Geislameðferð

Hvernig er geislameðferðinni hagað?

Þegar þú kemur í fyrstu meðferð veitir hjúkrunarfræðingur eða röntgentæknir þér upplýsingar um meðferðina og sýnir þér meðferðartækin. Geislameðferð er oftast gefin 5 daga vikunnar og yfirleitt nokkrar vikur í senn en getur líka verið sjaldnar. Gera má ráð fyrir 15-30 mínútum í hvert sinn. Sjálf geislunin tekur stutta stund, hálfa til fjórar mínútur. Fyrsta koma eftir að undirbúningi er lokið er kölluð innstilling. Þér er hjálpað við að leggjast rétt á meðferðarborðið. Ljósin í meðferðarherberginu eru dempuð og leysiljós notuð til að stilla inn á merkingar á húðinni. Teknar eru myndir og þær bornar saman við myndirnar sem teknar voru í undirbúningnum. Þetta er gert til staðfestingar á að meðferðin sé gefin eins og áætlað er. Þegar innstillingu er lokið eru ljósin í meðferðarherberginu kveikt, starfsfólk fer fram og dyrum er lokað. Litlu síðar hefst meðferðin.

Næmur hljóðnemi er inni í meðferðarherberginu þannig að þú getur talað til starfsfólksins sem fylgist með þér á sjónvarpsskjám. Á sama hátt getur starfsfólkið talað til þín. Ef þér líður illa þarftu því aðeins að láta vita og starfsfólkið stöðvar geislunina samstundis og kemur inn.

Meðferð er oft gefin frá fleiri en einni stefnu sem nefnd er geislareitur. Tækinu er snúið milli geislareita en þú liggur alveg kyrr þar til meðferð er lokið. Þú finnur ekki fyrir sjálfri geisluninni en heyrir aftur á móti suð í tækinu sem merkir að verið sé að geisla. Til að fylgjast með að réttur geislaskammtur sé gefinn er settur nemi á geislareitinn. Hann mælir geislaskammt á yfirborði húðarinnar. Niðurstöður eru bornar saman við fyrirfram útreiknað gildi.

Starfsfólk stýrir geislameðferðinni frá stjórnherbergi með hjálp tveggja tölvukerfa, ytra og innra kerfis. Innra kerfið skoðar öryggisbúnað tækis og setur geislunina af stað. Ytra kerfið inniheldur allar upplýsingar um þína meðferð. Sérhver meðferð er skráð í tölvu sem hefur það hlutverk að fylgjast með að meðferðin sé gefin rétt. Ef kerfið verður vart frávika kemur fram athugasemd. Þannig er þess gætt að mesta mögulega nákvæmni sé viðhöfð við hverja meðferð.

Hvernig mun mér líða meðan á meðferð stendur?

Tilfinningaleg vanlíðan eru eðlileg viðbrögð við því að greinast með krabbamein og þeirri óvissu sem því fylgir. Óvissan tengist meðal annars hvort meðferðin beri árangur og hvernig líðanin muni verða meðan á meðferð stendur. Í tengslum við veikindin er eðlilegt að fólk finni fyrir tilfinningum eins og ótta, kvíða, depurð og jafnvel reiði.

Velkomið er að leita stuðnings til starfsfólks deildarinnar sem getur oft hjálpað eða vísað á aðra stuðningsaðila. Einstaklingsbundið er hvernig fólki líður meðan á geislameðferð stendur. Mikilvægt er að reyna að sjá jákvæðar hliðar tilverunnar og taka einn dag fyrir í einu. Aukaverkanir meðferðarinnar geta verið mismunandi og fara meðal annars eftir því hvar á líkamann geislunin er gefin. Það er mikilvægt að fara vel með sig. Þú getur bætt líðan þína með því að leggja stund á slökun, hvíld og hreyfingu sem að sjálfsögðu fer eftir heilsu þinni. Þörf er á góðum nætursvefni. Margir stunda vinnu, halda heimili og njóta áhugamála þrátt fyrir að þeir séu í geislameðferð. Aðrir hafa þörf fyrir meiri hvíld. Engin ástæða er til að forðast samneyti við annað fólk. Í stuttu máli, geislameðferðin setur þér fáar skorður aðrar en þær hvernig þú bregst við meðferðinni.

