Gervigangráður

Unnið af:Stefaníu G. Snorradóttur, hjúkrunarfræðingur hjartadeildar 14 E

Ráðgjöf og yfirlestur:

Árni Kristinsson, hjartasérfræðingur,
Anna G. Gunnarsdóttir, Bylgja Kærnested, Ása Fríða Kjartansdóttir, Elín Borg, Sigrún Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingar 14-E.
Gizur Gottskálksson hjartasérfræðingur og Gunnar Gunnarsson, sýkingarsérfræðingur.

Hlutverk hjartans

Hlutverk hjartans er að viðhalda hringrás blóðsins og þar með flutningi súrefnis og næringarefna um líkamann. Hjartað liggur ofan við þindina, á bak við bringubeinið og er verndað af því og rifbeinunum. Það er klætt sléttu frumulagi að innan en veggir þess eru að mestu úr vöðva. Gollurshúsið sem er gert úr bandvef umlykur hjartað. Vinnan sem þetta mikilvæga líffæri afkastar er ekki í neinu samræmi við stærð þess sem er á við krepptan hnefa og vegur í fullorðnum manni um það bil 300 grömm. Í hvíld dælir hjartað um 5 lítrum af blóði á mínútu, rúmlega 7 tonnum á sólarhring.

Bygging hjartans

Hjartað er tvær aðskildar vöðvadælur sem vinna saman og kallast hægri og vinstri hjartahelmingur.

Í hvorum helmingi eru tvö hólf, efra hólf sem nefnist gátt og neðra hólf sem nefnist slegill. Veggur aðskilur vinstri og hægri hjartahelminga og nefnist skil. Hægri hjartahelmingur tekur við súrefnissnauðu bláæðablóði frá líkamanum og dælir því til lungnanna eftir lungnaslagæðinni, þar sem það mettast af súrefni. Súrefnisríkt slagæðablóð fer frá lungunum til vinstri hjartahelmings, sem dælir því eftir ósæðinni út um allan líkamann. Í hjartanu eru fjórar hjartalokur sem eru einstefnulokur, sjá þær um að blóðið flytjist áfram en leki ekki til baka.

 

Hjartslátturinn og leiðslukerfi hjartans

Þegar hjartað slær dregst hjartavöðvinn saman vegna rafboða sem eiga upptök sín í gangráði (sinus hnúti) þess og fara um sérhæft leiðslukerfi.

Gangráðurinn er lítill frumuklasi í hægri gátt. Hann ákveður hjartsláttarhraðann og frá honum berast boð eftir rafleiðslum og valda samdrætti hjartavöðvans.

Rafboðin dreifast um gáttir, mætast í torleiðnihnúti og fara þaðan um leiðslukerfið í sleglum. Gangráðurinn er sjálfvirkur og slær í hvíld 60-80 á mínútu. Heilinn getur bæði hert og hægt á þessum sjálfvirka boða með ósjálfráða taugakerfinu. Líkamleg áreynsla, spenna, geðshræring, þreyta, kaffidrykkja, tóbak og fleira hefur áhrif á hjartsláttinn.

 

Truflanir í leiðslukerfi

Leiðslutruflanir eru í aðalatriðum tvenns konar;
a) bilun í gangráði (sinushnúti) sem kemur fram sem truflun á hjartslætti eða hlé á hjartslætti.
b) bilun í leiðslukerfi sem kemur fram sem of hægur hjartsláttur.

Einkenni geta verið yfirlið, svimi, magnleysi, mæði og brjóstverkur.

 

Vegna þessara gangráðstruflana berast rafboðin ekki alltaf eftir leiðslukerfi hjartans. Þá er gripið til gervigangráðs.

Gervigangráðurinn tekur við hlutverki meðfædda gangráðsins og sendir rafboð um leiðslukerfið. Í dag eru gervigangráðar minni en eldspýtustokkar. Gangráðurinn fær orku frá rafhlöðu er endist í u.þ.b 5-10 ár.

Innlögn

Daginn fyrir aðgerðina leggst þú inn á deildina. Þá eru gerðar ýmsar rannsóknir en þú mátt búast við 2-3 daga dvöl á deildinni.

Undirbúningur fyrir gervigangráðsígræðslu

Rannsóknir sem oft eru gerðar eru:

Blóðprufa, hjartalínurit.
Stundum þarf að taka röntgenmynd af lungum og hjarta.
Einnig fer fram læknisskoðun og heilsufarssaga er skráð.

Kvöldið fyrir aðgerð

Að kvöldi þarft þú að fara í sturtu. Þú þarft að vera fastandi frá miðnætti. Skurðsvæðið sem er hægra megin á brjóstkassa er rakað og það síðan sótthreinsað með klórhexidinspritti fyrir aðgerð.

Að morgni aðgerðardags

Æðaleggur er settur í handlegg og þú færð sýklalyf í æð. Þú færð annan skammt 6 tímum eftir aðgerðina til að draga úr líkum á sýkingu í skurðsárinu.

Sérfræðingur þinn ákveður fyrir aðgerð lyfjaforgjöf sem gefin er annað hvort í töfluformi eða sprautuformi í vöðva til að ná slökun og draga þannig úr verkjum meðan á aðgerð stendur. Þú getur fundið fyrir syfju.

