Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup

Í áttunda geðorðinu er velgengni í lífinu líkt við langhlaup. Því betur sem við undirbúum okkur fyrir langhlaupið því minni hætta er á að við ofkeyrum okkur. Það sama á við í lífinu, því betur sem við undirbúum okkur fyrir það sem á vegi okkar verður því betur gengur okkur. Þess vegna er mikilvægt að byggja sig upp og styrkja bæði andlega og líkamlega.

 

Í dag er fólk orðið nokkuð vant skyndilausnum og vill oft fá það sem hugurinn girnist strax, án þess að vinna fyrir því áður.  Í nútímasamfélagi gengur þetta oft upp því hægt er að kaupa ýmsar vörur án þess að vinna fyrir þeim áður. Leiðirnar til þess eru óteljandi og má þar nefna kreditkort, raðgreiðslur, léttgreiðslur, bílalán til margra ára og svona mætti lengi halda áfram.

 

Skyndilausnir duga hins vegar ekki til að ná góðri heilsu, hamingju eða velgengni í lífinu. Að ná velgengni í lífinu næst einmitt með því að takast á við vandamálin og erfiðleikana, leyfa mótlætinu að þroska sig og uppskera sem erfiði.  Það er oft mun ánægjulegra að hljóta eitthvað sem maður hefur virkilega þurft að vinna fyrir heldur en að eignast það án nokkurrar fyrirhafnar.

 

Hvert svo sem markmiðið er skiptir öllu máli að gefast ekki upp. Það er mikilvægt að gera ráð fyrir því að eitthvað muni fara úrskeiðis og ekki ganga upp eins og áætlað var. Lífið er ekki alltaf sanngjarnt en öllu máli skiptir að gera það besta úr því á hverjum tíma. Enginn einstaklingur er merkilegri en annar og allir eiga skilið að búa við velgengni og vellíðan. Hver og einn hefur mikið um eigin heilsu og líðan að segja. Hægt er að auðga lífið með því að taka ábyrgð á andlegri jafnt sem líkamlegri heilsu og rækta hana.

 

Boðskapur geðorðanna, um það hvernig við náum velgengni og vellíðan í lífinu snýst um hugarfar, að hugsa jákvætt. Við þurfum að hlú að þeim sem okkur þykir vænt um og rækta fjölskyldu- og vináttubönd.  Við þurfum að sýna umburðarlyndi, læra af mistökum okkar og hreyfa okkur reglulega.  Ef við náum að framfylgja þessu aukum við líkur á velgengni og vellíðan í okkar lífi.

 

 

 

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Geðræktar

 

 

 

frá Landlæknisembættinu