóma í auganu. Leitið upplýsinga um tegund glákunnar til að forðast blindu. Einnig er nauðsynlegt að þekkja lyfin sín og nota þau samkvæmt læknisráði. Leitið reglulega til augnlæknis eftir 40 ára aldur til að láta athuga sjónina og leita að einkennum um gláku. Æskilegt er að ættingjar fari í skoðun þar sem sjúkdómurinn er ættgengur. Ef þið takið lyf vegna annarra sjúkdóma leitið þá upplýsinga, því sum lyf hafa slæm áhrif á gláku.

Hvað er hægt að gera til að forðast glákuskaða?

 • Eftir 40 ára aldur ættu allir að fara reglulega (á 1-2ja ára fresti) til augnlæknis til skoðunar. Leita til læknis um leið og einkenna verður vart. Oft er hægt að koma í veg fyrir sjónskerðingu vegna bráðagláku, þannig að sjónin tapist ekki alveg. Við hægfara gláku er hægt að koma í veg fyrir sjónskerðingu ef sjúkdómurinn er greindur nógu snemma og meðferð hafin.

Hvernig greinir augnlæknirinn sjúkdóminn?

 • Mælir augnþrýstinginn.
 • Leitar að einkennum um glákuskaða á sjóntaugum.
 • Framkvæmir sjónsviðsrannsóknir til að leita að sjónsviðskerðingu.

Holl ráð

 • Ef þú ert í vafa leitaðu þá til augnlæknis, þar sem ómeðhöndluð gláka getur leitt til blindu.
 • Ef þú átt í erfiðleikum með sjónina leitaðu þá strax til augnlæknis þar sem ólæknandi skaðar geta orðið.

Virkni

Það fer eftir eðli sjúkdómsins hvort þú mátt setjast undir stýri eður ei. Ráðfærðu þig við augnlækninn.

Hvað gerir illt verra?

Ef glákan er ekki meðhöndluð getur hún leitt til blindu.

Framtíðarhorfur

Ef glákan er ekki meðhöndluð getur hún leitt til algjörar blindu. Yfirleitt er hægt að koma í veg fyrir það, ef um hægfara gláku er að ræða, með réttri meðhöndlun. Hægt er að öðlast eðlilega sjón, ef um bráðagláku er að ræða, ef hún er greind nógu snemma og meðferð hafin.

Alvarleg sjónskerðing eða blinda af völdum gláku er frekar sjaldgæf á Íslandi þar sem flestir leita snemma á lífsleiðinni til augnlæknis vegna gleraugnamælinga og mörg góð glákulyf hafa komið á markað á síðustu árum.

Hver er meðferðin?

Meðferðin fer eftir tegund glákunnar, en gengur ætíð út á að minnka þrýstinginn í auganu. Greiningin og meðferðin skulu gerðar af augnlækni.