Hreyfing

Hreyfing og útivera er mikilvæg, til dæmis stutt gönguferð einu sinni á dag í 15-30 mínútur eftir getu hvers og eins. Hreyfingin er líkamanum holl. Hún eykur blóðflæði um líkamann og þar með flæði súrefnis í vefina.

Þreyta

Algengasta aukaverkun geislameðferðar er þreyta sem lýsir sér í minna úthaldi og þörf fyrir meiri hvíld. Þreytan getur farið vaxandi eftir því sem líður á meðferðina og verið til staðar í nokkurn tíma eftir að meðferð lýkur. Þú skalt reyna að hvíla þig oft yfir daginn. Það hefur reynst vel að leggja sig strax og heim er komið eftir geislameðferðina.

Lystarleysi

Í geislameðferð er algengt að beri á lystarleysi. Ástæður geta verið af ýmsum toga og er þá fyrst að nefna undirliggjandi sjúkdóm. Kvíði, þreyta, verkir og áhrif meðferðar á meltingarveginn geta líka haft áhrif. Góð og holl næring er þýðingarmikil. Mikilvægt er að drekka vel meðan þú ert í meðferðinni það auðveldar líkamanum að losa sig við niðurbrotsefni.

Húð

Gæta þarf vel að húðinni á meðferðarsvæðinu. Húðin getur orðið rauð, þurr og aum þegar líður á meðferðina. Þér er óhætt að fara í ylvolga sturtu, en notaðu ekki svitalyktareyði, ilmvötn, sápu eða krem á meðferðarsvæðið nema í samráði við starfsfólk. Innihald þessara efna getur valdið húðertingu. Þerraðu húðina án þess að nudda.

Húðin á geislasvæðinu verður viðkvæmari en húðin annar s staðar á líkamanum. Þess vegna er æskilegt að sól skíni ekki mikið á það svæði sem geislað er meðan á meðferð stendur. Best er að fara varlega í sól- og ljósaböð fyrst um sinn eftir að meðferð lýkur. Notaðu hvorki heita né kalda bakstra á geislasvæðið. Í sumum tilvikum getur húðin orðið sár. Læknir ákveður þá viðeigandi úrbætur. Vertu í víðum og þægilegum fötum næst þér.

Ef slímhúð er innan meðferðarsvæðis getur geislunin haft ertandi áhrif á hana. Þeir sem gangast undir slíka meðferð fá nánari ráðleggingar hjá starfsfólki deildarinnar. Hármissir verður ekki nema geislað sé á hært svæði. Þegar geislað er á hársvörð mun hárið að öllum líkindum losna eftir nokkur skipti en í langflestum tilfellum vex það aftur að meðferð lokinni. Ef þú finnur fyrir einhverjum aukaverkunum eða óþægindum, vinsamlegast láttu vita.

Hvernig er fylgst með mér meðan á meðferð stendur?

Hjúkrunarfræðingar, röntgentæknar og læknar deildarinnar fylgjast með þér á meðferðartímabilinu. Við geislameðferð getur orðið fækkun á hvítum blóðkornum og blóðflögum. Hvítu blóðkornin eru hluti af eðlilegum vörnum líkamans og hjálpa þar með líkamanum að vinna bug á sýkingum. Blóðflögurnar taka þátt í storknun blóðsins. Blóðrannsókn er því gerð á meðferðartímanum. Flestir ganga í gegnum meðferðina án þess að nokkrar breytingar verði á blóði.

Útskrift og eftirlit

Þegar geislameðferð er lokið hættir þú að vera í stöðugri nálægð við starfsfólk geisladeildar en kemur þess í stað í eftirlit til þíns læknis. Að meðferð lokinni útskrifar læknir deildarinnar þig.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að aukaverkanir af meðferðinni geta komið fram á meðferðartímabilinu svo og eftir að meðferð líkur. Þessar aukaverkanir eru háðar því hvar geislað er, geislaskammtinum, stærð geislasvæðisins og almennu heilsufari þínu. Starfsfólk deildarinnar gefur þér upplýsingar um slíkar aukaverkanir og ráðleggur varðandi meðferð allt eftir þörfum hvers og eins. Ef eitthvað ber út af er hægt að ná í vakthafandi lækni krabbameinslækningadeildar á öllum tímum sólarhringsins um skiptiborð spítalans.

