Getnaðarvarnapillur

Getnaðarvarnapillur

Getnaðarvarnapillur innihalda kvenhormón, oftast blöndu af tveimur hormónum, estrógeni og gestageni (prógesteróni) (samsettar pillur) eða aðeins gestagen (prógesterón). Hormónamagn í pillutegundum á markaði er mismunandi og misjafnt er hvaða tegund hentar hverri konu best. Getnaðarvarnapillur eru gefnar í 21-22 daga í senn og svo gert 6 eða 7 daga hlé. Þannig er líkt eftir 28 daga tíðahring. Þrír aðalflokkar af pillum eru til, þ.e.a.s. pillur með báðum hormónunum þar sem sami skammtur er notaður allan tímann, pillur með báðum hormónunum en pillurnar innihalda mismunandi magn eftir því hvenær „tíðahringsins" þær eru teknar (kaflaskipt meðferð) og loks svonefndar „mini"-pillur sem aðeins innihalda gestagen. Í kaflaskiptri meðferð eru pillurnar í mismunandi litum til að gefa til kynna mismunandi hormónainnihald. Með þessu er að nokkru leyti líkt eftir venjulegum tíðahring. Ekki hefur verið sýnt fram á að kaflaskiptar pillur hafi kosti umfram þær sem hafa sama skammt allan tímann. Finna þarf réttu tegundina fyrir hverja konu. Til eru tegundir þar sem töflurnar eru 28 alls og er þá 7 töflum án hormóna (með sykurefni) bætt við 21 dags kaflaskipta meðferð þannig að aldrei er gert hlé á töflutökunni. Með pillunotkun minnka verkir við blæðingar og blæðingarnar verða minni að magni.

Mini-pillan (prógesterón-eingöngu pillan) er tekin stöðugt og aldrei gert hlé. Annað lyf sem aðeins inniheldur prógesterón-efni er Depo-Provera sem er gefið í vöðva með sprautu á þriggja mánaða fresti og hefur sambærilega verkun. Þessi lyf geta valdið óreglulegri tíðablæðingum, einkum hjá yngri konum og í upphafi notkunar, en hjá eldri konum minnka blæðingarnar með tímanum. Mini-pillan getur verið góður kostur fyrir konur sem eru að gefa barni brjóstamjólk og fyrir þær sem þola ekki samsettu pillurnar. Depo-Provera sprautan hentar oft þeim sem eiga erfitt með að muna eftir pillutökunni og konum sem eru nær tíðahvörfum.

Um getnaðarvarnapillur gildir almennt að æskilegast er að nota pillur með sem lægst hormónainnihald til þess að líkur á aukaáhrifum verði sem minnstar. Getnaðarvarnapillur eru mjög örugg lyf, ekki bara til getnaðarvarna heldur líka með tilliti til aukaverkana. Væg aukaáhrif svo sem ógleði eða svolítil þyngdaraukning eru algeng í byrjun notkunar en hverfa oft eftir 2-3 mánaða töku. Nýrri lyfjaform innihalda minna magn hormóna og gestagen sem líkjast náttúrulegum hormónum betur og hafa minni aukaáhrif.

Engin ástæða er til að teknar sé pilluhvíldir, þ.e.a.s. að sleppa úr pillutöku einn eða fleiri mánuði á ári. Pilluhvíldir gera meiri skaða en gagn og engar læknisfræðilegar forsendur eru fyrir þeim.

Óhætt er að byrja að nota getnaðarvarnapillur á kynþroskaaldri, ef getnaðarvörn þarf, enda er þungun á unga aldri sem ekki átti að verða alltaf vandamál.

Algengast er að pillur séu teknar í 21 dag en síðan gert 7 daga hlé. Sumar pillur eru þó teknar í 22 daga og síðan gert 6 daga hlé. Mælt er með að byrja að taka töflurnar á 5. degi frá upphafi tíða en einnig má byrja tökuna á fyrsta degi blæðinga (sjá nánar um þetta í lyfjaskránni). Engu máli skiptir hvenær sólarhringsins pillan er tekin en ráðlegt er að taka hana jafnan á sama tíma dags. Mikilvægt er að byrja á réttum tíma eftir 6 eða 7 daga hléið. Ef byrjað er of seint getur orðið egglos. Ef gleymist að taka pilluna, þannig að meira en 24 klst. líða frá því síðasta pillan var tekin, á að taka pilluna sem gleymdist sem fyrst og svo þá næstu um leið, eða á réttum tíma. Gleymist pilla geta líkur á egglosi aukist og þá er ráðlegt að nota aðra getnaðarvörn, svo sem smokk eða sæðisdrepandi krem eða stíla, með pillunni þar til komið er að síðustu 4 pillunum.

Á fyrsta mánuði pillutökunnar er mögulegt að pillan veiti aðeins minni vörn (líkur á egglosi meiri) en ef hún er rétt tekin þá er vörnin nálægt 99,8% og aðeins meiri eftir það. Getnaðarvörn er til staðar bæði meðan pillur eru teknar og í viku hléunum á milli inntökutímabila. Í þessum hléum koma venjulega blæðingar en þær eru oft heldur minni en áður og einstaka sinnum kemur fyrir að blæðingar koma ekki. Það gerir ekkert til og er aðeins vegna þess að slímhúð legholsins er þunn og lítið virk meðan pillan er tekin. Mælt er með að byrjað sé á nýrri pakkningu (inntökutímabili) á réttum tíma og sjá til í einn mánuð hvort blæðingar koma þá. Þegar notuð eru lyf sem innihalda litla skammta af hormónum er ekki óalgengt að borið geti á smá milliblæðingum í lok annarrar viku tíðahrings. Þetta skiptir ekki máli en getur auðvitað valdið óþægindum. Öryggi getnaðarvarnarinnar er engu að síður fullnægjandi og yfirleitt er ráðlegt að sjá til í 2-3 mánuði hvort þessar milliblæðingar hverfa. Ef þær hverfa ekki er oftast nauðsynlegt að breyta um pillutegund. Ef blæðingar koma í þriðju viku inntökuskeiðs þarf að ljúka við að taka allar pillurnar og taka svo venjulegt viku hlé áður en byrjað er á næsta skammti. Ef blæðingar byrja nokkrum dögum fyrr en þær áttu og eru miklar, getur verið best að hætta pillutökunni strax og sleppa síðustu 2-4 pillunum en byrja svo aftur eftir viku hlé.