Framkvæmd gervigangráðsígræðslu

Aðgerðin er gerð í staðdeyfingu á æðarannsóknarstofu og tekur um klukkustund. Yfirleitt er þetta sársaukalítil aðgerð en láttu strax vita ef þú finnur fyrir verkjum, ógleði eða almennri vanlíðan.

Ein eða tvær gervigangráðsleiðslur eru þræddar inn í bláæð undir viðbeini og síðan inn í hægri gátt hjartans og áfram niður í hægri slegil. Þessir þræðir bera rafboð frá tækinu til hjartans og hlera eigið starf þess.

Lítill skurður er gerður neðan við viðbeinið og gervigangráðurinn settur undir húðina í eins konar vasa.

Skurðinum er oftast lokað með svokölluðum undirsaum sem eyðist með tímanum. Síðan er gangráðurinn stilltur á 60-70 slög á mínútu og umbúðir settar yfir skurðsvæðið. Eftir komu á deild máttu ekki borða í 2-4 klst. eftir aðgerðina eða meðan áhrif deyfilyfja eru að fara úr líkamanum.

Meðferð eftir aðgerð

1. dagur (aðgerðardagur):
þú ert á rúmlegu og mátt ekki hreyfa hægri handlegg upp yfir höfuð. Er það til að gervigangráðsvírar nái að festast en þú mátt hreyfa handlegginn um olnboga.

Láttu vita ef þú finnur fyrir verkjum eða öðrum óþægindum. Þú er tengd(ur) við hjartarafsjá svo hægt sé að fylgjast með hjartslættinum. Gott er að hreyfa hendi um olnboga og hreyfa fingur til að koma í veg fyrir stirðleika. Á fyrsta degi eftir aðgerð er yfirleitt tekin röntgen yfirlitsmynd af gangráðnum og legu hans.

2. dagur:
Yfirleitt er leyfð frjáls fótaferð en þú hlífir áfram handlegg og öxl. Fyrir útskrift er alltaf gerð gangráðsmæling og stilling.

Umbúðir eru hafðar á skurðsvæði eftir fyrirmælum sérfræðings þíns. Með tímanum munt þú geta tekið upp fyrra líferni og vonandi fengið meira þrek en áður.

Skipt um gervigangráð

Eins og fyrr sagði endast rafhlöður gervigangráðsins í u.þ.b 5-10 ár eftir tegundum. Þegar rafhlöðurnar fara að gefa sig getur þú fundið að hjartslátturinn verður hægari og jafnvel fundið fyrir svima, þess vegna er mikilvægt að vera í reglulegu eftirliti.

Rafhlöðuskipti er stutt aðgerð og yfirleitt er lega á sjúkrahúsi 1 dagur. Aðgerðin er gerð í staðdeyfingu með sama undirbúningi og þegar gangráðsísetning er gerð.

Leiðbeiningar eftir útskrift

1. Þú skalt fylgjast með útliti skurðsins s.s roða, útferð og hita á skurðsvæði. Fáir þú þessi einkenni skalt þú hafa strax samband við lækni þinn. Einnig ef þú finnur fyrir auknum verkjum.

2. Þú skalt fylgjast með hjartsláttarhraðanum og láttu lækni þinn vita ef hjartslátturinn breytist.

3. Þú skalt varast að halda á þungum hlut í 4 vikur þeim megin sem gervigangráðurinn er.

 

4. Finnir þú fyrir eftirfarandi einkennum skaltu einnig hafa samband við lækni þinn:

a) mæði.
b) bjúg á fótleggjum, ökklum og rist.
c) langvarandi þreytu og þrekleysi.
d) brjóstverk, svima eða langvarandi hiksta.
Ofangreind einkenni geta bent til þess að gervigangráðurinn starfi ekki rétt.

5. Öll almenn rafknúin heimilistæki getur þú notað áhyggjulaust.

2. Þú skalt fylgjast með hjartsláttarhraðanum og láttu lækni þinn vita ef hjartslátturinn breytist.

6. Málmleitartæki á flugvöllum hafa ekki áhrif á gangráðinn. Samt skalt þú láta vita að þú ert með gervigangráð þegar þú ferð í gegnum málmleitartæki.

7. Láttu tannlækni þinn vita að þú sért með gervigangráð. Ekki er talin þörf á fyrirbyggjandi sýklalyjagjöf fyrir tannviðgerðir. (heimild nr: 3)

8. Farsímar trufla ekki gervigangráðinn en það er ekki mælt með því að honum sé haldið upp að gangráðssvæðinu.9. Ef þú þarft að fara í segulómun (MRI) þarft þú að láta vita að þú ert með gervigangráð. Þessi rannsókn getur haft áhrif á eða truflað gervigangráðinn og einnig getur gervigangráðurinn haft áhrif á niðurstöður rannsóknarinnar.

10. Ef þú þarft meðferð hjá sjúkraþjálfara, þá skalt þú láta hann vita að þú ert með gervigangráð.

Við útskrift

Læknir þinn útskrifar þig. Þú kemur til eftirlits hjá honum eftir 4-6 vikur frá aðgerð en eftir það á 6 mánaða fresti.

Við útskrift færð þú kort sem er nokkurs konar skilríki „patient identification card“ sem inniheldur allar helstu upplýsingar um gervigangráðinn þinn. Gott er að hafa kortið alltaf á sér.

GANGI ÞÉR VEL!

Birt með góðfúslegu leyfi höfundar. Útgefandi: Landspítali Hringbraut, Hjartalækningadeild