Ávinningur geislameðferðar

Þegar geislameðferð er ráðlögð eru mismunandi markmið höfð að leiðarljósi. Mögulega er hægt að lækna sjúkdóminn eða halda honum niðri og hindra þannig frekari útbreiðslu hans um óákveðinn tíma. Þegar um lengra genginn sjúkdóm er að ræða má bæta líðan með því að beita geislameðferð.

Áhrif geislunar á frumur

Heilbrigðar frumur bregðast mismunandi við geislun. Þannig lýsa t.d. áhrif geislunar á taugafrumur sér á annan hátt en á frumur í nýra. Sama er að segja um krabbameinsfrumur, næmi þeirra er breytilegt, m.a. byggist þetta á uppruna frumanna. Þannig eru t.d. æxli upprunnin í eitlavef næmari en æxli upprunnin í stoðvef. Krabbameinsfrumur skilja sig frá heilbrigðum frumum að því leyti að þær fjölga sér stjórnlaust og skipta sér oft örar en aðrar frumur á sama svæði. Geislun er talin hafa mest áhrif á frumur sem eru í örri frumuskiptingu og áhrifunum má lýsa sem breytingu á líffræðilegu jafnvægi frumunnar sem síðar veldur frumudauða. Almennt hafa heilbrigðar frumur meiri hæfileika til að lagfæra skemmdir sem verða vegna geislunar en krabbameinsfrumur. Til að nýta sér þennan eiginleika heilbrigðu frumanna er geislameðferð oftast gefin á mörgum dögum, allt að 6-8 vikum.

Hvernig er geislun búin til í geislameðferðartæki?

Röntgengeislun sem notuð er við geislameðferð er búin til í línuhraðli. Rafeindum er gefin viðbótarorka með því að hraða þeim í sterku rafsviði, það má segja að þær hlaðist orku. Hinar orkuríku rafeindir eru næst látnar rekast á þétt efni. Við það geisla þær frá sér orkunni sem röntgengeisla. Með því að ákveða hve mikilli orku er hlaðið á rafeindirnar í geislatækinu má ákvarða hversu háa orku röngtengeislarnir munu bera.

Geislaskammtar

Geislaskammtur er gefinn í einingunni Gray (Gy). Gray merkir orku á massaeiningu eða Joule/kg. Daglegur geislaskammtur liggur á bilinu 0,5 Gy og allt upp í 10,0 Gy. Algengustu dagskammtarnir eru 2,0 Gy og 3,0 Gy. Heildar-skammturinn liggur frá 10 Gy upp í allt að 70 Gy. Tímalengd meðferðarinnar er því mjög misjöfn, allt frá einum degi upp í tvo mánuði og er þá mögulega gert hlé á meðferðinni um miðbik hennar.

Söguleg frásögn

Geislun má lýsa sem flutningi orku á milli staða. Sólarljósið er þýðingarmesta geislunin í lífi okkar. Það lýsir upp tilveruna og gerir okkur kleift að byggja þessa jörð. Sólarljósið, oft kallað sýnilegt ljós þar sem augu okkar skynja það, ber ákveðna bylgjulengd. Bylgjulengd útfjólublás ljóss er styttri og það er ekki sýnilegt. Geislun með enn styttri bylgjulengd er sú geislun sem mest er notuð í læknisfræðilegum tilgangi. Við köllum þessa geislun röntgengeislun í höfuðið á Wilhelm Röntgen sem uppgötvaði hana árið 1895.

Vísindin á bak við geislun og geislavarnir spruttu upp úr uppgötvunum á röntgengeislun og geislavirkni í lok 19. aldar. Uppgötvun Wilhelms Röntgens hafði mikil áhrif bæði á vísindamenn og aðra. Margir vísindamenn hófu að rannsaka hina dularfullu geisla sem Röntgen sagði frá. Sagt var frá uppgötvunum í dagblöðum þannig að almenningur gat fylgst með því sem var að gerast.

