Getur þú líka smitast af HIV/alnæmi?

Skiptir HIV/alnæmi máli fyrir mig?
Já, ég tel svo sannarlega svo vera. Þótt að ekki hafi heyrst mikið talað um HIV/alnæmi hér á landi að undanförnu, þá jafngildir það því ekki að smitunartíðnin sé í rénum í heiminum. Í raun hefur tíðni sjúkdómsins aldrei verið hærri. Mikill fjöldi fólks um heim allan smitast á hverjum degi og er nú svo komið að 1,2% mannkyns 15 ára og eldri er smitað. Það lítur líka út fyrir að aukning HIV-smitunar geti orðið umtalsverð á næstu árum, því að í flestum löndum heims er forvörnum ekki sinnt sem skyldi.

Þessi sjúkdómur er alvarlegur því oftast líða einungis um 10 ár frá smitun þar til hinn smitaði fær alnæmi og deyr þá fólk oftast innan þriggja ára. Lyf geta lengt lífslíkur smitaðra, og við Íslendingar erum svo heppin að hafa aðgang að þeim, ólíkt 96% jarðarbúa. En þessi lyf eru engin lækning við sjúkdómnum og bóluefni eru heldur ekki í augsýn.

Þessi staða gerir það að verkum að mikilvægasta vopn okkar allra í baráttunni við þennan sjúkdóm eru forvarnir. Hvert og eitt okkar verður að vera upplýst um þennan sjúkdóm og síðan nota okkar eigið hyggjuvit til þess að koma í veg fyrir smitun.

Erum við ekki örugg á Íslandi?
Hér á landi greinast fáir á ári hverju, eða um 6–12 manns. Það má kannski segja að það sé samt 6–12 manns of mikið. Ef við höldum ekki vöku okkar getur fjöldi smitaðra orðið enn meiri. Það verðum við að gera sjálf, því það eru ekki aðrir sem gera það fyrir okkur. Kannski hefur það aldrei verið mikilvægara en einmitt nú, því við erum kannski allt of lítið að hugsa um þessi mál. Það getur gert okkur kærulaus.

Auk þess erum við ekki lengur lítil eyþjóð einangruð út í hafi, langt í burtu frá öllum hættum mannlífsins. Við erum alltaf að tengjast umheiminum meir og meir. Nú er svo komið að yfir helmingur landsmanna ferðast a.m.k. einu sinni á ári til útlanda og erlendir gestir knýja dyra hjá okkur í hundruðþúsundatali. Ísland er því að verða meir og meir eins og lítið þorp í stóru landi. Því fylgja margir kostir, en við megum ekki gleyma því að við þurfum líka að gæta okkar. Það er t.d. mikilvægt að vita til þess að í þróunarlöndunum geisa HIV/alnæmisfaraldrar og er smitunin almennust í Afríku. Nýsmitun er aftur á móti hvað mest um þessar mundir í Suð-austur Asíu og í fyrrum Sovétríkjunum. Tæplega helmingur þeirra sem greinist með HIV/alnæmi á Íslandi hefur smitast í öðrum löndum. Um helmingur þeirra hefur smitast í Evrópu, en hæsta smitunartíðnin í Evrópu er í Frakklandi, Ítalíu, á Spáni og í Portúgal. Hinn helmingurinn sem hefur greinst með smit hefur smitast hérlendis. Þetta segir okkur það að við megum ekki sofna á verðinum hvorki erlendis né hér heima. Á heimsvísu er talið að bara 10–20% viti um sitt smit. Fólk getur því verið í góðri trú að viðhafa kynmök án þess að nota smokk. Það getur reynst fallvalt.

Eru það ekki aðallega hommar sem smitast?
Margir kunna að halda það og ekki skrítið, því upphaflega voru það aðallega hommar sem smituðust hér á landi. En þetta hefur gerbreyst á undanförnum árum. Frá þeim tíma hafa aðallega gagnkynhneigðir smitast, eða í 68% tilvika. Þetta er því í auknum mæli að verða sjúkdómur allra landsmanna. Við verðum þar af leiðandi að hætta að skilgreina þennan sjúkdóm sem sjúkdóm einhverra „ annarra“ hópa í samfélaginu en okkar sjálfra. Flestir sem greinast hér er ungt fólk á aldrinum 25–30 ára. Það er því mikilvægt að hafa hugfast að þótt að smitunartíðnin sé hæst meðal ungs fólks jafnt hér á landi sem í heiminum öllum, þá smitast fólk á öllum aldri.

En er ekki nóg að taka bara lyf?
Ný HIV-lyf sem komu á markaðinn 1996 hafa haft mjög góð áhrif á þá sem eru smitaðir og hafa mun færri þróað alnæmi eða látist af sjúkdómnum. En það er því miður lítið vitað um langtímavirkni þessara lyfja. Auk þess hefur sýnt sig að inntaka þeirra getur reynst fólki erfið. Aukaverkanir geta verið miklar og einnig getur myndast ónæmi gagnvart lyfjunum, þannig að þau hætta að virka. Það eru líka alltaf einhverjir sem þola þau ekki. Þessi sjúkdómur getur einnig haft ýmsar félagslegar afleiðingar í för með sér. Sem dæmi geta það verið erfiðleikar í kynlífi. Margir eiga erfitt með að hugsa sér að stunda kynlíf eftir greininguna og þeir sem það gera upplifa oft höfnun vegna smitsins. Það getur verið mjög erfitt fyrir sjálfsmyndina. Spurning um barneignir getur líka vafist fyrir HI-smituðu fólki, þótt að það séu einungis um 1%, líkur á því að HIV-smitaðar konur eignist barn sem er smitað af HIV, sé móðrirn á HIV-lyfjum í meðgöngu.