Aukaverkanir tengjast aldri konunnar, reykingum og hormónum í þeirri pillu sem notuð er. Líkur á dauðsfalli vegna pillunnar eru sáralitlar og mun minni en vegna þungunar, a.m.k. fram til fertugs aldurs, svo fremi að konan reyki ekki eða hafi annan áhættuþátt. Konum sem ekki reykja er óhætt að nota pilluna a.m.k. til fertugsaldurs og jafnvel lengur. Hjá konum sem reykja eykur pillan áhættu á blóðtappa eða kransæðasjúkdómi, allt að fimmfalt og konur sem eru orðnar 35 ára og reykja sígarettur ættu síður að nota pilluna sem getnaðarvörn.

Magn hormóna í mismunandi pillutegundum er nokkuð breytilegt. Almennt er æskilegast að taka þær pillutegundir sem hafa lægst hormónamagn ef konan þolir þær vel, en eðli hormónanna er einnig mikilvægt. Flest þau gestagenhormón sem notuð eru í getnaðarvarnapillur hafa einnig væga andrógen verkun, þ.e.a.s. virka eins og vægt karlhormón. Sumar aukaverkanir má rekja til þessarar andrógen verkunar hormónanna. Nýjar tegundir getnaðarvarnapilla, svo sem Marvelon, Mercilon, Gynera, Harmonet, Meloden og Gracial, innihalda gestagen af svonefndri þriðju kynslóð, eins og gestagenið desógestrel. Þessi lyfjaform hafa mun minni andrógen verkun en sum eldri gestagen og andrógen aukaverkanir ættu því að vera minni.

Alvarlegar aukaverkanir sem taldar eru standa í sambandi við getnaðarvarnalyf eru bláæðabólga og blóðsegamyndun, blóðsegarek í lungu, kransæðasjúkdómar og hætta á blóðreki í heila. Enn sjaldgæfari aukaáhrif eru krabbamein í lifur, heilablæðing, gallblöðrusjúkdómar og sérstakir augnsjúkdómar. Blóðþrýstingur getur hækkað en oftast er sú hækkun væg. Aðrar aukaverkanir eru ógleði og uppköst, bjúgur, eymsli og þan í brjóstum. Einnig hefur verið lýst óþoli við notkun augnlinsa og breyting á hornhimnu augans. Þyngdaraukning er andrógen aukaáhrif og tengjast vökvasöfnun (gestagen áhrif) en nemur oftast aðeins 1-2 kg. Stækkun á vöðvahnútum í legi getur orðið, og húðútbrotum, þunglyndi, skertu sykurþoli og sveppasýkingum í leggöngum hefur verið lýst. Óvíst er þó hvort nýrri pillutegundir hafa nokkur teljandi áhrif í þá átt að breyta sykurefnaskiptum og valda sveppasýkingum. Mígreni getur versnað við töku pillunnar og ef það gerist þarf að hætta töku hennar án tafar.

Ýmsir sjúkdómar eru þess eðlis að óráðlegt getur verið fyrir konur sem eru með þá að nota getnaðarvarnapillur. Þetta eru truflanir á lifrarstarfsemi, gula, nokkrir æðasjúkdómar, fyrri blóðsegamyndun eða blóðsegarek og brjóstakrabbamein. Í öðrum tilfellum getur verið matsatriði, þar sem læknir verður að skera úr um, hvort æskilegt sé að pillan sé notuð. Almennt mælir ekkert gegn því að konur með sykursýki, flogaveiki eða MS noti pilluna, en í alvarlegustu formum sykursýki, í porfýrínsýki eða við stór vöðvaæxli í legi er ráðlegt að leitað sé ráða sérfræðings. Ef önnur lyf eru tekin að staðaldri samtímis getnaðarvarnapillum er hugsanlegt að lyfin hafi áhrif hvert á annað. Þetta gildir t.d. um ýmis geðlyf, sýklalyf og flogaveikilyf.

Ef fram koma einkenni sem hugsanlega gætu verið aukaverkun af getnaðarvarnapillum, svo sem svæsinn höfuðverkur, bráðar sjóntruflanir, eymsli og verkir í fótum, stingandi sársauki við öndun og hósti án greinilegrar ástæðu, er rétt að hætta að taka lyfið og leita læknis án tafar. Ekki þarf að hætta notkun pillunnar fyrir skurðaðgerðir.

Stundum, einkum eftir óreglulega töku pillunnar, vaknar grunur um að þungun hafi orðið. Þá þarf að gera þungunarpróf sem fyrst og snúa sér svo strax til læknis ef það reynist jákvætt. Ekki er vitað til að pillan valdi fósturskaða.

Getnaðarvarnapillur aðrar en mini-pillan eru óæskilegar meðan á brjóstgjöf stendur þar sem þær geta dregið úr mjólkurmyndun.

Hér á landi eru á markaði 15 tegundir af getnaðarvarnapillum. Sumar eru með sömu innihaldsefni og sama magn en frá mismunandi framleiðendum.

Fróðleikur um Þvagfæralyf, kvensjúkdómalyf og kynhormóna