Geislafræðingur

Heiti stéttarfélags/stjórnar:

Félag Geislafræðinga, skammst. FG (fagfélag og stéttarfélag)

Nafn á tengilið:

Jónína Guðjónsdóttir, formaður

Aðsetur:

Suðurhlíð 35,
Reykjavík
Sími: 588 7820
Netfang: rti@mmedia.is
Heimasíða: www.mmedia.is/rti

Starfssvið (hlutverk):

Algengasti starfsvettvangur geislafræðinga er myndgreiningardeildir (röntgendeildir), á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og einkareknum læknastöðvum. Það eru þó ekki einu staðirnir því geislafræðingar starfa einnig hjá Krabbameinsfélagi Íslands, Geislavörnum ríkisins og á geislameðferðardeild Landspítala.

Á myndgreiningardeildum starfa geislafræðingar með sérfræðingum í geislagreiningu (röntgenlæknum) og aðstoðarfólki við framkvæmd myndgreiningarrannsókna.

Geislafræðingar gegna nú mjög vaxandi hlutverki í sjúkdóms­greiningu og meðferð sjúkdóma, því myndgreining af ýmsu tagi verður sífellt mikilvægari þáttur í allri heilbrigðisþjónustu.

geislafræðingar stjórna flestum tækjum sem notuð eru við myndrannsóknir. Þeir sinna líka sjúklingunum og þurfa þess vegna að búa yfir þekkingu á þörfum þeirra og sjúkdómum auk tækniþekkingarinnar. Miklar framfarir á þessu sviði gera starf geislafræðinga fjölbreytt og spennandi, sífellt þarf að fylgjast með nýjungum í aðferðum og tækni, og stuðla þannig að meiri nákvæmni í sjúkdómsgreiningu.

Kostnaður meðferðar:

Kostnaður við myndgreiningarrannsóknir greiðast að hluta af Tryggingastofnun ríkisins. Sjúklingur greiðir hluta af rannsóknarkostnaði að hámarki kr. 18.000 fyrir hverja komu.

Er viðkomandi stétt viðurkennd af heilbrigðisyfirvöldum:

Geislafræðingur er lögverndað starfsheiti. Til að starfa sem geislafræðingur á Íslandi þarf að ljúka BSc-námi í geislafræði frá Tækniskóla Íslands og fá löggildingu heilbrigðis­ og tryggingarmálaráðherra að loknu námi.

Menntun:

Geislafræði er kennd við Tækniskóla Íslands. Nemendur útskrifast með B.Sc. gráðu að loknu 8 anna námi, en námið er 120 einingar. Inntökuskilyrði er stúdentspróf eða raungreinadeildarpróf. Að öðru jöfnu ganga umsækjendur fyrir sem eru með meira nám í raungreinum. Námið er lánshæft hjá LÍN. Kennsluskrána má skoða á síðu Tækniskólans,

Hliðargreinar:

Geislafræðingar hafa mikla möguleika á sérhæfingu og framhaldsmenntun vegna fjölbreytni og örrar þróunar í faginu. Frekari prófgráður þarf að sækja út fyrir landsteinana, en alltaf eru haldin nokkur námskeið innanlands á ári hverju.

Nýjungar í stéttinni:

Eins og fram hefur komið er geislafræði fag örrar þróunar eins og öll önnur fög sem nýta tölvutæknina til hins ýtrasta.

Nýlega var gerð breyting á nafni röntgentækna og heitir stéttin nú Geislafræðingar. Endingin "tæknir" hefur valdið miklum misskilningi gegnum tíðina, en hún er bæði notuð í nöfnum háskólamenntaðra heilbrigðisstétta og annarra stétta sem hafa mun minna nám að baki, auk þess sem geislafræðingar starfa ekki eingöngu með röntgengeislun, heldur einnig við ísótóparannsóknir (gammageislun) segulómskoðanir (útvarpsbylgjur) auk kennslu og að gæðaeftirliti svo eitthvað sé nefnt.

Annað sem brýnt er að taka fram

Notkun jónandi geislunar við læknisfræðilega myndgreiningu hefur aukist mikið undanfarin ár, í takt við vaxandi möguleika til rannsókna. Óhætt er að fullyrða að þetta hefur bætt hag sjúklinga vegna bættrar greiningar, en engu að síður er hollt að hafa í huga að allri notkun jónandi geislunar fylgir nokkur áhætta. Því þurfa að liggja gildar ástæður að baki rannsóknum, sér í lagi hjá barnshafandi konum, börnum og fólki á barneignaraldri. Þungaðar konur ættu t.d. ekki að fara í röntgenrannsókn nema brýna nauðsyn beri til.