Eru ennþá fordómar gegn þessum sjúkdómi?
Mikið hefur dregið úr fordómum frá því sem áður var, en þeir hafa ennþá neikvæð áhrif á líf þeirra sem greinast smitaðir. Hér getur bæði verið um eigin og annarra fordóma að ræða. &THOR N;essir fordómar verða oft til þess að fólk felur fyrir öðrum að það sé smitað af HIV. Það óttast neikvæð viðbrögð sinna nánustu, vill ekki valda þeim vonbrigðum og kann að skammast sín fyrir að hafa ekki passað sig betur. Þetta getur orðið til þess að fólk einangrast, þannig að það fær oft ekki nauðsynlegan stuðning til þess að takast á við hinar ýmsu afleiðingar sjúkdómsins. Það að hafa smitast af HIV er oft eins og að ganga í gegnum ákveðið þroskaferli sem krefst stöðugrar sjálfskoðunar og mikillar þrautseigju. Fordómarnir verða því mikið viðbótarálag fyrir hinn smitaða sem gerir þetta ferli erfiðara en það ella hefði verið.

Ennþá gerist það að brotið er á mannréttindum HIV-jákvæðra með uppsögnum þegar þeir segja frá sjúkdóm sínum á vinnustað og þeir geta átt á hættu að verða fyrir aðkasti eða einelti á vinnustað segi þeir frá honum. Því er ekki óeðlilegt að HIV-jákvætt fólk vilji halda sjúkdómnum sem mest út af fyrir sig, hvort sem er á sínum vinnustað eða annars staðar. Opinberum sjúkdómsins gæti til að mynda haft áhrif á starfsframa hins smitaða. Sem betur fer er það langoftast þannig að fái aðstandendur vitneskju um sjúkdóm einhvers nákomins, sýna þeir honum mikið traust og stuðning í verki. Það á alltaf við ef tengsl eru góð fyrir. Því miður dæmir fólk oft hart þá sem smitast af sjúkdómum og hugsa sem svo að þeim sé nær að hafa ekki passað sig. Ég hvet það fólk að horfa í eigin barm og skoða hvort það hafi aldrei tekið neina áhættu sjálft á þessu sviði. Eins og fram hefur komið valda fordómar miklu viðbótarálagi í lífi HIV-smitaðra.

Hvernig tryggi ég mitt eigið öryggi?
Sért þú úti á ,,kynlífsmarkaðnum“ er mikilvægt að skoða eigin kynlífshegðun. Er hún ábyrg eða ertu að taka einhverjar áhættur? Er það eitthvað í líferni þínu sem hægt væri að breyta til betri vegar? Hvað með drykkju, að gleyma sér þá hæst leikur stendur? Áfengi og fíkniefni slæva dómgreind fólks. Ertu nógu ákveðin(n) eða staðföst/staðfastur í ákvörðun þinni um hvernig þú vilt tryggja öryggi þitt? Lætur þú kannski til leiðast þegar á reynir? Ert þú ekkert að hugsa um þessi mál því að þau eru svo leiðinleg? Finnst þér smokkurinn eyðileggja næmnina? Treystirðu hinum aðilanum auðveldlega, án þess að þekkja bakgrunn hans vel? Kannist þú við einhverja slíka þanka sem verða til þess að þú tekur áhættur í kynlífi, mæli ég með því að þú ígrundir hvort þú viljir halda áfram uppteknum hætti eða gera eitthvað í málunum. Viltu setja þér markmið sem þú ert til í að framfylgja til þess að fá fram breytingu? Ef svo er óska ég þér góðs gengis! Sértu bara nógu staðráðin(n) og raunhæf(ur) þá ætti þér að takast vel til! Ég reikna ekki með að neinn vilji í raun sitja uppi með kynsjúkdóm um aldur og ævi bara vegna óvarkárni eina kvöldstund.

Þegar tekin er ákvörðun um að stunda öruggt kynlíf er mikilvægt að hafa eftirfarandi að leiðarljósi. Því fleiri bólfélagar, því meiri áhætta á HIV-smiti. Rétt notkun smokksins er nauðsynleg. Hann verður alltaf að vera til staðar þegar á þarf að halda og ávallt þarf að fylgja leiðbeiningum hans í þaula. Það þarf t.d. að kunna að setja hann rétt á og nota hann allan þann tíma sem á kynmökum stendur. Sé fólk haldið öðrum kynsjúkdómum aukast líkurnar enn meir á HIV-smiti.

Nýr bæklingur um HIV og alnæmi
Vilji þið rifja upp staðreyndir um HIV og alnæmi, þá var sóttvarnalæknir að gefa út nýjan alnæmisbækling. Hann er mun aðgenglilegri en sá gamli og textinn hefur einnig verið endursaminn. Þar sem við erum orðin þjóð margra kynþátta þótti eðlilegt að hafa hann á fleiri tungumálum. Það er þessa dagana verið að leggja lokahönd á þýðingarnar yfir á ensku, pólsku, rússnesku, serbó-króatísku, tagalog og tælensku.. Þessir bæklingar verða bráðlega tilbúnir til dreifingar eins og íslenski bæklingurinn. Hægt verður að nálgast þá á skrifstofu Landlæknisembættisins eða á vefsetri þess, http://www.landlaeknir.is/Uploads/FileGallery/Utgafa/LAN_20051_alnami.lowr.pdf

Félög og stofnanir sem óska eftir frekari fræðslu um ofangreind efni geta snúið sér til höfundar á skrifstofu Landlæknisembættisins, Austurströnd 5, 170 Seltjarnarnes, s. 510 1900, netfang: sigurlaug@landlaeknir.is