Gildi íþrótta og hreyfingar

Skipulagt íþróttastarf hófst í byrjun síðustu aldar með stofnun íþrótta- og ungmennafélaga. Lengst af má segja að íþróttir hafi verið stundaðar af tiltölulega fámennum hópi fólks, aðallega körlum, sem höfðu til þess líkamlega burði. Íþróttir voru með öðrum orðum iðja þeirra hraustu og sterku og allur almenningur var í hlutverki áhorfandans.

Fáir æfðu nema til að keppa, golf var fínna manna sport, hestamennska var fyrir þá eina sem höfðu efni á því, boltaleikir aðeins fyrir þá sem gátu eitthvað í íþróttinni. Það var helst að almenningur stundaði sund. Það er ekki fyrr en síðustu tvo áratugina, sem líkamsrækt, hlaup og almenningsíþróttir ryðja sér braut inn í íslenskt samfélag. Ekki var það þó auðhlaupið gagnvart almenningsálitinu. Þegar þekktir menn úr mennta- eða vísindasamfélaginu tóku til við að skokka um götur bæjarins, voru þeir umsvifalaust taldir skrítnir. Þegar ég, þekktur knattspyrnumaðurinn, valdist á þing, var farið um það niðrandi orðum, vegna þess að það þótti ekki við hæfi að íþróttamaður sæti á alþingi.

Eftir því sem tækni og lífsþægindum fleygði fram í formi bifreiða, sjónvarps og tölvunotkunar, hefur kyrrseta færst í vöxt í nútímasamfélagi. Börnum er ekið í skóla og útivera og leikir utanhúss eru minni og færri en áður. Fullorðna fólkið fer á bílnum til og frá vinnu, erfiðisvinna er nánast horfin í krafti véla og tækja.

Niðurstaðan er sú, að þjóðin fitnar og þá einkum yngri kynslóðin. Aukinni þyngd og hreyfingarleysi fylgja sjúkdómar, þunglyndi og verri sjálfsmynd hvers og eins.

Sem betur hefur margt fólk gert sér grein fyrir nauðsyn hreyfingar og likamsrækt hverskonar. Æ fleiri stunda skokk og regluleg hlaup, líkamsræktarstöðvar spretta upp og íþróttafélög og íþrótta- og tómstundaráð sveitarfélaga hafa rekið íþróttaskóla fyrir yngstu börnin með ágætum árangri.

En betur má ef duga skal. Íþróttir og hreyfing þurfa að vera fastur liður í lífsmunstri hvers einstaklings. Ekki endilega til að æfa með keppni fyrir augum, heldur til að styrkja líkama sinn, láta sér líða vel, bæta sjálfsímyndina með betra útliti, komast út, komast í leik með öðrum, stunda skemmtilega afþreyingu og ýta frá sér áhyggjum hversdagsins. Sérstaklega er það áríðandi gagnvart börnum að kenna þeim strax á unga aldri að hreyfing sé holl og skemmtileg og að íþróttir eru leikur og nautn, öllum öðrum nautnum betri. Íþróttaiðkun dregur alla jafna úr óreglu og kennir ungviðinu aga og einbeitingu.

Í stuttu máli má segja að hreyfing, útivera og líkamsrækt sé eina raunhæfa svarið við kvillum, innisetu og vágestum nútímans.