Geislun fyrir tvítugt

Síðastliðna viku stóðu Geislavarnir ríkisins, Landlæknisembættið, Félag íslenskra húðlækna og Krabbameinsfélagið fyrir átaki til að minna á skaðsemi ljósabekkja og vara fermingarbörn við notkun þeirra. Þetta er mjög þarft málefni. Helst þyrfti að koma fræðslunni inn í grunnskólana, beint til barnanna og unglinganna, líkt og með tóbaksvarnir. Það er ekki síður þarft að höfða til forráðamanna ungmennanna. Foreldrar geta nefnilega haft mikil áhrif á börnin, bæði sem fyrirmyndir og í að fræða þau um hættuna sem fylgir útfjólubláum geislum sólarinnar og ljósabekkja.

 

Það er mikið áhyggjuefni að tíðni illkynja sortuæxla í húð hefur margfaldast á síðustu 20 árum. Tíðni sortuæxla eykst hraðar en nokkurs annars krabbameins. Tíðni sortuæxla er ótrúlega há á Íslandi miðað við legu landsins. Það skýrist án efa af óhóflegri brúnkudýrkun okkar á undanförnum árum, tíðum sólarlandaferðum og heimsmeti í ljósabekkjanotkun.  Börn og unglingar ferðast mun meira með foreldrum sínum en áður tíðkaðist og þess ekki nægjanlega gætt að verja viðkæma og ljósa húð þeirra fyrir geislum sólarinnar. Rannsóknir hafa sýnt að geislun fyrir tvítugt er megináhættuþáttur húðkrabbameina síðar á ævinni.

Ört hækkandi tiðni sortuæxla hjá ungum konum

Mest sláandi við hækkandi tiðni sortuæxla, er aldursdreifingin.  Sé litið til síðustu 10 ára er greinilegt að ungum konum  er greinast með sortuæxli fjölgar geysilega hratt. Sortuæxli eru langalgengustu krabbamein hjá konum, frá kynþroskaaldri til 35 ára aldurs. Rannsóknir hérlendis sýna að konur nota ljósabekki mun meira en karlar. Körlum sem stunda ljós er þó vitaskuld sama hætta búin.

 

Við getum ekki horft á þessa þróun aðgerðalaus. Foreldrar, mæður, ömmur, vinkonur, kennarar, íþróttaþjálfarar og fólk  í fyrirsætugeiranum hefur áhrif  á ungmennin, með því að sýna fordæmi og veita þeim fræðslu  um skaðsemi ljósabekkja.

 

Rannsóknir frá Ástralíu sýna að hafa má áhrif á vaxandi tíðni sortuæxla með átaki í fræðslu til barna, ungmenna og alls almennings. Þannig má fá fram breytingar á lifnaðarháttum til betri vegar. Í Ástralíu er það sjálf sólin sem er aðalskaðvaldurinn. Þar er lögð áhersla á að verja sig fyrir geislum hennar með sólvörn, fatnaði og því að nýta sér skuggann um hádegi þegar sólin er sterkust.

 

Fylgjum fordæmi andfætlinga okkar og leggjumst öll á eitt í að bæta hegðun okkar bæði í blessaðri sólinni  og með því að segja nei við ljósabekkjanotkun.

 

Að lokum vil ég hvetja eigendur líkamsræktarsöðva og þá sem reka sundstaði landsins til að fjarlægja ljósabekki úr húsnæði sínu og nota plássið fyrir heilsusamlegri starfsemi.

 

 

 

Kristín Þórisdóttir, húðlæknir

 

Tenglar:
www.landlaeknir.is
www.krabb.is
www.geislavarnir.is

Frá Landlæknisembættinu