Hinir ósýnilegu geislar vöktu mikla athygli og sú staðreynd að þeir komust í gegnum fast efni. Ef ljósnæm plata (filma) var sett í veg fyrir geislana, kom fram mynd á plötunni af því sem var á milli hennar og geislagjafans. Þannig mátti fá fram mynd af beinunum í líkamanum.

Vísindamenn hrifust af þessari nýju geislun sem hafði styttri bylgjulengd en ljósið og benti til að þeir ættu margt eftir ólært og órannsakað á þessu sviði. Athygli manna beindist fljótt að því hvernig nota mætti þessa geisla til lækninga svo og til að einfalda skurðaðgerðir. Innan mánaðar frá því að Röntgen tilkynnti um uppgötvun sína höfðu menn tekið nokkrar læknisfræðilegar röntgenmyndir bæði í Evrópu og Bandaríkjunum sem skurðlæknar notuðu við aðgerðir. Fljótlega hófu menn einnig að nota röntgengeislunina til meðferðar á ýmsum húðsjúkdómum og grunntliggjandi æxlum. Geislameðferð hafði litið dagsins ljós. Í fyrstu var aðeins hægt að nota röntgentæki og radíum til geislameðferðar. Síðar bættist kóbalt við. Radíum og kóbalt eru geislavirk efni sem senda frá sér geislun, gamma geislun, sem notuð erð til meðferðar. Eldri röntgentækin gefa frá sér geislun sem er á svo kölluðu kílóvoltasviði. Þau eru oftast kölluð lágorkutæki en línuhraðall er kallaður háorkutæki. Víðast hvar hafa menn hætt notkun radíums en lágorkuröntgentæki og kóbalttæki eru enn í notkun. Rannsóknir í geislaeðlisfræði fyrr á öldinni breyttu þeirra tíma geislameðferð í það horf sem við þekkjum. Radíum var lagt við svæðið sem geisla átti en kóbalti var komið fyrir í stóru tæki. Kóbaltið gaf frá sér geislun sem beint var á ákveðinn stað á sjúklingnum í ákveðinni fjarlægð frá húð. Á þann hátt mátti ná til meinsemda sem lágu dýpra í líkamanum. Eitt stærsta skrefið í geislameðferð var stigið með tilkomu línuhraðals. Fyrsti læknisfræðilegi línuhraðallinn var settur upp í London árið 1952 og fyrsti sjúklingurinn hóf meðferð þar árið 1953. Á nútímageisladeild er línuhraðall algengasta geislatækið. Línuhraðalinn er stöðugt verið að þróa og endurbæta. Nokkur stór fyrirtæki í heiminum sérhæfa sig í framleiðslu línuhraðla og annarra geislalækningatækja.

Önnur grein sem tengist uppgötvun Röntgens eru vísindin um geislavarnir. Menn fóru ekki að sinna þeim fyrir alvöru fyrr en um 35 árum eftir að hann uppgötvaði röntgengeislunina. Árið 1931 voru í fyrsta sinn opinberlega sett fram takmörk fyrir geislun fólks. Geislavarnir eru fræðin sem fjalla um það hvernig við getum varist geislun og notað hana á öruggan hátt.

Stuðst var við bæklinginn:

Radiation Therapy and You: A Guide to Self-Help During Treatment NIH Publication No 92-2227 New York State Science and Technology Foundation/Breast Cancer Information Clearinghouse.

Að greininni unnu:

Agnes Þórólfsdóttir, röntgentæknir
Jónína Helga Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Stefanía V. Sigurjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur
Þóra Jónsdóttir, eðlisfræðingur

Myndskreytingar:

Kristín Arngrímsdóttir

Þakkir færum við þeim sem voru okkur innan handar við gerð þessarar greinar.

Útgefandi: Ríkisspítalar, okt. 1998 Geisladeild krabbameinslækninga

Tölvuvinnsla og hönnun:
Ríkisspítalar Tölvuver AV